laugardagur, 19. apríl 2008

Hjá öllum vakir þráin að birta öðrum hug sinn.....

Skellti mér á ráðstefnu sem Háskólinn á Akureyri stóð fyrir í dag "Hjá öllum vakir þráin að birta öðrum hug sinn". Fyrirlesarar voru áhugaverðir og eins og heiti ráðstefnunnar gefur til kynna var gert grein fyrir mikilvægi góðra samskipta og tækifæra til tjáningar. Fjallað var um hvernig skólinn getur nýtt samræðuna til aukins náms og betra samfélags og hvaða ávinningur felst í slíkum áherslum.
Málstofurnar voru mismunandi og margar hverjar áhugaverður. Ég sótti málstofu sem fjallaði um hvernig leikskóli á Akranesi fléttar saman tónlistarkennslu og heimspeki. Sigurður Björnsson lektor við KHÍ átti að sjá um málstofuna en forfallaðist sem mér fannst miður en þær stöllur sem sáu um kynninguna stóðu sig ágætlega. Seinni málstofan sem ég sótti var áhugaverð og var það Elín Sigurbjörg Jónsdóttir sem sá um hana. Hún byggði erindi sitt á kenningum Vygotsky um félagsleg samskipti í kennslu barna með frávik í þroska og kom með skemmtilega sýn á hvernig við getum horft til náms nemenda með frávik. Til hamingju með þetta Elín. Það er nefnilega viðhorf okkar sem kennum börnunum sem skiptir mestu máli. Það að vinna markvisst að því að finna hvað einstaklingurinn getur en ekki horfa stöðugt á frávikið eða það sem hann getur ekki. Byggjum á því sem hver og einn hefur að bera og eflum hann sem námsmann á eigin forsendum. Guð hvað þetta var vel orðað hjá mér :o)
En allavega, HA til hamingju með vel skipulagða og áhugaverða ráðstefnu.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Keiluferð

Skrapp í keilu með samstarfskonum mínum, mikið fjör hjá okkur. Ég myndi segja okkur nokkuð góðar og því til staðfestingar þá náðum við allar fellu, sumar fleiri en einni. Góður stelpur.

Annars heldur lífið áfram sinn vanagang. Í dag er ég 35 ára og 1 dags gömul og líður bara nokkuð vel. Veðrið spillir ekki fyrir en það hefur verið blíðviðri síðustu daga og spáin segir að svo verði áfram. Það er föstudagur á morgun sem segir mér að helgin nálgist. Ætla að fara á ráðstefnu í Háskólanum á laugardag en á sunnudag ætla ég að slaka á heima eða njóta blíðunnar sem Siggi stormur segir að verði áfram.

Var að kíkka á myndbandið við Eurovision lagið okkar, This is my life, og gat ekki annað en brosað út í annað. Ekki frá því að við vinkonurnar höfum leikið svipaðan leik og númerið í myndabandinu nema hvað það var vinsælt að nota pískara með álpappír til að gera þetta svolítið ekta :o)

Og svona að lokum af því ég hef ekkert að segja, stjörnuspáin í dag.
Hrútur: Heimsfriðurinn byrjar á heimilinu. Þú hefur sjaldan verið umburðarlyndari og átt næga ást að gefa. Þannig dýpkarðu samband þitt við ástvini þína og ókunnuga.

Spurning hvort saltsteinslampinn sem ég hef átt í einn sólarhring hefur þessi áhrif á mig og fjölskylduna, hver veit?
Þangað til næst
Kveðja Drífa


miðvikudagur, 16. apríl 2008

Árin líða .....

Náði stórum áfangi í dag þ.e. 35 ára afmælinu mínu, heppin ekki satt. Nú mun kerlan sem sagt vera hálf-fertug eða ætti ég að segja hálf-sjötug, spurning :o)
Þakkir til allra sem sendu mér kveðjur og gjafir í tilefni dagsins, knús og kossar. Það verður ekki leiðinlegt að fara í lúxusgreifynjunudd sem samstarfskonur mínar á Gleym-mér-ei gáfu mér
og leggjast til hvílu með saltsteinslampann sem tengdaforeldrar mínir færðu mér. Það er spurning hvort ég sé farin að líta eitthvað þreytulega út, en eftir þessa frábæru meðferðir mun ég líta út eins og greifynja og sofa eins og engill
Takk fyrir mig
Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Örsaga göngugarps :o)

