fimmtudagur, 27. desember 2007

Jólin koma, jólin fara

Nú er hversdagsleikinn tekinn við í um það bil tvo daga og þá fer maður aftur að huga að hátíðunum og að þessu sinni er það áramótahátíðin. Við erum búin að hafa það þokkalega gott yfir jólin, áttum ánægjulegar stundir í faðmi fjölskyldunnar, fengum góðan mat, gjafir, jólakort og kveðjur sem reyndar fækkaði verulega þetta árið, spurning að flytja oftar. VIð fórum í Hrísey á Jóladag og vegna þess hve ólæs við erum í fjölskyldunni fórum við á vitlausum tíma á sandinn en urðum heppin að fá far með Huldu Hrönn, M. Helgadóttur sem var að fara út í Hrísey eftir messuhald í Stærri Árskógkirkju, heppin við. Við fengum að sjálfsögðu hangiket hjá tengdó á jóladag og svo var farið snemma í háttinn. Reyndar var líka farið snemma á fætur eða um miðja nótt þar sem nýji fjölskyldumeðlimurinn (Katla) sem er hamstur vakti alla í Hólabraut 3 með hlaupum. Já það liggja ekki allir í leti yfir jólin ha ha. Ég mér göngu út að hliði í hádeginu á annan í jólum, dásamlegt veður, og ekki hægt annað en fara út og njóta þess. Við fórum svo í kaffi til Báru og Kidda og strax á jólaball að því loknu og svo strax í mat til tengdó áður en ferðinni var haldið heim á leið með ferjunni. Já við dóum ekki úr hungri í Hrísey heldur bættum við síðubitann sem þýddi fyrir mig, Ræktin, púff púff, það var erfiður jólatíminn í dag. En allavega þá er vinna á morgun og svo aftur frí, hvernig endar þetta allt saman.

Guðný las á pakkana
Spennan í hámarki. Katla, nýr fjölskyldumeðlimurSveinkar úr Dimmuborgum komu á jólaball í HríseyVel skreytt hjá ömmu og afa í Hrísey

Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 24. desember 2007

Gleðileg Jól

Jæja þá er jólahátíðin gengin í garð og sitjum við nú hjónin og horfum á tónleika á ríkissjónvarpinu eftir ánægjulega kvöldstund með kertaljós, góðan mat og drykk, jólakort og jólagjafir. Það var smá spenna í loftinu framan af kveldi (hjá yngsta fjölskyldumeðlimnum)og var gott þegar allir pakkarnir voru farnir undan okkar fína jólatré (svakalega stolt af lifandi jólatréinu okkar) og allir urðu rólegir á ný. Ég man nú sjálf eftir biðinni miklu þegar barnaefnið var búið og maður beið eftir að klukkan myndi slá sex. Síðan tók við biðin eftir að búið væri að borða og vaska upp (því ekki voru neinar vélar þá sem sinntu því hlutverki þá) og svo fékk maður loksins að taka upp pakkana púfffff svakalega erfitt.
En nú ætla ég að óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og vona að þið njótið hverrar mínúu í fríinu ykkar. Verið góð við hvort annað, kossar og knús.
Jólakveðja
Drífa, Ómar, Guðný og Eygló

föstudagur, 14. desember 2007

Jóla hvað?

Desember er genginn í garð og takk fyrir að minna mig á það HHH, ekki veitir af því að pikka í mig þar sem ég þarf að komast í jólaskap.
Það má segja að jólastressið sé að fara með landann, allavega ákveðinn kjarna, meðan aðrir hafa ekkert annað að gera en að pikka á tölvu (líkt og ég er að gera núna) og blogga um húðlit söngkonunnar Birgittu Haukdal, come on, hverjum er ekki sama hvort hún er of gul eða ekki.
Annars hef ég nú ekki mikið að segja hér á þessu ágæta kvöldi enda búin að vera að dúlla mér hér heima við að gera sem minnst, útbúa smá sætindi til að fara með í vinnu á morgun og leika jólasvein. Jólastressið hefur ekki látið á sér kræla hjá mér sem betur fer, enda borgar sig að vera í Félagi fyrirhyggjusamra húsmæðra, en verð fegin að losna við jólakortin og pakkana af borðinu sem senda á suður. Talandi um pakka þá hef ég gert tvær tilraunir til að skjótast í verslun í síðustu viku eftir tveimur gjöfum. Það hefur ekki gengið nógu vel þar sem ég fyllist óhug við að sjá bílastæðin og fæ nett sjokk þegar ég geng inn í verslanirnar. Fjöldinn allur af fólki flykkist milli rekka með haugana af mat, drykk, gjöfum og bara einhverju sem það finnur og stressið og örvæntingin skín úr andliti þeirra. Blessuð börnin standa á orginu sökum leiðinda og löngunnar í það sem verslanirnar hafa að bjóða, leikföng í miklu magni. Á meðan eru aðrir sem eru léttir á þessu og ganga um verslanirnar en fara nær tómhentir heim sökum þess að þeir ná ekki að fókusera í þessum látum. Ætla að gera eina tilraun annað kvöld til að ljúka þessu og vona að jóla-stress-fólkið verði heima að baka 20 sortir af smákökum svo jólin komi nú örugglega á réttum tíma hjá þeim. Já jólin geta verið erfið fyrir marga og margt sem þörf er að takast á við:
En frá allt öðru en jólum og nú skulum við tala um kjamma, já sæll.
Nú er þorrablótsundirbúningur hafinn og erum við hjónin að vinna að smá verkefni tengdu síðasta þorrablótinu í Sæborg í Hrísey sem verður laugardaginn 9. febrúar 2008 (miðapantanir og frekari upplýsingar nánar auglýstar síðar). Þetta mun verða eitt af síðustu embættisverkum okkar hjóna í Hrísey, að sitja í Þorrablótsnefnd, en eigum vonandi eftir að mæta galvösk á þorrablót í Hrísey um ókomna tíð.
Og núna, af því ég er búin að koma auglýsingunni að, er best ég fari í háttinn.
Þangað til næst og góða nótt
Kveðja Drífa

föstudagur, 23. nóvember 2007

Þegar allt þrýtur

Er ekki málið að skoða stjörnuspá dagsins þegar allt þrýtur. Hrúturinn er náttúrulega skemmtilegt merki enda skemmtilegt fólk þar á ferð. Hver hefur ekki hitt skemmtilegan hrút, bara spyr? Burt séð frá því þá tjá stjörnurnar mér í dag að ég eigi að lifa lífinu en ekki að skrásetja það og því spurning hvort ég þurfi ekki að hætta skrifum hér á veraldarvefinn, ekki það að það hafi farið mikið fyrir mér að undanförnu. Verst að ég skoðaði spána svona seint þar sem mér er sagt að lifa lífinu í kvöld ekki það að ég sé í andaslitrunum en ég hefði getað velt fyrir mér öðrum verkefnum en tölvu-hangsi, síma-mali og þrif-verkum. En ég er allavega að lifa lífinu lifandi þó svo ég fari aðrar leiðir en sumir hvað það varðar.

Fór á tónleika í gærkveldi með Ómari mínum (ekki þínum), Eygló minni og Eygló, þ.e. tengdamömmu. Þau sem glöddu okkur með söng sínum voru Guðrún Gunnars og Friðrik Ómar og get ég ekki sagt annað en ég hafi skemmt mér konunglega. Höllin var full af fólki og söngvarar og hljómsveit stóðu sig eins og hetjur að mínu mati, ekki frá því að það hafi vaknað upp smá-örlítil-pinkulítil jólatilfinning :o) þó ég hafi ekki misst mig í jólagjafainnkaupum, bakstri, jólakortagerð né skreytingum í dag heldur fór um mig nettur jóla-hrollur. Ætli ég láti jólaverkin ekki bíða til mánaðarmóta, þar til aðventan byrjar.

