sunnudagur, 29. júní 2008

Júní á enda brrr og kuldi og trekkur

Nú er júnímánðuður að taka enda með rigningu og kulda, brrrrr. Það hefur verið lítið að gera nema vinna, borða, sofa og svo smá tiltekt við og við. Guðný er búin að taka bóklega bílprófið og náði en það vildi svo óheppilega til að keyrt var á hana sama daginn og lítur út fyrir að bíllinn sé ónýtur, já allt getur gersten sem betur fer vorum við í fullum rétti. Við erum semsagt með lítinn bílaleigubíl þar til búið er að meta bílinn okkar.
Nú er vika þar til ég fer í sumarfrí og hálfur mánuður þar til Ómar fer í frí, :o) Það verður gott að komast í sumarfrí þó svo veðrið segi manni að það sé lítið sumar þessa dagana og betra að halda sig innan dyra. Við eigum von á Lilju systir frá Vestmannaeyjum og hannar föruneyti og verður gaman að hitta þau loksins. Hafsteinn er að fara að keppa svo maður verður eitthvað á vellinum á komandi viku. En svona til að gleðja ykkur þá setti ég inn myndir á myndasíðuna mína, loksins, en það eru myndir frá göngunni á Gjögurfjall og Látraströnd á dögunum. Endilaga kíkið á myndbrot.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 16. júní 2008

Það er að koma 17. júní

Það er naumast að tíminn flýgur áfram, ég hef ekki skrifað hér í rúman hálfan mánuð. En nóg hefur verið að gera hjá okkur og er það kannski ástæðan fyrir bloggleysinu. Laugardaginn 7. júní skelltum við Eygló okkur út í Hrísey til ömmu og afa í kaffi og til að taka þátt í kvennahlaupinu. Sunnudaginn 8 júní fórum við svo aftur út í Hrísey því verið var að opna nýja íþróttahúsið. Húsið er stórglæsilegt og geta eyjaskeggjar ekki kvartað yfir plássleysi til íþróttaiðkunar, allir í ræktina :o). Einhverjir eiga þó sjálfsagt eftir að sakna Sæborgar enda átt margar góðar stundir þar um ævina.
Síðan leið vikan og var þá nóg að gera hjá öllum fjölskyldumeðlimum í vinnu meðan yngsti meðlimurinn stundaði fimleika af fullum krafti.
Um helgina skellti ég mér í gönguferð með Ferðafélagi Akureyrar. Þetta var tveggja daga ferð, siglt að látrum og komið sér fyrir í skálanum. Að því loknu var gengið að og upp Uxaskarð og svo gengið á Gjögurfjall þar sem við fengum geggja útsýni þó svo þokubakki hafi aðeins truflað útsýnið. Þegar allir höfðu fengið nægju sína af fjallasýn var haldið til baka í skálann og tók þessi ganga um 6 klukkustundir. Um kvöldið var kvöldvaka þar sem Gunnar Halldórs stjórnaði fjöldasöng og fólk reitti af sér brandara. Reyndar var þreyta að hrjá þennan 15 manna hóp og voru allir komnir í koju klukkan 22:00. Á degi tvö var vaknað klukkan 08:00, borðaður morgunverður og svo pakkað niður fyrir heimferðina. Haldið var að stað klukkan 09:15 og gengin látraströndin endilöng til Grenivíkur og tók sú ganga um 9 tíma, reyndar með þó nokkrum stoppum til að nærast og skoða útsýnið. Ferðin var frábær enda dásamlegt útsýni og skemmtilegur hópur sem þarna var á ferð. Það var þreyttur hópur sem lenti á Grenivík klukkan 18:00 og má segja að Grenivík hafi sjaldan verið eins fögur og þennan dag þegar við drösluðumst síðustu kílómetrana, en þetta mun hafa verið um 21 kílómetri sem arkaður var. Nú er 17 júní á morgun og ætla ég að taka það rólega í Hrísey og hlaða batteríin fyrir komandi vinnuviku.Set inn fleiri myndir síðar
Þangað til næst
Kveðja Drífa

sunnudagur, 1. júní 2008

Sjómannahelgin

Skelltum okkur út í Hrísey í dag og fórum með stórfjölskyldunni á glæsilegt kaffihlaðborð í Sæborg. Gaman að sjá hve vel er mætt því svo virðist sem á mörgum stöðum sé sjómannahelgin orðin hálf ómerkileg sökum lítillar þátttöku og áhugaleysis. Það skiptir víst máli að sjómennskan er á undanhaldi víða og á í vök að verjast. En þó Ómar sé hættur á sjónum finnst mér mikilvægt að haldið sé uppi heiðri sjómanna þessa helgi og er það sjálfsagt eitthvað tengt uppvexti mínum því pabbi var á sjónum alla mína barnæsku og mun lengur en það.


Guðný og Aron komu með okkur og Guðný mín keyrði út á sand og til baka enda mikilvægt að hún æfi sig áður en stóra stundin rennur upp, bílprófið. Hún fór líka rúnt á dráttarvélinni með afa sinn sér innan handar og leiddist það ekki. Eygló fór út í eyju á föstudagskvöldið til að missa ekki af siglingunni á laugardagsmorgunin en svo virðist sem hún hafi orðið hálf veik, allavega varð hún frekar slöpp eftir sjóferð þá. Það stoppaði hana samt ekki í að verða eftir í Hrísey til að passa frænda sinn, hann Ólaf Þorstein. Þau Ella og Árni voru í eyjunni og var gaman að hitta þau hjónakornin enda gerist það sjaldan.
Hér sit ég ein og rita þessi orð meðan Ómar er að vinna á Vélsmiðjunni og Guðný og Aron eru niðri að læra fyrir prófin sem eru í næstu viku. Ég hef verið að þvælast í tölvunni, hlusta á tónlist og lesa fréttir og leiðist það ekki. Gott að vera stundum einn með sjálfum sér og gera sama og ekki neitt. Ég rakst á skemmtilegt myndband með einum af mínum uppáhalds tónlistarmönnum:

http://www.youtube.com/watch?v=b_eUnxDE8YY&feature=related

Þangað til næst og gleðilega hátíð sjómenn og fjölskyldur þeirra
Kveðja Drífa