þriðjudagur, 27. febrúar 2007

Hrikalega erum við klár

Tíminn flýgur áfram og nú er febrúar, sem mér fannst vera ný byrjaður, á enda. Hvernig endar þetta :o) Veðrið er þokkalegt hér norðan heiða þrátt fyrir svolítinn kulda og við gátum meira að segja farið út í dag án þess að vera í stórhættu við að anda. Já það er gott að búa í Hrísey á svona dögum.
En ég rak nefið í þennan skemmtilega texta:

Svmkmaæt rnsanókn við Cmabrigde hkóásla þá stkpiir ekki mlái í hðvaa röð stfiar í oðri eru, það enia sem stikipr mlái er að frtsyi og stíasði stinaurfn séu á rtéutm satð. Aillr hniir sfitarnir gtea vireð í aöljrgu rlgui en þú gtuer smat lseið það aðvuledlgea. Áæðsatn fiyrr þsesu er að mnnashgrniuun les ekki hevrn satf friyr sig hleudr oirðð sem hiled.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 26. febrúar 2007

Að trúa skiptir máli og faðmlag ekki síður

Ég renndi yfir moggann í dag og sá þar grein um það hve trúin getur haft mikil áhrif. Þá er ég ekki að tala um trú á æðri máttarvöld heldur trú á eigin getu.
Í Bandarískri rannsókn voru 90 börn tekin til athugunar en þau áttu það sameiginlegt að stærðfræðieinkunnir þeirra höfðu versnað. Nemendum var skipt í tvo hópa og fengu báðir hóparnir námskeið Listin að læra en annar hópurinn fékk einnig kyningu á kenningum um hæfileika heilans til að þróa með sér meiri gáfur. Þeir nemar sem fræddust um gáfnakenninguna sneru blaðinu við og einkunnir þeirra fóru hækkandi en hjá hinum héldu þær áfram að lækka sem segir okkur að trú á eigin getu og framfarir skiptir máli.
Á sömu síðu var greint frá rannsókn sem gaf þá niðurstöðu að knús sé hollt. Fólk sem faðmast mikið, af rannsókninni að dæma, á að vera minna móttækilegt fyrir streitu og þar með í minni hættu á að fá hjartasjúkdóma.
Nú er bara að taka sér tak og faðmast reglulega á hverjum degi til að létta á streitunni og trúa því stöðugt að við getum orðið miklu gáfaðari en við erum nú þegar.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

laugardagur, 24. febrúar 2007

Eitt orð getur breytt öllu

Ég renndi yfir fréttablaðið í dag og sá þar frétt " Thelma Ásdísar á lista vinstri grænna". Þrátt fyrir lítinn áhuga á vinstri grænum þá renndi ég yfir greinina og rak augun í þessa furðulegu setningu "Thelma vinnur hjá Stígamótum og það lá óvenjuvel á henni þegar fréttablaðið hringdi".

Ég þekki nú ekki mikið til þessarar ágætu konu en varð vör við hana í fjölmiðlum eins og sjálfsagt aðrir þegar bókin hennar "Myndin af pabba" kom út. Það litla sem ég hef séð af Thelmu þá hefur mér fundist hún bara nokkuð kát og glöð þrátt fyrir allt sem hún hefur mátt þola og undrast því þessi ummæli (sem eru nú örugglega mistök blaðamanns sem ég rak nefið í).

Thelma var reyndar mjög kát þegar fréttablaðið hafði samand þar sem hún hafði fengið fregnir af því að klámráðstefnan yrði ekki að veruleika sem ég ætla nú ekki að commenta um enda tengist það ekki þessum skrifum mínum. Að mínu mati hefði mátt segja frá gleði Thelmu á annan hátt t.d. " Thelma vinnur hjá stígamótum og lá vel á henni þegar fréttablaðið hringdi þar sem hún hafði fengið fregnir af því að.... bla bla bla. Óvenjuvel í burtu og fólk (allavega ég) fær allt aðra sýn á lundarfar Thelmu. Spurning að sækja um hjá fréttablaðinu.