En nú þarf maður að fara að ganga með klósettrúllu á sér ef þannig vildi til að maður þyrfti að létta á sér við jólainnkaupin. Ég þarf kannski að fá mér nýja handtösku þar sem mín er mjög nett. Talandi um það þá var mikið gert grín að töskunni minni í vinnunni í morgun þegar ég þurfti að rífa allt upp úr henni til að leita að smáræði. Dömurnar störðu á töskuna og höfðu orð á því hvers konar taska þetta væri eiginlega, hvernig allt þetta drasl kæmist í hana. Hver veit nema rúllan komist fyrir, ég prófa það allavega áður en ég fjárfesti í nýrri tösku :o)

Já þjófar og vopnaðir ræningjar eru nú farnir að biðjast þá afsökunnar sem þeir ógna og ræna. Batnandi mönnum er best að lifa segir máltækið víst. Ég ætla að vona að þeir leggji þetta ekki í vana sinn hér eftir, þ.e. að ræna og koma svo grátandi og fyrirgefandi og þá eigi allir að brosa út í annað ef ekki bæði. Ég rakst á blogg um þessa frétt. Alltaf gaman þegar heimilunum og foreldrunum er kennt um "Það hlýtur eitthvað að vera að heima hjá honum". Er ekki bara þjóðfélagið orðið sýkt, burt sé frá einu eða öðru heimili ? Lífskapphlaupið gerir það að verkum að börn og unglingar í dag eru ekki að höndla það sem við höfum að bjóða þeim. Eigum við ekki bara að slaka á og gefa afkomendum okkar smá "breik" eða eigum við að ösla þeim áfram í peningaeyðslu, vinnufíkn og tímaleysi. Ekki meira um það...... enda ekki pláss fyrir þessa umræðu hér, grrrrrr :o)
En svona að lokum þá er Britney Spears (samkvæmt Vísi) farin að ganga aftur í nærbuxum. Halló, hverjum er ekki sama ?''

Einn að lokum

Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Faðir getur ekki verið móðir......

Það er með ólíkindum hversu oft kynin vilja koma sér í hin ýmsu samtök eða félög sem hitt kynið hafa sett á fót til aðgreiningar. Það er ekki óeðlilegt að konur og karlar, mæður og feður, finni þörf á að aðgreina sig (svona annað slagið) enda mikilvægt að kynin fái að finna til sín svona við og við.
Sumar konur finna hjá sér hvöt til að ganga í félög sem ætluð eru körlum s.s. Félag ábyrgra feðra. Karlar finna sumir hverjir hvöt til að ganga í Kvenfélög (hafa jafvel lagt fram formlega ósk um aðild). Erum við orðin svona upptekin af því að ekki megi aðgreina kynin og sé það gert verði hinu kyninu misboðið og finni til einhverskonar "minnimáttar" tilfinningar. Ég spyr þar sem ég hef ekki fundið þessa hvöt hjá mér, sem konu, að komast í félög sem karlkynið hefur stofnað til og eru einungis ætluð karlmönnum.
Ég velti því fyrir mér hvort þingkonan okkar Steinunn Valdís Óskarsdóttir geti ekki, í kjölfar frumvarps um breytingu á starfsheitinu "ráðherra" geti ekki lagt fram aðra tillögu sem miðar að því að félög séu ekki aðgreind með kyni heldur beri ætíð heiti sem vísar til beggja kynja.
Svo er annað inn í myndinni þ.e. karlar og konur hafa fundið ýmsar leiðir í gegnum tíðina til að komast í hóp þess kyns sem það áður ekki tilheyrði.

Þangað til næst :o) og...
áður en allt verður vitlaust :o)
Kveðja Drífa


mánudagur, 12. nóvember 2007

Nýr mánuður

Sæl og takk fyrir síðast
HHH sagði mér að nú væri kominn nýr mánuður, takk fyrir upplýsingarnar :o )

Það hefur verið mikið að gera hjá okkur undanfarið eða þar síðan við fluttum, en ég skrapp í Hrísey síðustu tvær helgar með yngri dömuna til ömmu. Þar hlóðum við rafhlöðurnar, gistum og hittum vini og vandamenn, ekki slæmt að koma í Hrísey. Annars er lífið bara vinna, borða og sofa, eins og sjálfsagt hjá flestum.
Nú þarf maður að að fara að drífa sig í að kaupa jólagjafirnar og skrifa jólakortin því ekki ætla ég að vera sein þetta árið enda gengin í Samtök fyrirhyggjusamra húsmæðra (skráning stendur yfir). Lilja systir verður örugglega ánægð með það því þá fer ég kanski að muna eftir afmælisdögum fjölskyldunnar og hætti að slá tvær flugur í einu höggi þ.e. afmælisgjafir, fermingargjafir, jólagjafir og aðrar gjafir eru ávall gefnar í desember, nokkurskonar ársuppgjör :o) Í ár er ætlunin að sýna fyrirhyggju og ljúka öllum jólaverkum fyrir aðventu og njóta desembermánaðar í botn með kaffihúsaferðum, tónleikum, heimsóknum og án alls jólastress. Gangi mér vel, ætli ég endi ekki eins og þessi þarna
En svona að lokum fyrir HHH

Langferðabíll er á leiðinni til Akureyrar með fullan bíl af eldri dömum. Það er slegið létt á öxl bílstjórans af lítilli, gamalli konu sem spyr hann að því hvort hann vilji fá handfylli af hnetum.
Þar sem bílstjóranum þótti hnetur ekkert vondar, tók hann glaður á móti þeim, og hakkar í sig hneturnar. Eftir um það bil korter er slegið á öxl bílstjórans og er það aftur litla, gamla konan og spyr hann hvort hann vilji fá eina handfylli af hnetum í viðbót.
Hann tekur tilboðinu og nýtur þess að borða hneturnar sínar. Þetta endurtekur sig fimm sinnum þangað til bílstjórinn spyr litlu, gömlu konuna að því hvort hún og hinar eldri dömurnar vilji ekki heldur sjálfar borða hneturnar sínar.
"Við getum ekki borðað þær, því við höfum ekki tennur til þess" svarar hún.
" En afhverju kaupið þið þær þá???" spyr bílstjórinn forviða. "Jú sjáðu til; við elskum nefnilega súkkulaðið sem þær eru húðaðar með" svarar litla, gamla konan.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 29. október 2007

Áfram með smjörið

Ég verð víst að halda áfram þar sem ritstíflan brast, já áfram með smjörið. Rakst á frétt á mbl.is þar sagt er frá störfum lögreglunnar á höfðuborgarsvæðinu þ.e. að ökumaður hafi verið stoppaður með barn í framsætinu en reyndar með beltið spennt, je það reddar málunum eða þannig. Ég var ekkert svakalega hissa á þessu þar sem ég horfði uppá slíkt hátterni dag eftir dag við leikskólann þar sem ég vann, en ég verð alltaf jafn reið. Hvað veldur því að fólk gerir þetta. Nennir það virkilega ekki að setja barnið aftur í bílstólinn og spenna á það beltið. Þvílík leti segi ég nú bara og megi þeir skammast sín sem þetta stunda.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 23. október 2007

Þetta er nú ekki hægt

Hvernig er hægt að vera haldinn ritstíflu svona lengi, ég bara spyr. Þetta á við hvort sem er þessa ágætu síðu eða lokaverkefnið mitt í háskólanum, grrrrrrrr.
En þrátt fyrir það hefur ýmislegt verið að gerast í lífi mínu. Mamma og pabbi, Lilja sys, Valdi og börnin komu á miðvikudaginn í heimsókn og fóru aftur á sunnudag. Tilefnið var 65 ára afmæli föður míns sem segir mér að ég sé að nálgast 35, í apríl á næsta ári. Til hamingju með afmælið pabbi :o) Við gerðum okkur glaðan dag, elduðum góðan mat, drukkum írskt kaffi og dönsuðum á eftir við undirspil hinnar ágætu hljómsveitar Dans á rósum frá Vestmannaeyjum. Skellti hér einni mynd af mömmu og pabba sem var tekin í sumar á Hríseyjarhátíðinni.
Fjölskyldan stækkar því Óli Brynjar frændi eignaðist son þann 20 október og þar með fengu Oddný systir pabba og Ingvar hennar ekta maður titilinn "Amma og Afi", Til hamingju með titilinn.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

miðvikudagur, 26. september 2007

Hvað er í gangi?

Ja hérna, það er langt síðan ég pikkaði inn einhverjar línur á þessa ágætu síðu. Hvað verldur? Hrikalega margt en stundum hefur maður bara ekkert að segja eða allavega vill ekki segja það hér á veraldarvefnum og hana nú.
Það hefur ýmislegt drifið á daga mína síðan síðast og má þá helst nefna óvissuferð með starfsfélögum mínum, matarboð með starfsfélögum Ómars og svo árgangsmót með mínum ágætu bekkjarfélögum frá Vestmannaeyjum. Það má segja að það hafi verið gaman að hitta allt þetta fólk sem maður ólst upp með og fyndið hvað allir eru í raun eins og þeir voru hér í denn, enginn breyst neitt mikið nema kannski nokkrum hárum færri á höfðinu eða nokkrum kílóum fleiri um mittað. En nóg um það.


Hér má sjá sigurvegarana í sjóstöng í óvissuferðinni okkar ásamt þeim gula

Þangað til næst
Kveðja Drífa.

föstudagur, 7. september 2007

Er ekki kominn tími til að tengja.....

