miðvikudagur, 31. desember 2008

Síðasta blogg ársins 2008

Ég ákvað nú að skrifa nokkrar línur í tilefni síðasta dags ársins en viðurkenni að ég hef ekki verið dugleg að halda þessari síðu við.
Ég vil byrja á að óska öllum gleðilegrar hátíðar og vonandi hafa allir notið jólanna á sinn hátt með sínu sniði. Árið hefur verið erfitt og margir hafa þurft að breyta töluvert lífsvenjum sínum sem var kannski gott að vissu leiti. Við þurfum að skoða viðhorf okkar og lífsgildi og haga okkur eins og fólk. Ég veit að flestir hafa lifað samkvæmt efnum, en við getum gert miklu betur. Við þurfum ekki allt það sem við höfum veitt okkur undanfarin ár, það má margt fara betur hvað það varðar.

Mótmælendur hafa sett svip á árið og unnið hörðum höndum að því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að láta skoðanir sínar í ljós og fella ríkisstjórnina. Ég veit ekki hvað skal segja um þá fellingu, hver á að taka við?? Varla þeir sem nú eru að eyðileggja tæki og tól stöðvar tvö og hyndra útsendingu Kryddsíldar, ekki vil ég það fólk í stjórn, það eitt er víst. Ég efast um hver er hæfur til að taka við eftir allt sem á undan er gengið. Nú er bara að sjá hvað nýtt ár ber í skauti sér fyrir okkur almúgann því við getum minnst gert í raun þó svo við getum látið í okkur heyra og vonast til að á okkur sé hlustað. Skemmdarverk er ekki rétta leiðin að mínu mati, aldrei, og boðar ekki gott.

Við fjölskyldan höfum haft það þokkalegt um jólin, borðað góðan mat og glatt aðra með gjöfum og þegið kveðjur og gjafir frá vinum og ættingjum. Fjölskyldan er að stækka sem er gleðilegt og vonandi gerist það á allra næstu dögum. Það eru því miklar breytingar í vændum hér í Vanabyggðinni sem vonandi verða til ánægju og yndisauka þrátt fyrir efnahagsástand og stöðu þjóðarinnar á heimsmarkaði. Lífið mun vonandi halda áfram sinn vanagang þar sem skólaganga, íþróttir, atvinna og eðilegt fjölskyldulíf getur gengið óhyndrað.

Nú er ég búin að bulla út í eitt og vil að lokum óska öllum gleðilegs nýss árs og vonandi verður sprengjum við slæmt ástand á brott og vöknum á morgun kát og hress til að takast á við komandi ár. Gangið hægt um gleðinnar dyr og eigið gott kvöld og komandi nýárs nótt.

Kveðja Drífa

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Latasti bloggari á veraldarvefnum?

Ætli ég sé ekki einn latasti bloggari sem tjáir sig á veraldarvefnum eða hvað? Reyndar eru margir latari en ég þó svo það réttlæti ekki leti mína, en hvað um það. Hér er allur snjór að verða farinn og græt ég það ekki. Það er mun auðveldara að ferðast um hér á Akureyri þegar ekki er snjór. Eina sem mér þykir miður er að þegar snjóa leysir þá verður dimmt. En við látum það ekki á okkur fá hér í Vanabyggðinni frekar en annað sem dynur yfir landann heldur kveikjum á kerti og kúrum okkur hér í kotinu.
Svona ykkur að segja þá ætlar hún Kristín Aðalsteinsdóttir að vera leiðsagnarkennarinn minn í meistaraprófsritgerinni og hittumst við einmitt í gær. Ég hef ákveðið viðfangsefni og nú er að leggjast yfir heimildir og rannsóknir sem snúa að viðfangsefninu. Þetta á svo allt eftir að skýrast þegar fram líða stundir, en ekki meira um það í bili enda allt á byrjunarstigi.

Nú er jólahátíðin að nálgast og ég farin að huga að undirbúningi enda gott að vera tímanlega á ferðinni hvað þetta varðar. Annars hef ég setið undanfarin kvöld og prjónað kjól á yngri dömuna og held ég að hann heppnist bara vel, virkilega smekklegur kjóll :o) svona ykkur að segja.

En ef ég horfi út fyrir fjölskylduna þá er ég að verða þokkalega bit á ástandinu sem ríkir í heimi fjármálanna hér á landi og spyr mig hvernig hægt er að ganga svo langt í svikum og prettum. Hvers vegna þarf öll þjóðin að blæða fyrir sukk ákveðinnar prósentu þjóðarinnar. Ég tók ekki þátt í kaupæði þjóðarinnar og ofurfjárfestingum hvorki hér á landi né erlendis. Hlutabréf hef ég aldrei átt og gamblaði því ekki með slíkt, ég á ekki jeppa né tvo bíla, ekki sumarhús á Íslandi né erlendis, ekki fellihýsi, tjaldvagn, húsbíl né gamalt skátatjald. Fataskápurinn minn er eins tómur og hann hefur verið alla mína ævi, þ.e. aðeins flíkur sem ég þarf á að halda hanga þar, flestar keyptar í Hagkaup og sokkarnir í Rúmfó. Það hanga ekki málverk á veggjunum, húsgögnin koma úr öllum áttum og þá helst úr Rúmfó eða frá öðrum heimilum sem hafa endurnýjað búslóðina. Stimplarnir í passanum mínum eru ekki fleiri en tveir á síðustu 6 árum en þeir voru ánægjulegir. Hvers eigum við að gjalda segi ég nú bara. Jú ég asnaðist til að kaupa mér hús með erlendum lánum og..... Já svona er lífið og við borgum bara þegjandi og hljóðalaust okkar himinháu reikninga með bros á vor :o)

