þriðjudagur, 12. ágúst 2008

Blogg-leti

Nú er sumarfríið á enda hjá okkur hjónum og verður gott þegar allt er komið á rétt ról, skóli hjá dömunum og alles. Ég hef víst ekki bloggað síðan um verslunarmannahelgi en svona til að ljúka öllum skrifum um þá helgi þá var skemmtunin á Akureyrarvelli á sunnudagskvöldið frábær í alla staði og flugeldasýningin gat ekki verið betri. Skipuleggjendur eiga heiður skilið fyrir skemmtilega helgi og vonandi verður skipulag í þessa átt í framtíðinni.

Björg vinkona dvaldi hjá mér í síðustu viku ásamt fjölskyldu og var virkilega gaman að fá þau hingað norður. Við hittumst alltof sjaldan. Við fórum dagsferð í Mývatnssveit með nesti og nýja skó og fórum í göngu um Dimmuborgir sem er mjög fallegur staður. Stefni á að skella mér þangað aftur í desember með Eygló til að hitta sveinkana sem líklega verða þar á ferli.

Annars áttum við bara notalegar stundir auk þess að skella okkur á Dalvík föstudagskvöldið. Við fórum á súpukvöldið sem var mjög skemmtilegt og margt um manninn. Á laugardeginum fór Björg heim til Grindavíkur með allt sitt hafurtask og við skelltum okkur á Fiskidaginn til að sjá herlegheitin. Við smökkuðum eitthvað af fiski, kíktum á markaðinn og Eygló skellti sér á hestbak og svo var haldið heim á leið. Þetta var fyrsta heimsókn mín á fiskidaginn og skemmtilegt hve margir leggja leið sína þangað. Skemmtilega fjölbreyttir fiskréttir voru í boði í miklu magni og gos og íspinnar flæddu um svæðið. Ég vil óska Júlla til hamingju með daginn, hann á heiður skilið fyrir áhugaverða og skemmtilega hátíð. Eitt fannst mér þó með ólíkindum. Þrátt fyrir augljós ruslakör um alla bryggju og fjölda starfsmanna sem sá um að tæma þau þá rataði rusl gestanna ekki alltaf rétta leið og mátti sjá pappadiska, servéttur, gosglös og sælgætisbréf víð og dreif um bryggjuna. Er ekki málið að við Íslendingar förum að ganga betur um. Ég myndi ekki nenna að bjóða fólki til veislu ef það henti leirtauinu og matarafgöngum á gólfið að lokinni veislu og færi svo heim án þess varla að þakka fyrir sig. Að lokum. Takk Dalvíkingar fyrir góðar móttökur og skemmtilega hátíð.

En nú er alvaran tekin við eftir gott sumar hér norðan heiða, sól og ferðalög um nærsveitir.
Hver veit nema ég sýni dugnað og setji myndir inn á næstu dögum

Þangað til næst

Kveðja Drífa

sunnudagur, 3. ágúst 2008

Verslunarmannahelgin

Frá því ég bloggaði síðast höfum við fjölskyldan haft það gott í sólinni og hitanum og notið þess að vera til þó svo Guðný eyði mestum tíma á Bautanum í vinnu. Ég og Elfa vinkona skelltum okkur í fjallgöngu í vikunni og gengum á súlur. Við gátum ekki fengið betra veður og ekki hægt að fá betra útsýni þó svo hitinn hafi reyndar verið að stríða okkur aðeins. Við komumst samt heilar heim, óbrenndar.

Ég, Ómar og Eygló skelltum okkur svo einn dag út í Hrísey og kíktum í nokkur hús :o) Við enduðum svo með að borða hjá tengdó áður en við yfirgáfum eyjuna og svo var farið beint til Þórunnar og Rúnars á sandinum í smá kaffisopa áður en haldið var heim á leið.

Vikan flaug áfram og áður en við vissum af var komin verslunarmannahelgi og Eygló varð 9 ára gömul þann 1. ágúst. Við héldum nú ekki upp á afmælið en áttum að sjálfsögðu nóg með kaffinu fyrir þá sem áttu leið hjá. Afmælið verður síðan þegar skólinn hefst í haust enda fáir heima á aðalferðatími ársins. Til hamingju með afmælið Eygló mín

Í gær skunduðum við í bæinn og fórum á tónleika í Akureyrarkirkju, mjög gaman og Eygló fór í Tívolí. Svo var haldið niður í bæ á kaffihús og kíkt á mannlífið. Í dag var vaknað snemma til að fara í lautarferð. Við fórum með nesti og nýja skó í listigarðinn og það sem hljómaði í eyru okkur þegar við gengum inn var lagið um hana Hríseyjar-Mörtu, þá vissum við að við vorum á réttum stað. Við áttum notalega stund í listigarðinum við undirspil hljómsveitarinnar Húsbændur og hjú, skemmtilegt band, í góðu veðri þrátt fyrir sólarleysi. Að loknum tónleikum fórum við á opnun listasýningar í Ketilhúsinu, skelltum okkur í að horfa á Jane Fonda leikfimi við Amtbókasafnið meðan börnin fóru í Tívolí. Svo var notið blíðunnar á Bláu könnunni með kaffi og með því og ekki var verra að sólin fór að skína. Kvöldið í kvöld var ekki síðra. Við fórum á skemmtun í miðbænum þar sem Páll Óskar, Hljómsveitin Von, Sigga og Bryndís Ásmunds og fleiri skemmtu gestum. Þess má geta að 80´s er þema hátíðarinnar og mátti sjá skemmtilegan klæðnað og tóku hárgreiðslustofur í bænum að sér að greiða gestum og gangandi.



Fréttamennska er oft dularfull en í kvöldfréttum á Stöð 2 í kvöld var fjallað um útihátíðir á borð við Þjóðhátið og svo Eina með öllu og allt undir. Í dalnum var talað við fjölskyldufólk í hvítu hústjaldi (nokkuð örugg frétt ár frá ári) og áhersla lögð á fjölskyldustemmu í fréttinni. Það var svo einkennilegt að sjá hvað fréttamönnum þótti fréttnæmast hér á Akureyri. Fréttamaður var á unglingatjaldstæðinu og talaði þar við unglinga undir áhrifum áfengis sem veifuðu bala fullum af öli og beruðu svo á sér bossan framan í myndavélina. Mikið vildi ég að fréttamaður hefði frekar skellt sér í listigarðinn með vélina eins og ég gerði eða í miðbæinn þar sem mikið var um skemmtilega viðburði og listafólk af ýmsum toga skemmti gestum. Fréttamenn á ruv gáfu þeir sér tíma til að mynda frábæra viðburði sem hér var að finna enda af nógu að taka og sýndu áhorfendum. EN, nóg um það.
Nú ligg ég eins og klessa við tölvuna og ætla fljótlega að fara að koma mér í bælið meðan Ómar er í vinnu á Vélsmiðjunni og Guðný og Aron eru að tjútta með Páli Óskari og Eygló sefur á sínu græna.
Þangað til næst
Kveðja Drífa (Set inn myndir síðar)