Komið sæl og blessuð sem leið sína leggja á þessa ágætu síðu. Nú erum við flutt í Vanabyggðina á Akureyri og erum að koma okkur fyrir. Það er ekki frásögu færandi en við höfum nú búið hér í viku og fengum nettenginguna hjá Símanum í dag, já viku eftir flutninginn (sem átti að gerast á næstu 3 dögum) og jú það er árið 2007. Það var nú samt broslegt þegar ágætis kona hringdi hér í fyrra kvöld og bauð okkur aukna þjónustu hjá símanum sem byggðist á einhverju sem ég veit ekki hvað var, en...... við báðum hana vinsamlegast að koma því til skila að í stað þess að bjóða okkur eitthvað nýtt þá þætti okkur væntum að þeir hjá Símanum gæfu sér tíma til að sinna því sem við þegar bíðum eftir og höfum verið í ákrift með undanfarin ár þ.e. nettengingu okkar ágæta heimilis. En allavega, hér er ég komin aftur og mun vonandi verða dugleg í vetur að halda glæðum í þessari síðu.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Til að segja eitthvað


Þangað til næst
Kveðja Drifa

mánudagur, 27. ágúst 2007

Sorg og gleði

Einhvernveginn virðist vera að fréttir af slysum og hörmungum, hvort sem er hér á landi eða úti í heimi, séu að hellast yfir mann þessa dagana nema ég sé eitthvað viðkvæmari en ella. Hörmungar á borð við bílslys, hitabylgjur, flóð, fólk í sjálfheldu á hálendinu, verðbólga, gengishrun og fleira umleika fréttatímana svo maður verður hálf þunglyndur og finnst lífið hálf vonlaust. Það koma þó gleðifréttir inn á milli s.s. 700 milljóna króna hagnaður af rekstri Smáralindar :o+ og fleira í þeim dúr.

Allt er vitlaust vegna reykinga og ekki-reykinga og Íslendingar þurfa að fara að hugsa sig um hvað varðar drykkju og ólæti í miðborg Reykjavíkur. Sumir kennarar setja kröfur um námstæki sem kosta of-fjár, einhverjir unglingar keyra á ofsahraða meðan aðrir bílstjórar eru teknir oft sama daginn fyrir ölvunarakstur. Já það er magt sem landinn þarf að hafa í huga og spurning hvort ekki sé hægt að halda hlýðni-námskeið til að koma í veg fyrir slíkar uppákomur. Spurning að tala við Óla Pálma :o)

En það er ekki nóg með að drykkja og reykingar séu að valda skaða heldur eru menn farnir að koma fyrir slysagildrum þ.e. gosbrunnum með járnbútum í botninum svona til að koma í veg fyrir að menn fari að baða sig á óæskilegum tíma í miðbæ Keflavíkur.

En svona að lokum dömur:
As we grow older women gain weight. This happens because we accumulate a lot of information in our heads.


Þangað til næst

Kveðja Drífa

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

Allta að gerast !

Hér er allt að gerast enda ég byrjuð að vinna á Akureyri og Eygló var að byrja í Brekkuskóla. Hún var bara brött eftir fyrsta daginn sem betur fer og vonandi á þetta eftir að ganga eins og í sögu. Það er bara fjör í vinnunni, fullt af börnum og nýju starfsfólki, svo okkur leiðist ekki. Það verður samt gott að flytja svo ég þurfi ekki að vakna sex til vinnu og koma okkur inn á Akureyri. Ég flyt semsagt næstu helgi svo það verður gott að taka upp úr kössunum og koma sér fyrir í sinni eigin íbúð. Annars er ég að hugsa um að hafa bara bílskúrssölu þar sem dótið hefur verið í nokkrar vikur í kössum og ég er í raun ekkert farin að sakna neins :o)

En best að fara að halla mér svo ég vakni í ferjuna
Þangað til næst
Kveðja DRífa

föstudagur, 17. ágúst 2007

Að ganga í skólann

Rakst á grein í Fréttum um hversu langt er fyrir börn að ganga til skóla (yfir 7-9 gatnamót) sökum sameiningar Barnaskóla Vestmannaeyja og Hamarsskóla. Ég verð nú að viðurkenna að ég sé ekki hver hagræðingin er að aldursskipta skólunum eins og ákveðið hefur verið að gera en manni er greinilega ekki alltaf ætlað að skilja stjórnarmenn þegar kemur að hagræðingu til að koma á sparnaðaráætlunum. En burt séð frá því þá fór ég að hugsa til baka, þegar ég gekk í Barnaskóla Vestmannaeyja, hversu langt ég þurfti að ganga og yfir hversu mörg gatnamót.

Dæmi 1: Frá Búastaðarbraut, yfir Helgafellsbraut (1), út Túngötu, Yfir Kirkjuveg(2), Yfir Skólaveg(3) komin í skólann

Þó svo gatnamótin hafi verið fá til skóla voru þau mun fleiri þegar koma að skólagreinum á borð við sund og leikfimi, auk tómstunda á borð við handbolta, sund, fótbolta, frjálsar osfrv. Þá var lengra fyrir mann að fara úr Austurbænum sérstaklega þegar æfingar voru orðnar að minnsta 10-15 sinnum í viku meðan maður var enn að sprikla í öllu og hafði ekki ákveðið hvaða íþrótt maður vildi fremur annarri.

Dæmi 1: Frá Búastaðarbraut, yfir Helgafellsbraut (1) út Túngötu, út kirkjuveg, yfir Heiðarveg(2), yfir Hólabraut (3), Yfir gangbraut á Kirkjuvegi (4) Yfir gangbraut á Illugagötu (5) Niður göngustíg að íþróttahúsi

Dæmi 2. Frá Búastaðarbraut, yfir Helgafellsbraut (1) niður Birkihlíð, Yfir Kirkjuveg (2), út Hvítingaveg, yfir Skólaveg (3), út Brekastíg og upp og yfir Vallargötu (4), ú Bessastig, yfir Boðaslóð (5), yfir Heiðarveg (6) yfir Hólagötu (7) Yfir Brimhólabraut og þar gekk maður göngustíg og svo yfir Illugagötu (8) og þá var maður loksins komin á leiðarenda.

Það var jú stutt fyrir nemendur í Hamarskóla í skólann og í íþróttir, heppin þau. Ég man líka þá tíð þegar maður þurfti hálf að hlaupa frá Barnaskóla í íþróttamiðstöð og svo til baka til að ná á réttum tíma í skólann aftur.

Þó svo hreyfing sé góð fyrir alla þá skil vel að foreldrar yngri barna séu vonskviknir yfir þessari breytingu enda langt fyrir barn sem er að hefja skólagöngu sína að ganga Austast úr bænum og mæta í Hamarskóla. Ég veit að dóttir mín hefði þurft að leggja í-ann klukkan 07:00 til að ná fyrir átta í skólann sökum þess að hún var í 35 mínútur að ganga frá Hásteinsblokk í Barnaskólann þar sem hún þurfti að ganga yfir tvær umferðargötur og fór að sjálfsögðu ekki yfir fyrr en hafði gengið í skugga um að allir bílar væru farnir svo hún lenti ekki undir þeim.

Vona að allar þessar breytingar eigi eftir að gleðja íbúa í Vestmannaeyjum og það eigi allir eftir að verða sáttir á endanum, hvort sem þeir ná fram skólabíl eður ei.

Gangi ykkur allt í haginn

Þangað til næst

Kveðja Drífa.

fimmtudagur, 16. ágúst 2007

Börn og leikföng

Varð nú að skrifa nokkrar línur fyrir svefninn, er enn í fríi ef einhver er að spá í tímasetningu þessara skrifa og var að undirbúa barnaafmæli sem verður haldið á morgun. Hef semsagt verið að dunda mér við að búa til Svamp Sveinsson í kvöld auk þess að sinna gestum og gangandi. Ég fékk smá löngun til að skrifa nokkrar línur sökum frétta í kvöld.

Fjallað var um afturköllun á leikföngum sem máluð hafa verið með einhverju efni og innihalda segla sem ekki eru vottaðir og eru taldir hættulegir börnum ef ég skil þetta rétt. Fréttamaður spurði eftirlitsfulltrúa okkar Íslendinga um málið: Hvaða afleyðingar getur þetta haft á börnina. Okkar kona svaraði eitthvað á þessa leið " það er mjög hættulegt ef barn hefur borðað mörg stykki en afleyðingarnar eru þær að ristillinn fellur saman og svo fram vegis.......
Það er nú hægt að misskilja þetta en börn borða ekki mörg stykki af leikföngum enda borða þau sem betur fer ekki leikföng heldur sleikja þau eða naga. Hún hefði mátt orða þetta betur blessuð konan því hún er sjálfsagt að tala um þessa tilgreindu segla því ég hef unnið í leikskóla í 10 ár og ekkert leikfang, hvað þá mörg, hefur verið étið í minni leikskólatíð og á vonandi aldrei eftir að verða.

