miðvikudagur, 30. maí 2007

Á ferð og flugi

Það er brjálað að gera þessa dagana eins og sést á uppfærslum þessarar síðu, sem sagt ekkert að gerast hér en nú verður vonandi bót á því.
Ég hef verið að vinna með leikklúbbnum Kröflu og settum við upp sýninguna Hernám í Hrísey. Það er frásögu færandi að um 170 manns hafa sótt sýninguna sem er nokkuð gott í 170 manna samfélagi eins og Hrísey er. En allavega þá var ég að leika hana frú Lovísu og gekk þolanlega í sýningunum að ég held. En nú er aðeins ein sýning eftir svo að þeir sem vilja sjá frú Lovísu verða að skella sér í leikhús á föstudaginn klukkan 20:30.
Það er mikið um að vera hjá okkur fjölskyldunni. Við höfum ákveðið að flytjast til Akureyrar nú í sumar og yfirgefa okkar ágætu eyju. Dömurnar voru að ljúka skólanum í dag en það voru skólaslit í grunnskólanum í Hrísey. Guðný var að ljúka grunnskólanámi og Eygló var að ljúka skólanámi í Hrísey, allir að ljúka einhverju :o) Við höfum fest hendur á raðhúsi á Akureyri og atvinnumálin eru í vinnslu. Það kemur því í ljós á næstu dögum hvernig þetta verður allt saman hjá okkur.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 7. maí 2007

Úr einu í annað, frá hægri til vinstri

Þá er þessi dagur að kveldi kominn en það er svo bjart að maður getur bara ekki farið í rúmið enda vita flestir sem þekkja mig að ég færi aldrei að sofa klukkan 22:00. En nú var ég að koma af leikæfingu og er bara farin að finna mig svolítið í frú Lovísu :o) en svo kemur í ljós hvernig þetta tekst til.

Ég rak augun í bækurnar á náttborðinu og hugsaði með mér að það væri kominn tími til að endurnýja listann enda löngu komnar nýjar bækur, já komnar og farnar. Ég var eitthvað svo andlaus um daginn þegar ég fór á safnið enda deyja hugmyndir mínar að meistaraprófsritgerð jafnharðan og þær fæðast. Mig fýsti greinilega samt í einhvern fróðleik og tók bókina "Náttúrulækningar heimilisins" og spurnining hvort maður fari ekki bara að sjóða saman jurtir til að hafa eitthvað fyrir stafni. Svo til að efla þekkingu mína og dóttur minnar á myndlist tók ég bókina "Skoðum myndlist" og að lokum afþreyingu "Á undan sinni samtíð" eftir Ellert B. Schram. Svo nú vitið það.

Ég hef gaman af því að flakka um vefinn og lesa greinar eftir fólk, jafnt unga sem aldna, og rakst ég á þessa ágætu grein efitir Guðrúnu Jónsdóttur sem er á lista vinstri grænna í suðurlandskjördæmi. Það er hollt fyrir alla að lesa þessa grein því hún minnir okkur á hve upptekin við erum af veraldlgum gæðum og gleymum því mikilvægasta. Við gleymum nefnilega í hita leiksins að hugsa um okkar nánustu, að annast þá sem okkur þykir vænst um.
Endilega lesið greinina
http://www.eyjafrettir.is

Þangað til næst
Kveðja Drífa

sunnudagur, 6. maí 2007

Nú skal tekið á því

Ég vaknaði í morgun og fyrsta hugsunin var að nú gengi þetta ekki lengur. Ég reif mig á lappir og fékk mér morgunmat, skellti mér svo í gönguskóna og gekk gönguleiðina á nokkuð góðum hraða. Að því loknu skellti ég grænmeti í pott sem hesthúsaði áður en ég ryksugaði og skúraði gólfið og fór svo í bað.

Ég settist stolt við tölvuna og hugsaði með mér að nú væri ég komin í gírinn og á næstu vikum yrði lifað eftir þessari formúlu: Hollt mataræði og hreyfing takk fyrir

Ég fór nú inn á netið til að fá nýjustu fréttir og fyrsta sem ég rakst á var Megrunarlausi dagurinn, nei reyndar eftir að ég las um páfagaukinn sem var bjargað undan hillusamstæðu á Akureyri. Það er gott að slökkvuliðið hefur eitthvað að gera.