þangað til næst
Kveðja Drífa

fimmtudagur, 22. febrúar 2007

Seint blogga sumir en blogga þó

Ég er alltaf fegin þegar þessir árlegu dagar eru á enda þ.e. bolludagur, sprengidagur og öskudagur. Við fjölskyldan skelltum okkur á öskudagsball að vanda eins og sjá má.




Ég ásamt Magnúsi og Eyjólfi. Guðný var draugur og Eygló Norn. En til að gleðja ykkur setti ég hér mynd sem ég lofaði Sirrý. Þetta er semsagt hún Linda mín eftir lagninguna, flott á því.

Þangað til næst

Kveðja Drífa

fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Innlit - Útlit , framhald


Árið 1999 var farið að bera á því að útliti mínu hrakaði (sjá mynd)

Síðan þá hefur þetta farið versnandi ár frá ári og um daginn leit ég einhvernveginn svona út (sjá mynd).


Einstæða móðirin með rauðvínið hafði sitt álit og vildi meina að ég liti betur út með hárið beint upp, heldur en út um allt, svo ég breytti enn og aftur um stíl og setti nú nýjustu myndina af mér með gult hárið greitt upp. Allt fyrir einstæðu móðurina í Hafnarfirði sem drekka rauðvín.
Skál fyrir því :o)

Þangað til næst
Kveðja Drífa.

Innlit - Útlit

Hún Linda mín vakti athygli einstæðrar móður úr Hafnarfirði á útliti mínu með spurningu sinni "Hvernig finnst þér hárið á Drífu á myndinni? ". Ég var ný búin að koma með ráð um að vera ekki að spyrja spurninga á við þessa en sumir taka ekki tali :o)

Einstæða móðirin með rauðvínið vildi meina að útlit mitt hafi verið gott árið 1998 (sjá mynd) en eftir það hafi því hrakað en það var einmitt þá sem ég flutti í Hrísey frá Vestmannaeyjum. Það er því spurning hvort það tengist flutningnum á einhvern hátt. Ég ákvað að líta yfir sögu og strax árið 1999 var farið að bera á þessu.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

laugardagur, 10. febrúar 2007

Viltu svar eða ekki?

Það er skrítið að fólk spyr mann oft spurninga en vill í raun ekki svar eða eigum við að segja, ekki hvaða svar sem er.

Fólk spyr mann spurninga af ýmsu tagi:

Hvernig líður þér?
Hvernig finnst þér fötin sem ég er í?
Hvernig finnst ykkur hárið á mér?
Hvað finnst þér um kærastann minn?

Þegar fólk er að spyrja spurninga mætti ætla að fólk vildi fá svör eða hvað? Nei, fólk vill ekki endilega fá hreinskilin svör heldur svör sem hentar því. Fólk getur brugðist hið versta við ef maður svarar eftir sinni bestu sannfæringu og segir satt og rétt frá viðhorfi sínu til ákveðinna viðfangsefna.

Dæmi um óvinsæl svör:

Mér líður mjög illa og er búin að vera með niðurgang í allan dag!
Ég myndi frekar fara í fötunum sem þú varst í áðan!
Hárið er helst til stutt að mínu mati, það fer þér betur að vera með síðara!
Svona þér að segja þá finnst mér hann stundum dónalegur!

Svör af þessu tagi er fólk ekki að leita eftir nema það sé sammála þér og þess vegna er spurning hvort maður eigi nokkuð að vera að svara fólki því það gæti vel farið svo að fólk tali ekki við mann aftur til langs tíma þ.e. ef svarið er rangt að þeirra mati.

Skynsamlegt ráð:

Ekki spyrja fólk spurninga sem þú vilt í raun ekki svar við. Svarið gæti nefnilega verið annað en þú væntir.