Þangað til næst
Kveðja Drífa.

miðvikudagur, 15. ágúst 2007

Búið í kössum

Nú er allt að verða komið í kassa og á bretti í geymslu því senn líður að flutningi. Við fórum með yngri dömuna í heimsókn í Brekkuskóla í dag þar sem við innrituðum hana og hún fékk að hitta kennarann sinn og skoða skólann. Okkur líst bara vel á þetta allt saman og Eygló var bara nokkuð brött þó svo henni finnist svolítið erfitt að fara frá krökkunum í Hrísey. En við erum ekki að fara langt og eigum öruggleg eftir að vera með annan fótinn hér i eyjunni hjá ömmu og afa.

Var að lesa Fréttir og sá að fyrsta lundapysjan er komin til byggða. Það var nú gaman í denn þegar maður var allar nætur hlaupandi eftir þessum litlu kvikindum til að henda þeim í sjóinn daginn eftir :o)


Svo rakst ég líka á mynd af þeim hjónum Magga Kristins og Lóu á nýju þyrlunni sinni, ekki leiðinlegt það. Ég ætla nú að nefna það við árgangsmóts-nefndina hvort það verði ekki bara samið við Magga um að sækja árgangsmeðlimi til okkars heima á þyrlunni til að auðvelda okkur að koma. Það væri ekki leiðinlegur ferðamáti í stað þess að veltast um með dallinum í þrjá tíma

Þangað til næst

Kveðja Drífa

þriðjudagur, 14. ágúst 2007

Ný búin að fermast eða hvað?

Var að frétta að halda ætti árgangsmót hjá mínum skemmtilega gos-árgangi í Vestmannaeyjum, hinum eina sanna 1973. Mér er sagt að það séu 20 ár frá fermingu okkar sem getur nú bara varla staðist, hlýtur að vera einhver misskilningur :o)
Ég hef reyndar ekki fengið bréf frá nefndinni ennþá, sem mér finnst skrítið, en ég trúi varla að ég hafi gleymst. Ég er nú reyndar búin að vera í einangrun í Hrísey í rúm 9 ár, en come on.
En allavega þá verða herlegheitin haldin í lok september og auðvitað mætir maður hvort sem fólki lýkar betur eða verr :o)
Hafdís vinkona og fleiri klárar tátur úr árgangnum hafa búið til heimasíðu sem er frábært framtak, til hamingju með þetta dömur. Endilega kíkið á síðuna og sjáið hvaða skemmtilega fólk er fætt þetta herrans ár 1973 í Vestmannaeyjum.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

laugardagur, 11. ágúst 2007

Úr sælunni í daglegt amstur

Nú erum við fjölskyldan komin heim frá Spáni og áttum við þar yndislega daga í hita og svita :o) í tvær vikur en nú tekur daglegt amsur við af sæludögum á sundlaugarbakkanum með sangríu og bjór í ermalausum bol. Það var að sjálfsögðu ýmislegt brallað á Spáni, skellt sér í Terramitica, tívolígarðinn, farið í vatnagarðinn, Aqualand, mundomar-dýragarðinn og svo til Altea sem var mjög skemmtilegt. En mestur tími fór samt í sólböð, sjóböð, mat og drykk svo nú þarf að taka á málunum :o) sem er bara gott mál. Flutningar eru nú yfirvofandi svo það þarf að bretta upp ermar og reyna að ganga frá sem mestu næstu viku því mánudaginn 20. ágúst byrja ég að vinna á Akureyri sem verður spennandi.

En ein mynd að lokum fyrir ykkur.


Sumir komust í Spánar - gírinn á fyrsta degi eins og sjá má :o)

Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 24. júlí 2007

Sumarfrí, sumarfrí, sumarfrí-í-í

Nú er Hríseyjarhátíðin liðin og ég komin í sumarfrí, jibbý. Eins og börnin eru nú yndislegt þá er nauðsynlegt fyrir alla að komast í sumarfrí, bæði börn og starfsfólk. Það var erfitt að kveðja dúllurnar mínar á föstudaginn en ég á eftir að heimsækja þau áður en ég flyt úr eyjunni.
Hátíðin gekk slysalaust fyrir sig, að mínu viti, og ég var bara ánægði með minn þátt í skemmtuninni. Óvissuferðin gekk vel og flestir sáttir við það sem var í boði, sigling, Mangús og Eyjólfur, Kaldi og Björgvin Franz. Ég plataði hana Eyrúnu sem var í ferðinni til að senda mér myndirnar sínar, endilega kíkkið á þær.
Á sunnudeginum ákvað ég að vera með andlitsmálun sem börnunum þótti ekki leiðinlegt en á spjalli mínu við börnin spurði ég eina stúlku : Ertu í tjaldferðalagi hér í Hrísey? Stúlkan svaraði því neitandi svo ég spurði aftur: Ertu þá að gista hér hjá einhverjum? Nei svaraði stúlkan svo ég ákvað að leiða samræðurnar út á önnur mið þegar stúlkan sagði: ég er sko í fellihýsi!!

Já Drífa mín, tjald er ekki það sama og fellihýsi, come on :o)
Þangað til eftir frí
Kveðja Drífa.

miðvikudagur, 18. júlí 2007

Hátíð í bæ

Jæja nú er komið að hinni árlegu fjölskylduhátíð í Hrísey. Við hjónin erum nú ekki í nefndinni en við höfum tekið að okkur ákveðin verkefni enda mikilvægt að allir séu þátttakendur. Ég mun sjá um óvissuferðina í ár, ásamt mínum ektamanni og tveimur skemmtilegum karakterum hér í Hrísey. Óvissuferðin hefur fest í sessi enda alltaf skemmtilegt að fara á vit ævintýranna. Auglýsingin fyrir óvissuferðina er að finna hér og endilega skellið ykkur með.
Það er gaman að segja frá því að mamma og pabbi komu til okkar í gær og ætla að eyða helginni hér í Hrísey, alltaf gaman að fá hjónakornin í heimsókn en við hittumst allt of sjaldan enda langt að fara frá eyjunni í norðri til eyjunnar í suðri og öfugt.
Nú er að koma að því að ég hætti störfum í leikskólanum í Hrísey :o( og eru aðeins 2 dagar þar til ég þarf að kveðja börnin, það verður erfitt. En ég fer á nýjan vinnustað, Leikskólann Kiðagil, þar sem er fullt af börnum:o) og hlakka ég til að takast á við það verkefni. Við erum farin að pakka á fullu, stilla upp og gera klárt, og ætlum að flatmaga á ströndum spánar í tvær vikur nú á næstunni :o) Ekki leiðinlegt það.
Það er best að ljúka þessu þar sem ég hef ekkert að segja. Ég las reyndar að hann Lúkas væri bar alls ekki látinn, þrátt fyrir minningarathafnir nær og fjær, sem er gott mál. Já það er stundum betra að hafa orðin færri
Þangað til næst
Kveðja Drífa

sunnudagur, 15. júlí 2007

Afmæli dag eftir dag

Ég hef ekki nennt að blogga um helgina enda verið að pakka niður og verið á mannamótum. Það hefur lítið gerst um helgina nema hvað að mikið er um afmæli í kringum mig. Brói átti afmæli þann 12 júlí og auðvitað gleymdi ég að óska honum til hamingju svo ég þurfti að hringja í hann aftur, einum 45 mínútum eftir að ég talaði við hann. Ég man oftast nær ekki afmælisdaga og bið því alla, hér með, að fyrirgefa mér ef ég óska þeim ekki til hamingju með daginn.
Helena og Sveinbjörn buðu okkur í mat á föstudagskvöldið þar sem frúin bauð upp á gómsæta fiskisúpu og hvítvín til að skola henni niður með og svo var malað eitthvað frameftir. Laugardagurinn fór í að pakka niður, skella mér í klippingu og svo var mér boðið í smá heimboð þegar líða tók á kvöldið sem var mjög gaman.

En ég mundi eftir afmæli dótturinnar :o) þann 13. júlí þó svo hún hafi ekki verið heima. Nú er hún orðin 16 ára daman og fer að læra á bíl fljótlega (oh. mæ god)Mér finnst svo stutt síðan hún Guðný var bara pínu kríliHér voru sumar reyndar ekki mjög ánægðar eins og sést.

