fimmtudagur, 28. júní 2007

Á faraldsfæti

Nú á að bregða sér frá um helgina svo ég ákvað að setja hér nokkrar línur áður en ég legg af stað.
Ég las fréttina um hundinn Lúkas og verð nú bara að segja nokkur orð svona til að létta á mér fyrir svefninn. Hvað býr að baki slíkum verknaði spyr ég en veit jafnframt að enginn getur svalað forvitni minni enda væri sá hinn sami sjálfsagt nú þegar að vinna hörðum höndum að því að bæta heiminn og frelsa þá illu.
Það vill svo til að í heiminum er slatti af mannvonsku sem beinist að dauðum hlutum annars vegar og svo lifandi hinsvegar. Það er sárt þegar fólk missir veraldlega muni sem þeir hafa haft fyrir að eignast en mannvonska beinist því miður oftar en ekki að lifandi verum hvort sem um er að ræða menn eða dýr sem ekki er hægt að bæta.
Við heyrum regluleg fréttir utan úr heimi þar sem saklausir einstaklingar verða fyrir hrottalegum árásum, ofbeldi, þjóðarmorðum og níðingum af ýmsu tagi. Stundum held ég að maður sé að verða hálf tilfinningalaus, sökum daglegrar umfjöllunar í fjölmiðlum um hræðilega viðburði, þó svo tár eigi til að renna við áhorf á slíkar fregnir.
Hvað varðar ofbeldi á dýrum þá er ekki langt síðan sýndar voru myndir í Kompás þar sem maður er að berja á hesti og núna les maður um illa meðferð á hundi. Eitthvað hljóta einstaklingar sem framkvæma slíkan gjörning að eiga bágt og líða illa.
Umræðan á netinu hefur snúist upp í hótanir og margt verra sem mér þykir miður enda mikilvægt að fólk passi hvað það segir á þessum ágæta miðli því orð geta sært jafnt og laus höndin. Ég votta eiganda hundsins samúð og vona að gerendur í þessu máli fái makaleg málagjöld.
Nú hef ég létt á hjarta mínu og blessuð sé minning Lúkasar.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 25. júní 2007

Vindsperringur

Það var vindsperringur hér norðan heiða í dag sem var í sjálfu sér ágætt því þá gerði maður eitthvað af viti innan dyra. En burt séð frá húsverkum og öðrum verkjum :o) þá rakst ég á þessa skemmtilegu mynd á síðunni hennar Gunnlaugar frænku.
Það er skemmst að segja frá því að þegar ég sá þessa ,mjög svo skemmtilegu, mynd þá datt mér við hjónin í hug en við erum einmitt á leiðinni utan í júlí.

Búin að hlæja? þá skulum við víkja að öðru.

Það hefur verið lítil hreyfing í bókum á náttborðinu hjá mér en ég viðurkenni reyndar að vera löngu búin að lesa þær bækur sem hér hafa verið skráðar í langan tíma. Ég skellti ágætri bók á náttborðið nú á dögunum reflective teaching eftir Andrew Pollard í þeirri von að hausinn á mér taki við sér hvað varðar lokaritgerð í meistaranáminu, það má alltaf reyna ekki satt
Ég rakst á frétt um mosaeld sem rekja má til sígarettustubbs, sorglegt það. En þar sem hvergi má reykja (og ég dauðfeginn að vera hætt sökum þessa) gæti farið svo að slysum af þessu tagi fjölgi þar sem reykingafólk dvelur nú utandyra mestan hluta frítíma síns til að svala þörf sinni, eitthvað verður undan að láta, eða hvað?
En svona án gríns, drepið í sígarettunum á öruggum stað. Mér finnst alltaf leiðinlegt að sjá lítil, forvitin, börn tína upp sígarettustubba af götunni ojjjjjjj, og svo að lokum þá dettur mér laglína í hug
"af litlum neista verður oft mikið bál".

Þangað til næst
Kveðja Drífa

Komin niður af Kræðufelli

Vildi bara láta vita að ég er komin niður af Kræðufelli, heil á húfi :o) Skrapp bara í hraunið í bústaðinn á föstudaginn og lá þar í leti um helgina. Gönguferðin var dásamleg, hófst klukkan 21:00 og lauk um klukkan 02:00. Fór til Elfu þar sem einn ískaldur beið ísskápnum og að lokinni hreingerningu á líkama og sál fékk að halla mér þar til klukkan 06:15 en þá þurfti ég að haska mér í föt og koma mér út á sand til að taka ferjuna til vinnu. Stuttur svefn þessa nóttina en ég bætti það upp í hrauninu enda skítakuldi allan laugardaginn svo það var legið í leti, farið í kaffi til Höllu Gríms og fjölskyldu auk þess að renna í Mývatnssveit svona til að eyða deginum. En nú erum við fjölskyldan komin heim í heiðardalinn og segjum bara góða nótt.










Þangið til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 19. júní 2007

Bleikt skal það vera

Kvenréttindadagurinn er í dag en á þessum degi árið 1915 fengu konur kosningarétt, til hamingju með daginn konur. Sem betur fer hefur margt breyst í áranna rás en það er mikilvægt að minnast þessa atburða svo ungar konur líti ekki á það sem þær hafa sem sjálfsagðan hlut. EN nóg um konu þetta og konu hitt.

Dagurinn hófst með þoku en síðan létti til þegar leið á daginn. Að loknm vinnudegi arkaði ég út að Borgarbrík og truflaði á leiðinni kríur sem voru ekki svo mjög glaðar. Þær fylgdu mér áleiðis en þá tóku mávarnir við og eru þeir mun vinalegri að mínu mati. Það var náttúrlega dásamlegt að arka upp á eyju í þessu geggjaða veðri sem var komið seinni partinn.