Þangað til næst

Kveðja Drífa

Hvað lífið getur verið ósanngjarnt og við fáum í raun litlu ráðið

Það er ótrúlegt hvað við fáum í raun litlu ráðið um líf okkar, ekki síst þegar við erum börn og lendum í aðstæðum sem við ráðum ekki við. Mér finnst skelfilegt að heyra allar þessar fréttir af hinum ýmsu heimilum þar sem vistmenn hafa mátt þola ofbeldi eða kúgun af einhverju tagi.
Af frásögnum að dæma fengu drengirnir á Breiðuvík hræðilega meðferð og verð ég reið þegar ég heyri sögur af dvöl þeirra á þessu hræðilega heimili. Að sjá fullorðna einstaklinga brotna saman og gráta fyrir alþjóð, fjörtíu árum eftir þessa atburði, bendir til þess að mikið hafi gengið á. Hvernig var hægt að senda unga drengi út í sveit og láta slíkt ofbeldi sem þar virðist hafa átt sér stað viðgangast án nokkurs eftirlits.

Valdbeiting, ofbeldi og virðingarleysi við allt, sem lífsanda dregur, hefur verið ríkjandi við stjórnun heimsmála í aldanna rás en ekki síður við stjórn í fjölskyldum, á heimilum og öðrum stöðum. Það virðast alltaf einhverjir vitleysingar ná völdum og höndla ekki að nýta þau til góðs heldur nýta það til að brjóta á öðrum.

"Félagsmálaráðherra ætlar að láta rannsaka málefni vistheimilisins í Breiðuvík og fleiri stofnana og hagi þeirra sem þar voru vistaðir. Til greina kemur að greiða vistmönnum bætur vegna hrottalegrar meðferðar á heimilinu." vísir.is.

Það á sem betur fer að rannsaka málefni Breiðuvíkur og setja aura í að veita þeim áfallahjálp. Ég held að stjórnvöld ættu að taka sig saman í andlitinu og efla fagmennsku á vistheimilum en kasta ekki peningunum út um gluggann (í einhverja vitleysinga) og fría sig þannig allri ábyrgð “Fyrirgefið, við bara gleymdum að fylgjast með"

Þangað til næst
Drífa

mánudagur, 5. febrúar 2007

Að flagga líkamspörtum

Ég rakst á grein á vísir.is sem ber þetta furðulega heiti "Paris Hilton og Ron Jeremy flögguðu líkamspörtum". Mér hálf brá og sá fyrir mér þetta ágæta fólk sveiflandi líkamspörtum sínum eða annarra en sem betur fer var þetta ekki svo slæmt heldur voru þau að sýna hvort öðru ákveðin svæði á líkama sínum. Fréttir herma að þau hafi farið í samkvæmisleik fyrir einhverjum árum "Ég sýni þér mitt, ef þú sýnir mér þitt" skemmtilegur leikur, ekki satt??? Spurning hvort leikir sem þessi verða teknir upp á Þorrablóti Hríseyinga um komandi helgi :o) Miðað við ýmislegt sem gengur á í okkar annars ágæta þjóðfélagi þá kæmi það manni ekki á óvart.
Lesið frétt:
http://www.visir.is/article/20070205/LIFID01/70205087/-1/LIFID

Þangað til næst

Kveðja Drífa

sunnudagur, 4. febrúar 2007

Blessaðir bílarnir

Bílahald hefur verið efni bloggsins hjá mér í dag og ég hef mínar skoðanir hvað það varðar.
Mér fannst hálf óhugnanlegt þegar ég rak nefið í þær fimm fréttir frá Mbl sem birtast hér neðst á síðunni hjá mér en þær vekja mann enn frekar til umhugsunar um mikilvægi þess að hver og einn hugi að því hvernig hann hagar sér í umferðinni. Slysin gera ekki boð á undan sér og þess vegna er mikilvægt að meta aðstæður hverju sinni og sofna ekki á verðinum.

Þessar óskemmtilegu fréttir var að finna á Mbl.is í dag:

Umferðarslys á Miklubraut
Bílvelta á Snæfellsnesvegi
Átta fluttir á sjúkrahús eftir þriggja bíla árekstur
Þriggja bíla árekstur varð við norðurenda Hvalfjarðarganganna
Bílvelta við Grundartanga

Þangað til næst
Kveðja Drífa

Hver hefur rétt og hver ekki?