En til hamingju með daginn Guðný mín með árin 16.
Tíminn líður hratt og hann Ómar minn á afmæli á morgun þann 16. júlí og ég man bara ekki hvað hann er gamall, alveg stolið úr mér :o)


Hann leit allavega einhernveginn svona út þegar hann var ungur. Hann hefur aðeins breyst en ekki svo mjög ..... hahah


Jæja það er best að hætta þessu rugli en Kristín vinkona á afmæli þann 18. júlí og tengdamamma þann 22 svo það er nóg að gera í ömmulum þessa dagana.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Göng eða ekki göng

Það vildi svo til að ég var að vafra um veraldarvefinn og datt inn á blogg nokkurra einstaklinga frá Vestmannaeyjum, mínum kæru. Það eina sem komst að í þessum bloggum var göng milli lands og eyja sem vakti mig til umhugsunar. Er það virkilega það sem fólk vill, að fá göng??

Ég bý á Eyju og líkar vel þó svo ég sé reyndar að fara að færa mig um set sökum þess að við töldum tímabært að sækja á önnur mið. Ég mundi ekki vilja sjá mig né aðra af fastalandinu fá sér rúnt út í Hrísey í tíma og ó-tíma enda vil ég ekki sjá alla þessa bíla hér sem hafa tvöfaldast ef ekki meira síðustu ár. Það eru bílar hér á ferðinni með þreytta eigendur innanborðs, á aldrinum 20-40 ára, en 60-80 ára ferðast um fótgangandi, eru greinilega orðnir nægilega þroskaðir.

Ég veit ég get ekki sett = merki milli Hríseyjar og Vestmannaeyja þar sem Sævar er aðeins 15 mínútur að koma manni milli staða meðan að Herjólfur gamli er 2 tíma og 45 mínútur að dóla þetta. En er fólk búið að hugsa málið hvað breytist við að fá göng. Það verður stuð á þjóðhátíð, pæjumóti, pollamóti, goslokahátíð og fleiri skemmtunum þegar bílalestin verður frosin í miðjum göngum sökum fjölda, eða hvað? Og hvað með gatnakerfið, er það tilbúið að takast á við þá bílaumferð sem mun skapast? Flutningabílar hlykkjast í göngunum, rútur með sjóveika ferðalanga sem loksins treysta sér til okkar fögru Vestmannaeyja svo eitthvað sé upptalið.

Nei þetta eru nú bara vangaveltur mínar um þessi göng því mér finnst Vestmannaeyjar, eins og Hrísey, eigi að halda í þá sérstöðu að vera Eyja. Margir Eyjaskeggjar fara svo margar ferðir á fastlandið að maður hugsar stundum hvers vegna það fólk flytur hreinlega ekki til byggða í stað þess að veltast þetta fram og til baka.

Nú er ég örugglega búin að gera einhverja kolvitlausa með þessum ó-ábyrgu skrifum mínum en ég held það vanti að fólk staldri aðeins við og hugsi hvað það vill í raun og veru lifa við. Er ekki kominn tími til að slaka á og njóta þess sem Eyjan hefur að bjóða (ef vilji er til að búa þar) í stað þess að sækja stíft á önnur mið. Ég man þá tíð sem maður fór með dallinum um helgar til að keppa í íþróttum en annars var maður bara heima hjá sér, fór mestalagi í sumarfrí út fyrir hafnargarðinn. Nú eru íþróttamótin svo mörg, tjaldvagnar á hverjum krók, utanlandsferðir á hverju strái sem veldur því að það eru ekki nægur tími til að sinna öllum hugðarefnum fjölskyldunnar svo allir séu sáttir.
Eru gerviþarfir farnar að spila of stórt hlutverk í lífi okkar.
Stöldrum við og njótum augnabliksins.

Þangað til næst (vonandi)
Kveðja Drífa

föstudagur, 6. júlí 2007

Fimm stig í lífi kvenna

Á hvaða stigi ert þú?????

To growTo fill outTo slim downTo hold it into hell with it :o)


Þangað til næst
Kveðja Drífa

miðvikudagur, 4. júlí 2007

Tilfinningar

Ég er svo heppin (að mínu mati ) að vera fædd í hrútsmerkinu og var störnuspáin mín í dag eitthvað á þessa leið:
  • Haltu þig við eigin tilfinningar og skynjun. Leitaðu að þínum sönnu hvötum, markmiðum og áhugamálum sem bæta samskipti þín og gagnkvæma virðingu í sambandi sem tengist þér og mundu að þú hefur fullan rétta á tilfinningum þínum. Tilfinningar eru staðreyndir og er fólk sem borið er í heiminn undir stjörnu hrútsins minnt á þá staðreynd þessa dagana af einhverjum ástæðum.

Það er nú gott að ég hef fullan rétt á öllum þessum tilfinningum sem eru að brjótast um í mér :o) Ég hef nú reyndar ekki á í vanda með að tjá mig um þær í gegnum tíðina eins og þeir sem mig þekkja vita.
Þar sem við fjölskyldan erum á útleið nú fljótlega datt mér í hug að það væri ekki vitlaust að ég fengi mér sundbol eins og þennan til að gleðja augu fólks á sundlaugarbakkanu, þannig gæti ég leitt augu fólks frá frjálslega vöxnum líka mínum eða..... kanski mundi það virka öfugt.
En sökum kulda ákvað ég að skella þessari mynd hér inn. Vissuð þið þetta?

Smellið á myndina
Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 3. júlí 2007

Helgin liðin

Skellti mér með fjölskylduna í útilegu í Vaglaskóg sem var bara mjög fínt. Veðrið var náttúrlega geggjað og ferðafélagarnir líka sem segir allt sem segja þarf. Var að setja inn myndir frá ferðinni inn á myndasíðuna mína fyrir þá sem hafa áhuga.
Í dag var þokuslæðingur og skítakuldi framan af degi. Ég verð nú að segja að ég hlakka til að fara í sumarfrí sem hefst eftur 3 vikur en þá ætlum við fjölskyldan að bregða okkur erlendis og sleikja sólina ef hún verður ekki búin sökum hitabylgju víða :o)

Jæja það er best að hætta þessu röfli og fara að sofa. Ég fann þessa skemmtilegu mynd þegar ég var að taka til í tölvunni, gömul en stendur fyrir sínu.

Þangað til næst

Kveðja Drífa

fimmtudagur, 28. júní 2007

Á faraldsfæti

Nú á að bregða sér frá um helgina svo ég ákvað að setja hér nokkrar línur áður en ég legg af stað.
Ég las fréttina um hundinn Lúkas og verð nú bara að segja nokkur orð svona til að létta á mér fyrir svefninn. Hvað býr að baki slíkum verknaði spyr ég en veit jafnframt að enginn getur svalað forvitni minni enda væri sá hinn sami sjálfsagt nú þegar að vinna hörðum höndum að því að bæta heiminn og frelsa þá illu.
Það vill svo til að í heiminum er slatti af mannvonsku sem beinist að dauðum hlutum annars vegar og svo lifandi hinsvegar. Það er sárt þegar fólk missir veraldlega muni sem þeir hafa haft fyrir að eignast en mannvonska beinist því miður oftar en ekki að lifandi verum hvort sem um er að ræða menn eða dýr sem ekki er hægt að bæta.
Við heyrum regluleg fréttir utan úr heimi þar sem saklausir einstaklingar verða fyrir hrottalegum árásum, ofbeldi, þjóðarmorðum og níðingum af ýmsu tagi. Stundum held ég að maður sé að verða hálf tilfinningalaus, sökum daglegrar umfjöllunar í fjölmiðlum um hræðilega viðburði, þó svo tár eigi til að renna við áhorf á slíkar fregnir.
Hvað varðar ofbeldi á dýrum þá er ekki langt síðan sýndar voru myndir í Kompás þar sem maður er að berja á hesti og núna les maður um illa meðferð á hundi. Eitthvað hljóta einstaklingar sem framkvæma slíkan gjörning að eiga bágt og líða illa.
Umræðan á netinu hefur snúist upp í hótanir og margt verra sem mér þykir miður enda mikilvægt að fólk passi hvað það segir á þessum ágæta miðli því orð geta sært jafnt og laus höndin. Ég votta eiganda hundsins samúð og vona að gerendur í þessu máli fái makaleg málagjöld.
Nú hef ég létt á hjarta mínu og blessuð sé minning Lúkasar.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 25. júní 2007

Vindsperringur

Það var vindsperringur hér norðan heiða í dag sem var í sjálfu sér ágætt því þá gerði maður eitthvað af viti innan dyra. En burt séð frá húsverkum og öðrum verkjum :o) þá rakst ég á þessa skemmtilegu mynd á síðunni hennar Gunnlaugar frænku.
Það er skemmst að segja frá því að þegar ég sá þessa ,mjög svo skemmtilegu, mynd þá datt mér við hjónin í hug en við erum einmitt á leiðinni utan í júlí.

