föstudagur, 30. maí 2008

Skjálftinn í beinni

Það getur allt gerst í beinni

http://youtube.com/watch?v=QvsIfm-37mc


Þangað til næst
Kveðja Drífa

fimmtudagur, 29. maí 2008

Skelfur jörð

Það má segja að jörðin leiki á reiðiskjálfi. Fékk fregnirnar eftir vinnu og brá heldur betur í brún. Fæ nettan hroll við slíkar fregnir þó svo ég geti engan veginn sett mig í spor þeirra sem lenda í slíkum hremmingum enda aldrei lent sjálf í jarðskjálfta. Mömmu datt að sjálfsögðu eldgos í hug (sökum fyrri reynslu) þegar hún fann drunur og skjálfta undir fótum sér inni í húsinu og fékk nettan hroll. Ljósakrónurnar dönsuðu í loftinu og hún fann hvernig hún missti allt jafnvægisskyn og varð hálf flökurt í kjölfarið. Það er mesta mildi að enginn hefur slasast í þessum stóra skjálfta. Fékk loksins fregnir af Valgerði vinkonu og hennar fjölskyldu og þau eru sem betur fer öll heil á húfi þó svo sálartetrið sé ekki upp á sitt besta, skiljanlega, og eignir séu í misjöfnu ásigkomulagi. Ég vona að þetta sé búið en grunar að það taki það fólk sem lenti í þessu langan tíma að jafna sig og treysta umhverfi sínu. Ómar fann skjálftann í Byko, hér á Akureyri, sem segir til um hve sterkur hann var. En eins og alltaf þá standa Íslendingar saman í blíðu og enn frekar í stríðu svo þetta mun vonandi allt fara á besta veg.
Af okkur er lítið annað að frétta nema vinna og sofa. Eygló er að ljúka skólanum á morgun og Guðný er á kafi í próflestri en hún á eina viku eftir og þá hefst sumarvinna á Bautanum. Eygló verður í fimleikum í sumar og svo á námskeið hjá Amtbókasafninu svo það verður nóg að gera hjá öllum í sumar.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 12. maí 2008

Helgin á enda...

Nú er þessi langa helgi að taka enda og ég verð að segja að mér þótti hún lítið lengri en aðrar helgar :o) enda flýgur tíminn áfram. Helgin var samt sem áður ánægjuleg:

Við ákváðum að vera heima hjá okkur á laugardaginn, aldrei þessu vant, þó svo Kaffihúsakórinn frá Vestmannaeyjum væri út í Hrísey með tónleika í Sæborg og Brekka væri auglýst opin fram á nótt :o) Við skelltum okkur aftur á móti út í eyju á sunnudeginum og sáum þá vegsummerki, á fólki, um næturopnun Brekku og vorum dauðfegin að hafa verið heima hjá okkur kvöldinu áður. Ég og Eygló fórum í húsvitjanir meðan Ómar fór á Brekku að horfa á einhvern mjög mikilvægan leik, ekki spyrja mig hvaða, og svo enduðum við hjá tengdó í grillveislu. Við vorum svo heppin að hitta Árna og Ólaf, litla, Þorstein en Ella var fjarri góðu gamni, á flækingu erlendis.

Í dag byrjuðum við á garðyrkjustörfum en að þeim loknum fórum við á Laugar til að heimsækja Höllu og fjölskyldu en það var orðið MJÖG langt síðan síðast. Kristján og nafni hans komu og svo Gauti, Rúna og Alída líka svo það var fjör í sveitinni.
Eygló og Alída voru í fimleikum úti á lóð og svo var Eygló svo heppin að fá að prófa fjórhjólið hennar Alídu. Henni þótti ekki leiðinlegt að þeysast um og náði bara nokkuð góðum tökum á þessu













Hér er daman á hjólinu !













Alída flott í gallanum sínum, vel varin!


Smá vídeo af Eygló á Hjólinu

Þangað til næst
Kveðja Drífa



laugardagur, 10. maí 2008

Langt síðan síðast

Það er langt síðan ég hef sest við skriftir en hér verður bætt úr því með smá samsulli um allt og ekkert. Hvaða áhyggjur hefur fólk af veðrinu hér norðan heiða, hér er blíða eins og alltaf :o)
Fengum reyndar smá sýnishorn af snjókomu í gær en nú er það allt bráðnað í blíðunni þó einhver snjókorn hafi fest rætur í fjallshlíðum hér í kring. Las reyndar um ófærð einhversstaðar á heiðum, en við fjölskyldan erum ekkert að þvælast þar.

Frá því ég skrifaði síðast hefur mín yndislega stóra-systir náð ákveðnum áfanga í lífi sínu þ.e. hún varð fertug þann 27 apríl þessi elska, Til hamingju með áfangann elsku Lilja. Það segir mér að nú séu fimm ár þar til ég næ þeim áfanga, úps.
Við hjónkornin skelltum okkur í óvissuferð um síðustu helgi með starfsfélögum Ómars í Byko. Það var bara stuð, fórum á skotsvæðið og þar var keppni í skotfimi. Fórum síðan og skoðuðum og smökkuðum Víking, pizzuveisla á Kaffi Akureyri og svo farið í sjóstöng á Dalvík. Hörkuprógram sem endaði á Vélsmiðjunni þar sem Spútnik spilaði fyrir dansi. Ég fékk reyndar ekki fisk og gat þar með ekki endurtekið og sannað hæfni mína í veiðimennsku.
Eygló hélt hér náttfatapartý í gærkveldi og bauð 14 bekkjarsystrum sínum heim. Við bökuðum pizzur í dömurnar og svo fengu þær popp og gos. Það var mikið húllumhæ hér á bæ en gaman að fá þær í heimsókn og kynnast þeim aðeins betur.
Ómar var að vinna í dag og á meðan tók ég mig upp og þreif húsið hátt og lágt. Við höfum ekki ákveðið hvort við ætlum að nýta þess helgi til heimsókna til nærsveita en hver veit nema við skellum okkur út í Hrísey eða jafnvel rennum á Laugar og heimsækjum sjaldséða hrafna.
Þangað til næst
Kveðja Drífa
ps. Ella ! Hafðu það gott á erlendri grundu og sjáumst vonanadi í bráð