Oft er rætt um hundahald á hinum ýmsu stöðum en nú nýlega lenti ég á spjalli um bílahald í Hrísey og vakti athygli mina að viðkomandi aðili talaði um rétt sinn til að eiga bíl. Jú, jú það hafa sjálfsagt allir rétt til að eiga bíl og sumir rétt til að keyra hann um göturnar í Hrísey en ef allir ætla að nýta þennan rétt sinn verður (ef heldur áfram sem horfir) bráðlega einn bill (og jafnvel dráttarvél og snjósleði) við öll hús í Hrísey sem þýðir samkvæmt talningu minni á húsum hér í Hrísey um 100 bílar. En athugið! aðeins ef við vonumst til þess að það verði bara einn bill á heimili en ekki tveir eins og er mjög algengt í öðrum byggðarlögum því þá verða þeir nær 200.

Réttur er eitthvað sem menn telja sig hafa og virðist mörgum vera sama um aðra þegar þeir huga að rétti sínum hvað varðar hin ýmsu málefni. Ég hef jú rétt til að eiga bíl í Hrísey og leggja hér fyrir utan heimili mitt en hvað fylgir þeim rétti mínum að vera bílaeigandi og aka um á bílunum mínum?? Lítum aðeins á rétt minn og því sem honum fylgir:
1. Ég þarf að fara eftir settum umferðarreglum ekki satt??
2. Ég þarf að virða hámarkshraða , umferðaskilti og gangandi vegfarendur
3. Ég þarf að nota bílbelti
4. Ég þarf að setja börnin mín í bílstóla og bílbelti eftir því sem við á
5. Ég þarf að fara með bílinn minn í skoðun
6. Ég þarf að borga tryggingar af bílnum mínum
7. Ég þarf að hafa ökuskírteini
8. Ég má ekki keyra full eða undir áhrifum lyfja
9. Og svo má lengi telja

Þangað til næst
Kveðja Drífa

Áframhald: Hver hefur rétt og hver ekki?

Ef ég tala um rétt minn til að eiga bíl og aka honum um þá er ansi margt sem ég þarf að uppfylla til að missa ekki þann rétt sem ég tel mig hafa. Brot á lögum og reglum fyrirgera nefnilega oft rétti fólks til að halda rétti sínum, skrítið ekki satt. Ég sjálf missti rétt minn í ákveðin tíma (svona með sjálfri mér þar sem ég var ekki tekin fyrir brotið) því ég braut eitt af ofangreindu fyrir nokkrum árum. Ég hef iðrast og öðlast rétt minn aftur og ætla að halda honum.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

Áframhald: Hver hefur rétt og hver ekki?

Ég er sögð vera á móti bifreiðum í Hrísey og má vel vera að eitthvað sé til í því. Þegar ég flutti í Hrísey fannst mér umhverfið hér mjög sérstakt því hér voru nánast engar bifreiðar heldur aðeins dráttarvélar. Fólk sem heimsótti mig fannst þetta mjög merkilegt en nú í dag finnst þeim miður hvernig málin hafa þróast og tala ekki lengur um sérkenni okkar sem var „dráttarvélar“ heldur tala um það hve margir bílar séu í Hrísey. Ég tel að þetta hafi áhrif á ferðamennsku í Hrísey, því miður. Það er nefnilega skemmtilegt að heimsækja staði sem hafa sérkenni eða það finnst mér.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

Áframhald: Hver hefur rétt og hver ekki?

En ég vil frekar segja að ég sé á móti þeim sem aka bifreiðunum og fara ekki eftir lögum og reglum hvað það varðar því bíllinn er dauður hlutur sem við lifandi stjórnum. Það er leitt að sjá suma ökumenn, hvort sem er á bifreiðum eða dráttarvélum, keyra um Hrísey eins og kóngar í sínu eigin ríki sem þurfa ekki að taka tillit til annarra, hvorki farþega í bílnum né þeirra sem verða á vegi þeirra.

Sumir hverjir virða hvorki hraðatakmörk né umferðarskilti. Sumir nenna ekki að spenna á sig beltið. Sumir láta börnin vera laus í bílunum og jafnvel sitja á lærum sér undir stýri (og vil ég ekki hugsa þá hugsun til enda ef eitthvað kemur uppá). Sumir velta ekki fyrir sér hvort lítið barn geti komið hlaupandi fyrir næsta horn eða sé að renna sér í næsta nágrenni. Það er þetta sem ég er á móti.

