þriðjudagur, 24. júlí 2007

Sumarfrí, sumarfrí, sumarfrí-í-í

Nú er Hríseyjarhátíðin liðin og ég komin í sumarfrí, jibbý. Eins og börnin eru nú yndislegt þá er nauðsynlegt fyrir alla að komast í sumarfrí, bæði börn og starfsfólk. Það var erfitt að kveðja dúllurnar mínar á föstudaginn en ég á eftir að heimsækja þau áður en ég flyt úr eyjunni.
Hátíðin gekk slysalaust fyrir sig, að mínu viti, og ég var bara ánægði með minn þátt í skemmtuninni. Óvissuferðin gekk vel og flestir sáttir við það sem var í boði, sigling, Mangús og Eyjólfur, Kaldi og Björgvin Franz. Ég plataði hana Eyrúnu sem var í ferðinni til að senda mér myndirnar sínar, endilega kíkkið á þær.
Á sunnudeginum ákvað ég að vera með andlitsmálun sem börnunum þótti ekki leiðinlegt en á spjalli mínu við börnin spurði ég eina stúlku : Ertu í tjaldferðalagi hér í Hrísey? Stúlkan svaraði því neitandi svo ég spurði aftur: Ertu þá að gista hér hjá einhverjum? Nei svaraði stúlkan svo ég ákvað að leiða samræðurnar út á önnur mið þegar stúlkan sagði: ég er sko í fellihýsi!!

Já Drífa mín, tjald er ekki það sama og fellihýsi, come on :o)
Þangað til eftir frí
Kveðja Drífa.

miðvikudagur, 18. júlí 2007

Hátíð í bæ

Jæja nú er komið að hinni árlegu fjölskylduhátíð í Hrísey. Við hjónin erum nú ekki í nefndinni en við höfum tekið að okkur ákveðin verkefni enda mikilvægt að allir séu þátttakendur. Ég mun sjá um óvissuferðina í ár, ásamt mínum ektamanni og tveimur skemmtilegum karakterum hér í Hrísey. Óvissuferðin hefur fest í sessi enda alltaf skemmtilegt að fara á vit ævintýranna. Auglýsingin fyrir óvissuferðina er að finna hér og endilega skellið ykkur með.
Það er gaman að segja frá því að mamma og pabbi komu til okkar í gær og ætla að eyða helginni hér í Hrísey, alltaf gaman að fá hjónakornin í heimsókn en við hittumst allt of sjaldan enda langt að fara frá eyjunni í norðri til eyjunnar í suðri og öfugt.
Nú er að koma að því að ég hætti störfum í leikskólanum í Hrísey :o( og eru aðeins 2 dagar þar til ég þarf að kveðja börnin, það verður erfitt. En ég fer á nýjan vinnustað, Leikskólann Kiðagil, þar sem er fullt af börnum:o) og hlakka ég til að takast á við það verkefni. Við erum farin að pakka á fullu, stilla upp og gera klárt, og ætlum að flatmaga á ströndum spánar í tvær vikur nú á næstunni :o) Ekki leiðinlegt það.
Það er best að ljúka þessu þar sem ég hef ekkert að segja. Ég las reyndar að hann Lúkas væri bar alls ekki látinn, þrátt fyrir minningarathafnir nær og fjær, sem er gott mál. Já það er stundum betra að hafa orðin færri
Þangað til næst
Kveðja Drífa

sunnudagur, 15. júlí 2007

Afmæli dag eftir dag

Ég hef ekki nennt að blogga um helgina enda verið að pakka niður og verið á mannamótum. Það hefur lítið gerst um helgina nema hvað að mikið er um afmæli í kringum mig. Brói átti afmæli þann 12 júlí og auðvitað gleymdi ég að óska honum til hamingju svo ég þurfti að hringja í hann aftur, einum 45 mínútum eftir að ég talaði við hann. Ég man oftast nær ekki afmælisdaga og bið því alla, hér með, að fyrirgefa mér ef ég óska þeim ekki til hamingju með daginn.
Helena og Sveinbjörn buðu okkur í mat á föstudagskvöldið þar sem frúin bauð upp á gómsæta fiskisúpu og hvítvín til að skola henni niður með og svo var malað eitthvað frameftir. Laugardagurinn fór í að pakka niður, skella mér í klippingu og svo var mér boðið í smá heimboð þegar líða tók á kvöldið sem var mjög gaman.

En ég mundi eftir afmæli dótturinnar :o) þann 13. júlí þó svo hún hafi ekki verið heima. Nú er hún orðin 16 ára daman og fer að læra á bíl fljótlega (oh. mæ god)Mér finnst svo stutt síðan hún Guðný var bara pínu kríliHér voru sumar reyndar ekki mjög ánægðar eins og sést.

En til hamingju með daginn Guðný mín með árin 16.
Tíminn líður hratt og hann Ómar minn á afmæli á morgun þann 16. júlí og ég man bara ekki hvað hann er gamall, alveg stolið úr mér :o)


Hann leit allavega einhernveginn svona út þegar hann var ungur. Hann hefur aðeins breyst en ekki svo mjög ..... hahah


Jæja það er best að hætta þessu rugli en Kristín vinkona á afmæli þann 18. júlí og tengdamamma þann 22 svo það er nóg að gera í ömmulum þessa dagana.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Göng eða ekki göng

Það vildi svo til að ég var að vafra um veraldarvefinn og datt inn á blogg nokkurra einstaklinga frá Vestmannaeyjum, mínum kæru. Það eina sem komst að í þessum bloggum var göng milli lands og eyja sem vakti mig til umhugsunar. Er það virkilega það sem fólk vill, að fá göng??