Á leið minni hitti ég nokkra ferðamenn á stangli og brostu þeir út að eyrum sem er ekkert skrítið enda alltaf gaman að hitta mig. Hjón gáfu sig á tal við mig við Yggdrasil (listaverkið upp á eyju) og spurðu mig hvað þetta væri eiginlega, það liti út fyrir að hér hafi geimveruru verið á ferð. Ég stoppaði nú við og sagði þeim frá þessu ágæta verki og sagði það hafa vissan tilgang þó svo það líti ekkert svakalega vel út. Það er spurning að það verði sett skýring við þetta járnbrak svo fólk haldi ekki að það eigi á hættu að hitta geimverur bak við einhverja þúfuna.


Þangað til næst
Kveðja Drífa
Yggdrasil

Myndbrot

Alltaf dettur mér í hug að brasa eitthvað fram á nótt en nú var það að búa til myndasíðu. Það eru væntingar mínar í kjölfar þessa almbúms að ég verði duglegri að taka myndir þar sem ég hef verið mjög ódugleg við það undanfarið.
www.123.is/drifa_thorarins


Njótið vel
Þangað til næst
Kveðja Drífa.

mánudagur, 18. júní 2007

Þokuslæðingur

Þá er helgin liðin og vinnuvikan að hefjast. Hélt það ætti að vera sól og blíða í dag en það var þoka og blíða í staðinn sem var bara ágætt.

Fékk mér samt dásamlega kvöldgöngu, arkaði gönguleiðina, með kríur sveimandi yfir höfði mér. Ekki mjög skemmtilegt það en ég reyni að láta þær ekki stoppa mig í að ferðast um eyjuna og er að vinna í að ná úr mér þessari fuglafælni sem ég þjáist af. Ég reyni því að líta björtum augum á fugla sem garga og ógna mér með lágflugi :o) Er einhver jákvæðari en þetta í dag.

Ástæða þess að ég arkaði út í kvöld er leti mín að undanförnu og gönguferð sem er framundan en ég ætla að fara í gönguferð með Ferðafélagi Akureyrar á fimmtudagskvöldið (Sumarsólstöður á Kræðufelli) en það mun vera 711 metrar og ætla ég að haska mig upp og veitir því ekki af smá þjálfun áður.

Ég fékk þá flugu í hausinn að fara að arka um eyjar, dali, skóga og fjöll fyrir tveimur árum og reyni að gera eitthvað í því á hverju sumri. Það er ágætt að fara með Ferðafélgögum í slíkar göngur eins og til dæmis þegar ég gekk á Mælifell í Skagafirði því maður getur lent í ógöngum þegar maður fer á eigin vegum eins og við lentum í þegar við fórum Garðsárdalinn og yfir Gönguskarð en við tölum ekki meira um það :o) Við erum allavega hér í dag ekki satt.





Þangað til næst
Kveðja Drífa.





Garðsárdalur

sunnudagur, 17. júní 2007

Kvennahlaup, sól og sumar

Það ætlar að ganga illa hjá mér að skella inn línum hér reglulega en svona er lífið.

Í dag var blíða hér í Hrísey og því ekki leiðinlegt að skella sér í Kvennahlaupið en það voru ferskar konur sem létu sjá sig og sprettu úr spori svona um 3.5 km sem er bara gott. Það hefði verið skemmtilegra að sjá fleiri en það má segja að það hafi verið fámennt og góðmennt.

Á morgun eða réttara sagt í dag (12:08) er 17. júní og spurning hvað maður gerir í tilefni dagsins. Það verður víst engin hátíð hér í Hrísey, hef allavega ekki séð neitt auglýst því miður, svo maður skellir sér kannski í land til að fagna þessum ágæta degi.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Fór á Brekku á föstudagskvöldið þar sem leikklúbburinn Krafla hittist og slúttaði leiksýningunni með pizzum og sýningu á myndbandinu. Það var náttúrulega skelfing að sjá sig á sviðinu enda röddin í manni svo skemmtileg á svona myndbandi.

Nú er ég farin að huga að því að taka til í skápum og pakka niður, einn kassi á dag kemur skapinu í lag er mottóið hjá mér þessa dagana, enda gott að vera búin með sem mest áður en við förum á Spán í júli.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

sunnudagur, 3. júní 2007

Sjómannslíf sjómannslíf

Þá er júní genginn í garð og sjómanadagurinn liðinn. Það þótti fréttnæmt að ekki yrði haldið upp á sjómannadag á Akureyri en þeir hafa gleymt að við í Hrísey erum Akureyri því hér fór fram skemmtun á laugardeginum, kaffihlaðborð og stórdansleikur í Sæborg um kvöldið, skemmtilegt það. En já hér er blessuð blíðan svo húsmóðirin í Hafnarfirði getur farið að koma norður í land enda spáir sunnan átt næstu daga. Mér þótti leitt að hún kæmi ekki til að berja Frú Lovísu augum enda gæti þetta verið fyrstu skref hennar til frægðar í leikslistinni ha ha ha.













En hér er allt að gerast hægt og sígandi, er búin að ráða mig í vinnu og mun byrja í lok ágúst. Guðný er að fara til Danmerkur á morgun í skólaferðalag. Hún var að fá einkunnir úr samræmdu prófunum og gekk þrusu vel, klár eins og mamma sín :o)

En nú ætla ég að hætta þessu röfli og fara að halla mér, svona bráðlega

Þangað til næst
Kveðja Drífa