Ég veit vel að þetta á ekki við um alla og sumir keyra mjög varlega um götur hér í okkar ástkæru eyju, Hrísey, en það á því miður ekki við um alla.

Þess vegna spyr ég : Hafa allir rétt til að aka bíl í Hrísey?
Mitt svar er: nei, því margur hefur brotið lög og reglur og fyrirgert rétti sínum hvað það varðar, ekki bara einu sinni heldur oft, jafnvel dag eftir dag.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

laugardagur, 3. febrúar 2007

Börn og barnauppeldi

Ég rakst á þetta á ferð minni um veraldarvefinn og ákvað að skella þessu hér inn

Einhver sagði:

ef þú ert "góð" móðir muni barnið líka "verða gott"
......sá hinn sami heldur að barni fylgi leiðbeiningar og ábyrgðarskírteini

Þangað til næst

Kveðja Drífa

föstudagur, 2. febrúar 2007

Nýtt útlit

Ég ákvað í kjölfar skrifa Lindu um falsaðar myndir að skella nýrri mynd af mér á síðuna haha. Ég veit að Ómar (minn) verður mjög ánægður þegar hann sér þessa breytingu á síðunni en það er spurning hvað Ómar (þinn) segir við því :o)

Þorrablót að nálgast

Þorrablót Hríseyinga er að ganga í garð og spurning hvernig það mun ganga fyrir sig þetta árið.

Fregnir herma að fleiri vilji koma en húsrúm leyfir og nefndarmenn séu farnir að svitna og sjái jafnvel fyrir sér að nefndin þurfi að sitja heima eða hreinlega að halda þurfi blótið utan dyra. Það er því spurning hvort ekki sé ráð að halda blótið þar sem fjölnota húsið mun standa í framtíðinni svo allir fái að vera með.
Vel hefur gengið að grafa fyrir grunninum og gæti það því vel gengið upp ef nægjanlegt skjól er (af Hlein) í moldargrunninum og viðkæmir geta jafnvel fengið borð á botni sundlaugarinnar þar sem hún stendur tóm. En án alls gríns þá verður hið glæsilega Þorrablót ársins 2007 haldið í Sæborg þann 10. febrúar og ætla þá Hríseyingar og gestir að skemmta sér, borða, blóta og dansa við lög Geirmundar fram á rauða nótt.

Þangað til næst

Kveðja Drífa

Grafarþögn

Hér hefur ríkt grafarþögn undanfarna daga enda hef ég verið að lagfæra þessa síðu og reyna að gera hana skárri, en hún skánar ekki neitt.

Ég var að ljúka við Grafarþögn sem hefur legið á náttborðinu mínu síðustu daga og var hún bara helv.... góð enda ekki við öðru að búast þegar slíkur höfundur sem Arnaldur á í hlut. Nú þegar Grafarþögn er á enda er ég að hugsa um að skella "Furðulegt háttalag hunds um nótt" á náttborðið hjá mér eftir Mark Haddon. Þar sem ég hef lítið lesið nema fræðibækur undanfarin 6 ár hef ég dregist aftur úr með að lesa allar mínar ágætu kiljur og ætla ég að njóta þeirra þar til ég verð tilbúin að hella mér út í Meistaraprófsritgerðina, púffidípúff, sem vonandi verður á næstunni.

Linda var eitthvað að commenta og hafa efasemdir um að myndin af mér sé tekin á toppi Mælifells en hún þyrfti ekki að efast ef hún hefði nennt með ha ha ha. Hver veit nema hún Linda mín eigi eftir að standa í mínum sporum, á toppi Mælifells, í framtíðinni og rita nafn sitt undir mitt til sönnunar fyrir afrekinu.

Annars gengur lífið sinn vanagang hér á Norðurveginum í Hrísey og lítð að gerast sem er í sjálfu sér ágætt og bendir til stöðugleika :o) Á maður ekki að líta á björtu hliðarnar.


Þangað til næst
Kveðja Drífa