Búin að hlæja? þá skulum við víkja að öðru.

Það hefur verið lítil hreyfing í bókum á náttborðinu hjá mér en ég viðurkenni reyndar að vera löngu búin að lesa þær bækur sem hér hafa verið skráðar í langan tíma. Ég skellti ágætri bók á náttborðið nú á dögunum reflective teaching eftir Andrew Pollard í þeirri von að hausinn á mér taki við sér hvað varðar lokaritgerð í meistaranáminu, það má alltaf reyna ekki satt
Ég rakst á frétt um mosaeld sem rekja má til sígarettustubbs, sorglegt það. En þar sem hvergi má reykja (og ég dauðfeginn að vera hætt sökum þessa) gæti farið svo að slysum af þessu tagi fjölgi þar sem reykingafólk dvelur nú utandyra mestan hluta frítíma síns til að svala þörf sinni, eitthvað verður undan að láta, eða hvað?
En svona án gríns, drepið í sígarettunum á öruggum stað. Mér finnst alltaf leiðinlegt að sjá lítil, forvitin, börn tína upp sígarettustubba af götunni ojjjjjjj, og svo að lokum þá dettur mér laglína í hug
"af litlum neista verður oft mikið bál".

Þangað til næst
Kveðja Drífa

Komin niður af Kræðufelli

Vildi bara láta vita að ég er komin niður af Kræðufelli, heil á húfi :o) Skrapp bara í hraunið í bústaðinn á föstudaginn og lá þar í leti um helgina. Gönguferðin var dásamleg, hófst klukkan 21:00 og lauk um klukkan 02:00. Fór til Elfu þar sem einn ískaldur beið ísskápnum og að lokinni hreingerningu á líkama og sál fékk að halla mér þar til klukkan 06:15 en þá þurfti ég að haska mér í föt og koma mér út á sand til að taka ferjuna til vinnu. Stuttur svefn þessa nóttina en ég bætti það upp í hrauninu enda skítakuldi allan laugardaginn svo það var legið í leti, farið í kaffi til Höllu Gríms og fjölskyldu auk þess að renna í Mývatnssveit svona til að eyða deginum. En nú erum við fjölskyldan komin heim í heiðardalinn og segjum bara góða nótt.


Þangið til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 19. júní 2007

Bleikt skal það vera

Kvenréttindadagurinn er í dag en á þessum degi árið 1915 fengu konur kosningarétt, til hamingju með daginn konur. Sem betur fer hefur margt breyst í áranna rás en það er mikilvægt að minnast þessa atburða svo ungar konur líti ekki á það sem þær hafa sem sjálfsagðan hlut. EN nóg um konu þetta og konu hitt.

Dagurinn hófst með þoku en síðan létti til þegar leið á daginn. Að loknm vinnudegi arkaði ég út að Borgarbrík og truflaði á leiðinni kríur sem voru ekki svo mjög glaðar. Þær fylgdu mér áleiðis en þá tóku mávarnir við og eru þeir mun vinalegri að mínu mati. Það var náttúrlega dásamlegt að arka upp á eyju í þessu geggjaða veðri sem var komið seinni partinn.

Á leið minni hitti ég nokkra ferðamenn á stangli og brostu þeir út að eyrum sem er ekkert skrítið enda alltaf gaman að hitta mig. Hjón gáfu sig á tal við mig við Yggdrasil (listaverkið upp á eyju) og spurðu mig hvað þetta væri eiginlega, það liti út fyrir að hér hafi geimveruru verið á ferð. Ég stoppaði nú við og sagði þeim frá þessu ágæta verki og sagði það hafa vissan tilgang þó svo það líti ekkert svakalega vel út. Það er spurning að það verði sett skýring við þetta járnbrak svo fólk haldi ekki að það eigi á hættu að hitta geimverur bak við einhverja þúfuna.


Þangað til næst
Kveðja Drífa
Yggdrasil

Myndbrot

Alltaf dettur mér í hug að brasa eitthvað fram á nótt en nú var það að búa til myndasíðu. Það eru væntingar mínar í kjölfar þessa almbúms að ég verði duglegri að taka myndir þar sem ég hef verið mjög ódugleg við það undanfarið.
www.123.is/drifa_thorarins


Njótið vel
Þangað til næst
Kveðja Drífa.

mánudagur, 18. júní 2007

Þokuslæðingur

Þá er helgin liðin og vinnuvikan að hefjast. Hélt það ætti að vera sól og blíða í dag en það var þoka og blíða í staðinn sem var bara ágætt.

Fékk mér samt dásamlega kvöldgöngu, arkaði gönguleiðina, með kríur sveimandi yfir höfði mér. Ekki mjög skemmtilegt það en ég reyni að láta þær ekki stoppa mig í að ferðast um eyjuna og er að vinna í að ná úr mér þessari fuglafælni sem ég þjáist af. Ég reyni því að líta björtum augum á fugla sem garga og ógna mér með lágflugi :o) Er einhver jákvæðari en þetta í dag.

Ástæða þess að ég arkaði út í kvöld er leti mín að undanförnu og gönguferð sem er framundan en ég ætla að fara í gönguferð með Ferðafélagi Akureyrar á fimmtudagskvöldið (Sumarsólstöður á Kræðufelli) en það mun vera 711 metrar og ætla ég að haska mig upp og veitir því ekki af smá þjálfun áður.

Ég fékk þá flugu í hausinn að fara að arka um eyjar, dali, skóga og fjöll fyrir tveimur árum og reyni að gera eitthvað í því á hverju sumri. Það er ágætt að fara með Ferðafélgögum í slíkar göngur eins og til dæmis þegar ég gekk á Mælifell í Skagafirði því maður getur lent í ógöngum þegar maður fer á eigin vegum eins og við lentum í þegar við fórum Garðsárdalinn og yfir Gönguskarð en við tölum ekki meira um það :o) Við erum allavega hér í dag ekki satt.

Þangað til næst
Kveðja Drífa.

Garðsárdalur

sunnudagur, 17. júní 2007

Kvennahlaup, sól og sumar

Það ætlar að ganga illa hjá mér að skella inn línum hér reglulega en svona er lífið.

Í dag var blíða hér í Hrísey og því ekki leiðinlegt að skella sér í Kvennahlaupið en það voru ferskar konur sem létu sjá sig og sprettu úr spori svona um 3.5 km sem er bara gott. Það hefði verið skemmtilegra að sjá fleiri en það má segja að það hafi verið fámennt og góðmennt.

Á morgun eða réttara sagt í dag (12:08) er 17. júní og spurning hvað maður gerir í tilefni dagsins. Það verður víst engin hátíð hér í Hrísey, hef allavega ekki séð neitt auglýst því miður, svo maður skellir sér kannski í land til að fagna þessum ágæta degi.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Fór á Brekku á föstudagskvöldið þar sem leikklúbburinn Krafla hittist og slúttaði leiksýningunni með pizzum og sýningu á myndbandinu. Það var náttúrulega skelfing að sjá sig á sviðinu enda röddin í manni svo skemmtileg á svona myndbandi.

Nú er ég farin að huga að því að taka til í skápum og pakka niður, einn kassi á dag kemur skapinu í lag er mottóið hjá mér þessa dagana, enda gott að vera búin með sem mest áður en við förum á Spán í júli.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

sunnudagur, 3. júní 2007

Sjómannslíf sjómannslíf

Þá er júní genginn í garð og sjómanadagurinn liðinn. Það þótti fréttnæmt að ekki yrði haldið upp á sjómannadag á Akureyri en þeir hafa gleymt að við í Hrísey erum Akureyri því hér fór fram skemmtun á laugardeginum, kaffihlaðborð og stórdansleikur í Sæborg um kvöldið, skemmtilegt það. En já hér er blessuð blíðan svo húsmóðirin í Hafnarfirði getur farið að koma norður í land enda spáir sunnan átt næstu daga. Mér þótti leitt að hún kæmi ekki til að berja Frú Lovísu augum enda gæti þetta verið fyrstu skref hennar til frægðar í leikslistinni ha ha ha.