Ég fékk vægt áfall og hugsaði með mér hvílík örlög þetta væru. Ég fór að sjálfsögðu inn á vef samtakanna eins og greinarhöfundur benti mér á og las:
Á þessum degi eru allir hvattir til þess að láta af viðleitni sinni til þess að grennast þó ekki væri nema í einn dag, og leyfa sér að upplifa fegurð og fjölbreytileika mismunandi líkamsvaxtar og sjá fyrir sér veröld þar sem megrun er ekki til, þar sem hvers kyns líkamsvöxtur getur verið tákn um hreysti og fegurð og mismunun vegna holdarfars þekkist ekki. http://www.likamsvirding.blogspot.com

Já hvers á ég að gjalda. Nú er spurning hvort ég leyfi mér að upplifa fegurð og fjölbreytilileika mismunandi líkamsvaxtar með því að líta í spegil eða reyni að líta á vakningu mína á jákvæðan hátt þ.e. ekki sé um megrun að ræða heldur viðleitni til að lifa hollustusömu líferni.

Þangað til næst
Kveðja Drífa


miðvikudagur, 2. maí 2007

Spáin nokkuð góð eða hvað

Þegar maður hefur ekkert að gera kíkir maður á stjörnuspá og athugar hvort eitthvað eigi eftir að birta til hjá manni eða hvort eitthvað eigi eftir að gerast. Ég hafði ekkert að gera nú rétt í þessu og spáin í dag segir mér að vinir mínir treysta á að ég hressi þá við. Ég er mjög gefandi við náungann og mikil heppni fylgir mér hvert fótspor næstu daga. Ég bý yfir meðfæddri bjartsýni og framleiði eigið sólskin þegar rignir. (spámaður.is)

Það er naumast!!!

Ég man nú ekki eftir að hafa hresst eitthvað meira upp á fólk í kringum mig í dag heldur en vanalega en ég hef nú reynt að vera örlítið gefandi svona eins og mér er unnt. Ég verð heppin næstu daga segir spáin og best að vera vel vakandi við hvert fótspor en nú skil ég hvers vegna sólin skein kringum mig núna seinnipartinn á meðan allir hinir voru rennandi blautir en samkvæmt spánni er ég farin að framleiða eigið sólskin. Sól sól skín á mig.......

Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 1. maí 2007

Rúntað um í blíðunni

Þetta var ágætist dagur í dag, gott veður, en ég eyddi honum í að þrífa :o) þarf víst að gera það líka. Restin af fjölskyldunni skellti sér á Akureyri og tók þar yngri dóttir þátt í 1. maí hlaupi og stóð sig með sóma og lenti í 4 sæti, frábært hjá henni. Að launum fékk hún pizzu, svala og verðlaunapening sem hún sýndi mér með stolti þegar hún kom heim. Sem betur fer komst hún í hlaupið því seint í gærkveldi uppgötvuðum við foreldrarnir of seint að 1. maí er "rauður dagur á dagatali" og panta þarf ferjuna fyrir klukkan 22:00 kvöldið áður ef maður ætlar í land klukkan 9:00. Þar sem við vorum of sein treystum við því að einhver hefði sýnt fyrirhyggju og pantað ferjuna en svo var ekki. Þar sem við höfðum lofað dótturinni að hún mætti taka þátt í hlaupinu voru góð ráð dýr og kom það því í hlut smábátasjómanns að ferja okkur í land og reyndar taka farþega til baka sem biðu á bryggjupollanum fyrir handan. Ég veit að 1. maí er frídagur en maður spyr sig hvort þetta þurfi að vera svona.
Við grilluðum gómsætan fisk í kvöld og buðum hjónunum og börnum úr Kelahúsi að snæða með okkur. Skrapp síðan á kröfluæfingu í klukkan 20:00 og var þar lesið yfir handritið sem er orðið bara nokkuð gott. Það er því skemmtilegur tími framundan en það var líka skemmtilegt á heimleiðinni að sjá allt þetta fólk á rúntinum í blíðunni hér í Hrísey. Já það er hægt að rúnta í Hrísey þótt ótrúlegt sé.
Þangað til næst
Kveðja Drífa.