fimmtudagur, 27. desember 2007

Jólin koma, jólin fara

Nú er hversdagsleikinn tekinn við í um það bil tvo daga og þá fer maður aftur að huga að hátíðunum og að þessu sinni er það áramótahátíðin. Við erum búin að hafa það þokkalega gott yfir jólin, áttum ánægjulegar stundir í faðmi fjölskyldunnar, fengum góðan mat, gjafir, jólakort og kveðjur sem reyndar fækkaði verulega þetta árið, spurning að flytja oftar. VIð fórum í Hrísey á Jóladag og vegna þess hve ólæs við erum í fjölskyldunni fórum við á vitlausum tíma á sandinn en urðum heppin að fá far með Huldu Hrönn, M. Helgadóttur sem var að fara út í Hrísey eftir messuhald í Stærri Árskógkirkju, heppin við. Við fengum að sjálfsögðu hangiket hjá tengdó á jóladag og svo var farið snemma í háttinn. Reyndar var líka farið snemma á fætur eða um miðja nótt þar sem nýji fjölskyldumeðlimurinn (Katla) sem er hamstur vakti alla í Hólabraut 3 með hlaupum. Já það liggja ekki allir í leti yfir jólin ha ha. Ég mér göngu út að hliði í hádeginu á annan í jólum, dásamlegt veður, og ekki hægt annað en fara út og njóta þess. Við fórum svo í kaffi til Báru og Kidda og strax á jólaball að því loknu og svo strax í mat til tengdó áður en ferðinni var haldið heim á leið með ferjunni. Já við dóum ekki úr hungri í Hrísey heldur bættum við síðubitann sem þýddi fyrir mig, Ræktin, púff púff, það var erfiður jólatíminn í dag. En allavega þá er vinna á morgun og svo aftur frí, hvernig endar þetta allt saman.

Guðný las á pakkana
Spennan í hámarki. Katla, nýr fjölskyldumeðlimurSveinkar úr Dimmuborgum komu á jólaball í HríseyVel skreytt hjá ömmu og afa í Hrísey

Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 24. desember 2007

Gleðileg Jól

Jæja þá er jólahátíðin gengin í garð og sitjum við nú hjónin og horfum á tónleika á ríkissjónvarpinu eftir ánægjulega kvöldstund með kertaljós, góðan mat og drykk, jólakort og jólagjafir. Það var smá spenna í loftinu framan af kveldi (hjá yngsta fjölskyldumeðlimnum)og var gott þegar allir pakkarnir voru farnir undan okkar fína jólatré (svakalega stolt af lifandi jólatréinu okkar) og allir urðu rólegir á ný. Ég man nú sjálf eftir biðinni miklu þegar barnaefnið var búið og maður beið eftir að klukkan myndi slá sex. Síðan tók við biðin eftir að búið væri að borða og vaska upp (því ekki voru neinar vélar þá sem sinntu því hlutverki þá) og svo fékk maður loksins að taka upp pakkana púfffff svakalega erfitt.
En nú ætla ég að óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og vona að þið njótið hverrar mínúu í fríinu ykkar. Verið góð við hvort annað, kossar og knús.
Jólakveðja
Drífa, Ómar, Guðný og Eygló

föstudagur, 14. desember 2007

Jóla hvað?

Desember er genginn í garð og takk fyrir að minna mig á það HHH, ekki veitir af því að pikka í mig þar sem ég þarf að komast í jólaskap.
Það má segja að jólastressið sé að fara með landann, allavega ákveðinn kjarna, meðan aðrir hafa ekkert annað að gera en að pikka á tölvu (líkt og ég er að gera núna) og blogga um húðlit söngkonunnar Birgittu Haukdal, come on, hverjum er ekki sama hvort hún er of gul eða ekki.
Annars hef ég nú ekki mikið að segja hér á þessu ágæta kvöldi enda búin að vera að dúlla mér hér heima við að gera sem minnst, útbúa smá sætindi til að fara með í vinnu á morgun og leika jólasvein. Jólastressið hefur ekki látið á sér kræla hjá mér sem betur fer, enda borgar sig að vera í Félagi fyrirhyggjusamra húsmæðra, en verð fegin að losna við jólakortin og pakkana af borðinu sem senda á suður. Talandi um pakka þá hef ég gert tvær tilraunir til að skjótast í verslun í síðustu viku eftir tveimur gjöfum. Það hefur ekki gengið nógu vel þar sem ég fyllist óhug við að sjá bílastæðin og fæ nett sjokk þegar ég geng inn í verslanirnar. Fjöldinn allur af fólki flykkist milli rekka með haugana af mat, drykk, gjöfum og bara einhverju sem það finnur og stressið og örvæntingin skín úr andliti þeirra. Blessuð börnin standa á orginu sökum leiðinda og löngunnar í það sem verslanirnar hafa að bjóða, leikföng í miklu magni. Á meðan eru aðrir sem eru léttir á þessu og ganga um verslanirnar en fara nær tómhentir heim sökum þess að þeir ná ekki að fókusera í þessum látum. Ætla að gera eina tilraun annað kvöld til að ljúka þessu og vona að jóla-stress-fólkið verði heima að baka 20 sortir af smákökum svo jólin komi nú örugglega á réttum tíma hjá þeim. Já jólin geta verið erfið fyrir marga og margt sem þörf er að takast á við:
En frá allt öðru en jólum og nú skulum við tala um kjamma, já sæll.
Nú er þorrablótsundirbúningur hafinn og erum við hjónin að vinna að smá verkefni tengdu síðasta þorrablótinu í Sæborg í Hrísey sem verður laugardaginn 9. febrúar 2008 (miðapantanir og frekari upplýsingar nánar auglýstar síðar). Þetta mun verða eitt af síðustu embættisverkum okkar hjóna í Hrísey, að sitja í Þorrablótsnefnd, en eigum vonandi eftir að mæta galvösk á þorrablót í Hrísey um ókomna tíð.
Og núna, af því ég er búin að koma auglýsingunni að, er best ég fari í háttinn.
Þangað til næst og góða nótt
Kveðja Drífa