Frábært veður þessa dagana og ekki annað í stöðunni en að njóta þess eins og unnt er. Eftir annasaman dag í vinnunni ákvað ég að fá mér hressingargöngu. Sólin skein, lækir runnu víða í hitanum og gaman að sjá hvað allt lifnar við. Ég sá í fyrstu eftir að hafa ekki tekið myndavélina með í ferðina en þegar á leið var ég fegin. Þrátt fyrir yndislegt veður þá varð ég fyrir truflun sökum þess sem komið hefur í ljós undan bráðnandi sköflunum. Draslið um allt kom mér svo á óvart og skemmdi í raun fyrir mér þennan annars yndislega göngutúr. Ég veit að ýmislegt fellur til eftir veturinn en ég hef ekki trú á að allt þetta drasl hafi fokið frá fólki. Nei ég tel meiri líkur á því að fólk hafi hreinlega hent draslinu á víðavangi. En.. ég vona að þeir hinir sömu verði jafn duglegir á hreinsunardaginn að tína upp ruslið eins og þeir hafa verið við að henda því. Það er skondið að segja frá því að ég var komin í hlutverk rannsakanda á leið minni. Fréttablöð, fernur, sælgætisbréf, sígarettur, sígarettupakkar, bjórdósir og kassar og fleira varð á vegi mínum. Ég undraðist að ekkert nytsamlegt hefði komið undan snjónum s.s fatnaður, leikföng eða jafnvel einhverjir aurar ( hefði verið fínt að rekast á þá ). Engir aurar urðu á vegi mínum en viti menn, undir lok göngu minnar var mér litið niður og hvað haldið þið? Jú þarna lá sokkur í öllu sínu veldi og er ég ekki frá því að hann hafi brosað til mín.


Svona getur skemmtiganga að kvöldlagi snúist upp í rusla-rannsóknarleiðangur.

Hættið að henda ruslinu á víðavangi

Þangað til næst
Kveðja Drífa
mánudagur, 14. apríl 2008

Í nógu að snúast

Mér var tjáð að apríl væri að verða hálfnaður og ég væri ekki að standi mig í því að blogga. Ég var að vonum mjög hissa hve langt var um liðið frá síðasta bloggi, nei ég segi svona. Málið er að það er alltaf eitthvað skemmtilegt um að vera hjá manni og spurning að maður gefi sér meiri tíma til að miðla þeirri reynslu, svo virðist sem einhverjir lesi þetta blaður í mér þó svo commentin séu fá.
Til að gera langa sögu stutta þá fór ég með mínum skemmtilegu fyrrum skólasystrum úr KHÍ í óbyggðaferð um þar síðustu helgi og áttum við yndislegar stundir í Hólaskógi. Það er reyndar skondið að segja frá því að í Hólaskógi er enginn skógur í um 20 km radíus frá skálanum en það á sínar skýringar sem er Heklugos sem ég mun ekki greina frá hér enda löngu fyrir mína tíð. Í þessari skemmtilegu ferð gistum við í frábærum skála sem hefur að geyma allar þær nauðsynjar sem óbyggðarlífið þarfnast nema mat, svefnpoka, klæði og drykkjarföng sem fer reyndar svolítið eftir smekk manna, íslenska vantnið er jú að finna þar efra. Markmiðið með ferðinni var að eiga góðar stundir saman með mat og drykk auk þess að fara í skipulagða fjórhjólaferð með Óbyggðaferðum ehf. Á laugardeginum var farið í 5 tíma ferð um óbyggðir Íslands sem var ekki leiðinlegt og ekki skemmdi afslöppun í saunaklefanum fyrir að ferð lokinni. Ég ráðlegg öllum sem áhuga hafa fyrir náttúru Íslands að kíkja á heimasíðu Óbyggðaferða ehf og kynna sér það sem þeir félagar hafa uppá að bjóða.

En frá Óbyggðum til Hríseyjar en þar áttum ég og yngri dóttir mín frábæra helgi í afslöppun hjá tendaforeldrum mínum sem eiga í dag 40 ára brúðkaupsafmæli, frábær áfangi ekki satt og óska ég þeim innilega til hamingju.