En hér er allt að gerast hægt og sígandi, er búin að ráða mig í vinnu og mun byrja í lok ágúst. Guðný er að fara til Danmerkur á morgun í skólaferðalag. Hún var að fá einkunnir úr samræmdu prófunum og gekk þrusu vel, klár eins og mamma sín :o)

En nú ætla ég að hætta þessu röfli og fara að halla mér, svona bráðlega

Þangað til næst
Kveðja Drífa

miðvikudagur, 30. maí 2007

Á ferð og flugi

Það er brjálað að gera þessa dagana eins og sést á uppfærslum þessarar síðu, sem sagt ekkert að gerast hér en nú verður vonandi bót á því.
Ég hef verið að vinna með leikklúbbnum Kröflu og settum við upp sýninguna Hernám í Hrísey. Það er frásögu færandi að um 170 manns hafa sótt sýninguna sem er nokkuð gott í 170 manna samfélagi eins og Hrísey er. En allavega þá var ég að leika hana frú Lovísu og gekk þolanlega í sýningunum að ég held. En nú er aðeins ein sýning eftir svo að þeir sem vilja sjá frú Lovísu verða að skella sér í leikhús á föstudaginn klukkan 20:30.
Það er mikið um að vera hjá okkur fjölskyldunni. Við höfum ákveðið að flytjast til Akureyrar nú í sumar og yfirgefa okkar ágætu eyju. Dömurnar voru að ljúka skólanum í dag en það voru skólaslit í grunnskólanum í Hrísey. Guðný var að ljúka grunnskólanámi og Eygló var að ljúka skólanámi í Hrísey, allir að ljúka einhverju :o) Við höfum fest hendur á raðhúsi á Akureyri og atvinnumálin eru í vinnslu. Það kemur því í ljós á næstu dögum hvernig þetta verður allt saman hjá okkur.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 7. maí 2007

Úr einu í annað, frá hægri til vinstri

Þá er þessi dagur að kveldi kominn en það er svo bjart að maður getur bara ekki farið í rúmið enda vita flestir sem þekkja mig að ég færi aldrei að sofa klukkan 22:00. En nú var ég að koma af leikæfingu og er bara farin að finna mig svolítið í frú Lovísu :o) en svo kemur í ljós hvernig þetta tekst til.

Ég rak augun í bækurnar á náttborðinu og hugsaði með mér að það væri kominn tími til að endurnýja listann enda löngu komnar nýjar bækur, já komnar og farnar. Ég var eitthvað svo andlaus um daginn þegar ég fór á safnið enda deyja hugmyndir mínar að meistaraprófsritgerð jafnharðan og þær fæðast. Mig fýsti greinilega samt í einhvern fróðleik og tók bókina "Náttúrulækningar heimilisins" og spurnining hvort maður fari ekki bara að sjóða saman jurtir til að hafa eitthvað fyrir stafni. Svo til að efla þekkingu mína og dóttur minnar á myndlist tók ég bókina "Skoðum myndlist" og að lokum afþreyingu "Á undan sinni samtíð" eftir Ellert B. Schram. Svo nú vitið það.

Ég hef gaman af því að flakka um vefinn og lesa greinar eftir fólk, jafnt unga sem aldna, og rakst ég á þessa ágætu grein efitir Guðrúnu Jónsdóttur sem er á lista vinstri grænna í suðurlandskjördæmi. Það er hollt fyrir alla að lesa þessa grein því hún minnir okkur á hve upptekin við erum af veraldlgum gæðum og gleymum því mikilvægasta. Við gleymum nefnilega í hita leiksins að hugsa um okkar nánustu, að annast þá sem okkur þykir vænst um.
Endilega lesið greinina
http://www.eyjafrettir.is

Þangað til næst
Kveðja Drífa

sunnudagur, 6. maí 2007

Nú skal tekið á því

Ég vaknaði í morgun og fyrsta hugsunin var að nú gengi þetta ekki lengur. Ég reif mig á lappir og fékk mér morgunmat, skellti mér svo í gönguskóna og gekk gönguleiðina á nokkuð góðum hraða. Að því loknu skellti ég grænmeti í pott sem hesthúsaði áður en ég ryksugaði og skúraði gólfið og fór svo í bað.

Ég settist stolt við tölvuna og hugsaði með mér að nú væri ég komin í gírinn og á næstu vikum yrði lifað eftir þessari formúlu: Hollt mataræði og hreyfing takk fyrir

Ég fór nú inn á netið til að fá nýjustu fréttir og fyrsta sem ég rakst á var Megrunarlausi dagurinn, nei reyndar eftir að ég las um páfagaukinn sem var bjargað undan hillusamstæðu á Akureyri. Það er gott að slökkvuliðið hefur eitthvað að gera.

Ég fékk vægt áfall og hugsaði með mér hvílík örlög þetta væru. Ég fór að sjálfsögðu inn á vef samtakanna eins og greinarhöfundur benti mér á og las:
Á þessum degi eru allir hvattir til þess að láta af viðleitni sinni til þess að grennast þó ekki væri nema í einn dag, og leyfa sér að upplifa fegurð og fjölbreytileika mismunandi líkamsvaxtar og sjá fyrir sér veröld þar sem megrun er ekki til, þar sem hvers kyns líkamsvöxtur getur verið tákn um hreysti og fegurð og mismunun vegna holdarfars þekkist ekki. http://www.likamsvirding.blogspot.com

Já hvers á ég að gjalda. Nú er spurning hvort ég leyfi mér að upplifa fegurð og fjölbreytilileika mismunandi líkamsvaxtar með því að líta í spegil eða reyni að líta á vakningu mína á jákvæðan hátt þ.e. ekki sé um megrun að ræða heldur viðleitni til að lifa hollustusömu líferni.

Þangað til næst
Kveðja Drífa


miðvikudagur, 2. maí 2007

Spáin nokkuð góð eða hvað

Þegar maður hefur ekkert að gera kíkir maður á stjörnuspá og athugar hvort eitthvað eigi eftir að birta til hjá manni eða hvort eitthvað eigi eftir að gerast. Ég hafði ekkert að gera nú rétt í þessu og spáin í dag segir mér að vinir mínir treysta á að ég hressi þá við. Ég er mjög gefandi við náungann og mikil heppni fylgir mér hvert fótspor næstu daga. Ég bý yfir meðfæddri bjartsýni og framleiði eigið sólskin þegar rignir. (spámaður.is)

Það er naumast!!!

Ég man nú ekki eftir að hafa hresst eitthvað meira upp á fólk í kringum mig í dag heldur en vanalega en ég hef nú reynt að vera örlítið gefandi svona eins og mér er unnt. Ég verð heppin næstu daga segir spáin og best að vera vel vakandi við hvert fótspor en nú skil ég hvers vegna sólin skein kringum mig núna seinnipartinn á meðan allir hinir voru rennandi blautir en samkvæmt spánni er ég farin að framleiða eigið sólskin. Sól sól skín á mig.......

Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 1. maí 2007

Rúntað um í blíðunni

Þetta var ágætist dagur í dag, gott veður, en ég eyddi honum í að þrífa :o) þarf víst að gera það líka. Restin af fjölskyldunni skellti sér á Akureyri og tók þar yngri dóttir þátt í 1. maí hlaupi og stóð sig með sóma og lenti í 4 sæti, frábært hjá henni. Að launum fékk hún pizzu, svala og verðlaunapening sem hún sýndi mér með stolti þegar hún kom heim. Sem betur fer komst hún í hlaupið því seint í gærkveldi uppgötvuðum við foreldrarnir of seint að 1. maí er "rauður dagur á dagatali" og panta þarf ferjuna fyrir klukkan 22:00 kvöldið áður ef maður ætlar í land klukkan 9:00. Þar sem við vorum of sein treystum við því að einhver hefði sýnt fyrirhyggju og pantað ferjuna en svo var ekki. Þar sem við höfðum lofað dótturinni að hún mætti taka þátt í hlaupinu voru góð ráð dýr og kom það því í hlut smábátasjómanns að ferja okkur í land og reyndar taka farþega til baka sem biðu á bryggjupollanum fyrir handan. Ég veit að 1. maí er frídagur en maður spyr sig hvort þetta þurfi að vera svona.
Við grilluðum gómsætan fisk í kvöld og buðum hjónunum og börnum úr Kelahúsi að snæða með okkur. Skrapp síðan á kröfluæfingu í klukkan 20:00 og var þar lesið yfir handritið sem er orðið bara nokkuð gott. Það er því skemmtilegur tími framundan en það var líka skemmtilegt á heimleiðinni að sjá allt þetta fólk á rúntinum í blíðunni hér í Hrísey. Já það er hægt að rúnta í Hrísey þótt ótrúlegt sé.
Þangað til næst
Kveðja Drífa.

mánudagur, 30. apríl 2007

Sitt lítið af hverju

Það er langt síðan eitthvað hefur verið ritað hér en nú skal verða bót á því, en ég lofa samt engu. Það er ýmislegt um að vera hér í okkar ástkæru eyju og má þar nefna að leikfélagið er komið á fullt skrið og er stefnt á að sýna um Hvítasunnuhelgina. Verið er að leggja lokahönd á handritið og byrjað að lesa á fullu. Hernámsárin í Hrísey er efni sýningarinnar og hefur verið virkilega gaman að leggjast yfir heimildir um þann tíma.

