Fengum reyndar smá sýnishorn af snjókomu í gær en nú er það allt bráðnað í blíðunni þó einhver snjókorn hafi fest rætur í fjallshlíðum hér í kring. Las reyndar um ófærð einhversstaðar á heiðum, en við fjölskyldan erum ekkert að þvælast þar.
Frá því ég skrifaði síðast hefur mín yndislega stóra-systir náð ákveðnum áfanga í lífi sínu þ.e. hún varð fertug þann 27 apríl þessi elska, Til hamingju með áfangann elsku Lilja. Það segir mér að nú séu fimm ár þar til ég næ þeim áfanga, úps.
Við hjónkornin skelltum okkur í óvissuferð um síðustu helgi með starfsfélögum Ómars í Byko. Það var bara stuð, fórum á skotsvæðið og þar var keppni í skotfimi. Fórum síðan og skoðuðum og smökkuðum Víking, pizzuveisla á Kaffi Akureyri og svo farið í sjóstöng á Dalvík. Hörkuprógram sem endaði á Vélsmiðjunni þar sem Spútnik spilaði fyrir dansi. Ég fékk reyndar ekki fisk og gat þar með ekki endurtekið og sannað hæfni mína í veiðimennsku.
Eygló hélt hér náttfatapartý í gærkveldi og bauð 14 bekkjarsystrum sínum heim. Við bökuðum pizzur í dömurnar og svo fengu þær popp og gos. Það var mikið húllumhæ hér á bæ en gaman að fá þær í heimsókn og kynnast þeim aðeins betur.
Ómar var að vinna í dag og á meðan tók ég mig upp og þreif húsið hátt og lágt. Við höfum ekki ákveðið hvort við ætlum að nýta þess helgi til heimsókna til nærsveita en hver veit nema við skellum okkur út í Hrísey eða jafnvel rennum á Laugar og heimsækjum sjaldséða hrafna.
Þangað til næst
Kveðja Drífa
ps. Ella ! Hafðu það gott á erlendri grundu og sjáumst vonanadi í bráð
Engin ummæli:
Skrifa ummæli