Ég bý á Eyju og líkar vel þó svo ég sé reyndar að fara að færa mig um set sökum þess að við töldum tímabært að sækja á önnur mið. Ég mundi ekki vilja sjá mig né aðra af fastalandinu fá sér rúnt út í Hrísey í tíma og ó-tíma enda vil ég ekki sjá alla þessa bíla hér sem hafa tvöfaldast ef ekki meira síðustu ár. Það eru bílar hér á ferðinni með þreytta eigendur innanborðs, á aldrinum 20-40 ára, en 60-80 ára ferðast um fótgangandi, eru greinilega orðnir nægilega þroskaðir.

Ég veit ég get ekki sett = merki milli Hríseyjar og Vestmannaeyja þar sem Sævar er aðeins 15 mínútur að koma manni milli staða meðan að Herjólfur gamli er 2 tíma og 45 mínútur að dóla þetta. En er fólk búið að hugsa málið hvað breytist við að fá göng. Það verður stuð á þjóðhátíð, pæjumóti, pollamóti, goslokahátíð og fleiri skemmtunum þegar bílalestin verður frosin í miðjum göngum sökum fjölda, eða hvað? Og hvað með gatnakerfið, er það tilbúið að takast á við þá bílaumferð sem mun skapast? Flutningabílar hlykkjast í göngunum, rútur með sjóveika ferðalanga sem loksins treysta sér til okkar fögru Vestmannaeyja svo eitthvað sé upptalið.

Nei þetta eru nú bara vangaveltur mínar um þessi göng því mér finnst Vestmannaeyjar, eins og Hrísey, eigi að halda í þá sérstöðu að vera Eyja. Margir Eyjaskeggjar fara svo margar ferðir á fastlandið að maður hugsar stundum hvers vegna það fólk flytur hreinlega ekki til byggða í stað þess að veltast þetta fram og til baka.

Nú er ég örugglega búin að gera einhverja kolvitlausa með þessum ó-ábyrgu skrifum mínum en ég held það vanti að fólk staldri aðeins við og hugsi hvað það vill í raun og veru lifa við. Er ekki kominn tími til að slaka á og njóta þess sem Eyjan hefur að bjóða (ef vilji er til að búa þar) í stað þess að sækja stíft á önnur mið. Ég man þá tíð sem maður fór með dallinum um helgar til að keppa í íþróttum en annars var maður bara heima hjá sér, fór mestalagi í sumarfrí út fyrir hafnargarðinn. Nú eru íþróttamótin svo mörg, tjaldvagnar á hverjum krók, utanlandsferðir á hverju strái sem veldur því að það eru ekki nægur tími til að sinna öllum hugðarefnum fjölskyldunnar svo allir séu sáttir.
Eru gerviþarfir farnar að spila of stórt hlutverk í lífi okkar.
Stöldrum við og njótum augnabliksins.

Þangað til næst (vonandi)
Kveðja Drífa

föstudagur, 6. júlí 2007

Fimm stig í lífi kvenna

Á hvaða stigi ert þú?????

To growTo fill outTo slim downTo hold it into hell with it :o)


Þangað til næst
Kveðja Drífa

miðvikudagur, 4. júlí 2007

Tilfinningar

Ég er svo heppin (að mínu mati ) að vera fædd í hrútsmerkinu og var störnuspáin mín í dag eitthvað á þessa leið:
  • Haltu þig við eigin tilfinningar og skynjun. Leitaðu að þínum sönnu hvötum, markmiðum og áhugamálum sem bæta samskipti þín og gagnkvæma virðingu í sambandi sem tengist þér og mundu að þú hefur fullan rétta á tilfinningum þínum. Tilfinningar eru staðreyndir og er fólk sem borið er í heiminn undir stjörnu hrútsins minnt á þá staðreynd þessa dagana af einhverjum ástæðum.

Það er nú gott að ég hef fullan rétt á öllum þessum tilfinningum sem eru að brjótast um í mér :o) Ég hef nú reyndar ekki á í vanda með að tjá mig um þær í gegnum tíðina eins og þeir sem mig þekkja vita.
Þar sem við fjölskyldan erum á útleið nú fljótlega datt mér í hug að það væri ekki vitlaust að ég fengi mér sundbol eins og þennan til að gleðja augu fólks á sundlaugarbakkanu, þannig gæti ég leitt augu fólks frá frjálslega vöxnum líka mínum eða..... kanski mundi það virka öfugt.
En sökum kulda ákvað ég að skella þessari mynd hér inn. Vissuð þið þetta?

Smellið á myndina
Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 3. júlí 2007

Helgin liðin

Skellti mér með fjölskylduna í útilegu í Vaglaskóg sem var bara mjög fínt. Veðrið var náttúrlega geggjað og ferðafélagarnir líka sem segir allt sem segja þarf. Var að setja inn myndir frá ferðinni inn á myndasíðuna mína fyrir þá sem hafa áhuga.
Í dag var þokuslæðingur og skítakuldi framan af degi. Ég verð nú að segja að ég hlakka til að fara í sumarfrí sem hefst eftur 3 vikur en þá ætlum við fjölskyldan að bregða okkur erlendis og sleikja sólina ef hún verður ekki búin sökum hitabylgju víða :o)

Jæja það er best að hætta þessu röfli og fara að sofa. Ég fann þessa skemmtilegu mynd þegar ég var að taka til í tölvunni, gömul en stendur fyrir sínu.

Þangað til næst

Kveðja Drífa