Ég var að koma af íbúaþingi nú rétt áðan og var frekar skúffuð. Við í Hverfisráði mættum spennt með súpu og brauð fyrir 40 manns en eitthvað voru íbúarnir minna spenntir því lítið var um þá á fundinum. Varaformaður umhverfisnefndar Akureyrarbæjar og verkefnastjóri Staðardagskrár 21 komu á fundinn og voru með erindi um umhverfismál. Hverfisráð kynnti nýja útgáfu Staðardagskrá 21 fyrir Hrísey, þ.e. verkefnalistann fyrir árin 2007-2010, og síðan var opnað fyrir umræður. Fundurinn var mjög fínn og málefnalegur en það hefði verið skemmtilegra ef fleiri en 5 íbúar hefðu séð sér fært að mæta.

Það er best að ljúka þessu stutta erindi með því að nefna veðrið en það hefur leikið við okkur hér fyri norðan og er stuttbuxna-veður og sólarvörnin kemur sér vel þessa dagana

Þangað til næst
Kveðja DRífa

mánudagur, 26. mars 2007

Komin heim í heiðar dalinn....

Nú erum við fjölskyldan komin heim eftir ágæta borgarferð en það hefði kannski mátt hætta að rigna, þó ekki hefði verð nema í smá stund, þessa 5 daga sem ég dvaldi þar. En það er ekki hægt að panta veður í dag, ekki ennþá, en það verður örugglega hægt í framtíðinni.

Ég skrapp inn á Mbl.is þegar ég kom heim úr vinnunni og sá þar skondna frétt en jafnframt aðra sem ég veit að hefur ekki fengið ákveðna manneskju til að brosa.
Mús rænir hraðbanka finnst mér frekar skondin frétt en það sem verra er, hún át peningana í stað þess að eyða þeim í vitleysu eins og við hin. Músin náði kannski ekki miklum árangri sem þjófur en ekki heldur þjófurinn á Akureyri sem var nappaður fyrir þjófnað líkt og músin. Við frekari grennslan höfðu bæði músin og þjófurinn komið sér upp hreyðri, músin úr seðlum en þjófurinn úr plöntum, já svona er heimurinn skrítinn.
Ég veit að ein ákveðin kona verður ekki hrifin þegar hún sér auglýsingu um að hætta eigi að framleiða TaB nú á vordögum. Það er spurning um að fólk sem stendur henni nærst fari að safna TaB flöskum, þeim ágæta drykk, svo hún fái notið hans sem lengst.
Þanga til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 19. mars 2007

Hann er einn af þessum frægu...

Já svo hún Linda mín heldur að ég fari bara í keilu þegar ég er búin að ákveða að fara í leikhús, hélt hún þekkti mig betur en það :o)

Ég var að þvælast um morgunblaðsvefinn og skrapp inn á stjörnuspeki.is og þar var ýmislegt að finna, sumt merkilegt en flest ekki. Eitt sem hægt er að fá vitneskju um er hvort einhverjir frægir einstaklingar séu fæddir sama dag og maður sjálfur, ekki leiðinlegt að vita það. Ég er fædd á þeim merkisdegi, 16. apríl og beið spennt eftir niðurstöðum en þær voru nú ekki svo miklar því það voru aðeins 4 frægir fæddir þennan dag. Þetta voru niðurstöðurnar:

Einstaklingar fæddir 16. apríl:Ellen Barkin, leikkona, Sea of Love. Björgvin Halldórsson, söngvari. Drífa Þórarinsdóttir, leikkona, Illt til afspurnar. Charlie Chaplin, leikari & leikstjóri.

En þó þetta sé ekki mikill fjöldi þá virðist vera að fólk fætt þann 16. apríl séu mikið hæfileikafólk og þá sérstakleg hvað varðar söng og leik ha ha ha.


Þangað til næst
Kveðja Drífa

sunnudagur, 18. mars 2007

Dreifbýlistúttur í borgarferð

Ákvað að segja nokkur orð svona til að hreyfa við þessari ágætu síðu hjá mér.
Þannig er að ég er að fara með leikskólastjórum Akureyrar og nágrennis í náms og kynnisferð til Reykjavíkur frá miðvikudegi til föstudags. Til að slá 2 flugur í einu höggi var ákveðið að restin af fjölskyldunni kæmi suður á föstudeginum og er ætlunin að eiga ánægjulega helgi saman í höfðuborg okkar ágæta lands.
Þegar þetta var ákveðið fengum við hjónin hugmynd um að skella sér í leikhús t.d. á Abbababb í Hafnarfjarðarleikhúsinu, Ronju Ræningjadóttur í Borgarleikhúsinu eða bara einhverja barnasýningu. Þó hugmyndin væri góð þá gekk þetta ekki upp þar sem nærri engar sýningar er að finna fyrir börn á föstudögum og laugardögum í okkar ágætu höfuðborg. Ég trúði þessu nú varla en því miður er þetta veruleikinn, dreifbýlistúttur í borgarferð geta ekki farið í leikhús með börnin nema á sunnudögum klukkan 14:00 eða 17:00 þegar það er komin tími á heimferð hjá flestum helgar-ferðalöngum.
Ótrúlegt en satt.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 13. mars 2007

Tengsl og aftur tengsl

Það er greinilegt að hægt er að finna tengsl á milli hinna ýmsu hluta og ekki hluta. Nú er sagt að tengsl séu á milli streitu og húðvandamála hjá unglingum. Þetta ætti að auðvelda t.d.kennurum og öðrum sem vinna með unglingum að sjá hvort þeir eru haldnir streitu og geta því brugðist strax við vandanum, halló!

Fyrirgefðu vina, ég sé þú ert með bólu á nefinu, er eitthvað að angra þig annað en þessi svakalega bóla.

En svona án gríns, það getur vel verið að það sé gott að vita tengsl á milli húðvandamála og streitu en ég held við vitum flest að streita hefur áhrif á líkamsstarfsemina eins og hún leggur sig og bara spurning hvort sú streita hefur áhrif á húðina, líffæri, eða veldur öðrum vandamálum s.s. svefnleysi, slappleika og hraðari öldrun. En nóg um það. Munið bara að faðmast og þá verður allt miklu betra :o)

En svona að endingu þá endileg kíkið á leikskólasíðuna okkar í Smábæ. Var eitthvað að reyna að breyta og bæta en spurning hvernig þetta endar. Ég er samt róleg yfir þessu og ætla því nú að fara að leggja mig og undirbúa mig fyrir verkefni komandi dags til að koma í veg fyrir frekari streitu.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

sunnudagur, 11. mars 2007

Ekkert að segja

Eitthvað hef ég lítið að segja þessa dagana, einhver lægð yfir mér greinilega eins og landinu öllu. Ég hef verið að dunda mér við að lesa hinar ýmsu bækur þó svo ég hafi gleymt að uppfæra bókina á náttborðinu. Það værin nú samt notalegt ef hún Linda kæmi hér eina kvöldstund og læsi fyrir mig nokkrar blaðsíður....

Ég er nú að lesa " Heima er engu öðru líkt" Mary Higgins Clark. Læt ykkur vita hvernig gengur

Ég fór að ráðum Lindu og fór í gegnum gamlar myndir af mér og fann þessa skemmtilegu mynd sem tekin var af mér á spáni og skellti henni að sjálfsögðu hér á síðuna.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

föstudagur, 9. mars 2007

Mynd fyrir mynd

Ég hef verið að renna í gegnum myndirnar af mér og hef komist að því að engar myndir eru til af mér þar sem ég er venjuleg, hvernig sem það nú er :o)


Þegar ég renndi yfir myndirnar fann ég þessa glæsilegu mynd af okkur Lindu og Alla Bergdal sem var tekin þegar við létum sækja Lilju systir og Jóhönnu í ferjuna og fórum með þær í smá skemmtiferð um eyjuna og þessa fínu mynd af Ómari mínum og Ómari þínum líka.


Þangað til næst

Kveðja Drífa