Til hamingju Obama, hristu nú upp í liðinu.

Þangað til næst

Kveðja Drífa

mánudagur, 20. október 2008

Kuldaboli bankar á dyr..... brrr....

Já það má segja að vetur konunur hafi sent bola mjög snögglega til okkar, eða þannig. Maður er reyndar ofsalega hiss á hverju ári þegar fyrsti snjórinn fellur og hefur áhrif á færð. Annars finnst mér snjórinn fínn meðan ég þarf ekki mikið að vera á ferðinni akandi enda fer maður bara það nauðsynlegasta þessa dagana.

En frá snjó til ánægjulegra efnis. Ég ætla nú að geta þess hér að hann faðir minn átti afmæli þann 17. október og náð góðum aldri blessaður, Til hamingju með afmælið pabbi. Hún Lilja amma hefði orðið 87 ára sama dag en hún var svo lukkuleg að fá drenginn í afmælisgjöf á sínum tíma, ekki slæm gjöf þar á ferð.


Annars er lítið að gerast hér í Vanabyggðinni nema allir hressir og kátir eins og gengur og gerist. Brjálað að gera hjá Guðný og Aroni í skólanum en líka gaman að vera til. Ég sjálf bíð enn eftir að fá leiðsagnarkennara en það á víst að skýrast á næstu dögum. Hlakka til að fara að gera eitthvað af viti. Hef reyndar setið við prjónaskap að undanförnu og svo jólakortagerð sem er bara skemmtilegt. En nú ætla ég að fara að halla mér og segi bless

þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 7. október 2008

Þetta er nú ekki hægt lengur, þvílík leti. Ég hef ekki skrifað staf hér síðan í ágúst en það er ekki þar með sagt að ekkert sé í gangi í lífi okkar hér í Vanabyggðinni. Vinnan hófst eftir miðjan ágúst og skólarnir byrjuðu sem betur fer fljótlega á eftir, alltaf gott þegar allir eru á sama róli. Það hafa sem sagt allir hér verið á fullu við nám og störf, ekki veitir af að efla tekna og þjálfa hugann. Já tekjurnar duga skammt þessa dagana svo jákvæðni er eitthvað sem við hér á þessu heimili notum til að fleyta okkur áfram auk þess að láta okkur þykja vænt um hvort annað. En þar sem ég er búin að fá nóg af krepputali og lausnum sem að sjálfsögðu allir hafa í handraðanum læt ég fjármálaumræðu þjóðfélagsins liggja milli hluta.

Guðný er á kafi í skólanum og á vonandi eftir að plumma sig vel í vetur eins og hún hefur gert alla sína skólagöngu. Hún vinnur á Bautanum annað slagið og er farin að æfa Karate, já passið ykkur bara. Eygló er dugleg í skólanum og svo er brjálað að gera hjá henni í fimleikunum. Hún er komin í keppnishóp og fer líklegast til R. víkur í nóvember til að keppa ásamt hinum dömunum í I-2 en það mun vera hópurinn hennar. Ómar er enn í Byko og svo Vélsmiðjunni um helgar, ekki við drykkju og dans heldur við störf haha. Ég hef það bara gott þrátt fyrir aldur og fyrri störf. Vinnan í Kiðagili er mjög skemmtileg enda frábært starfsfólk og svo barnahópur hjá okkur eins og alltaf. Ég steig stór skref í síðustu viku aftur inn í Háskólann á Akureyri og hyggst LOKSINS hefja meistaraprófsskrif. Já óskið mér til hamingju. TIL HAMINGJU DRÍFA :o) Það verður erfitt að byrja en líka skemmtilegt enda hef ég þörf fyrir að hefja áframhaldandi hugarþjálfun. Ég hef semsagt lagt fram einhverskonar hugmynd að efni í ritgerðina svo nú er verið að skoða hver getur orðið leiðsagnarkennarinn minn og þá fer boltinn að rúlla, vonandi hratt.

Jæja það er best að hætta þessu þvaðri og hver veit nema ég kíkki hingað inn aftur fyrir jól.
  • Njótum þess að vera til eins og okkur er unnt
  • látum ekki áhyggjur af heimsmálum þjaka sálina því hún er mikilvægari en aurar
  • notum hvern dag til að gleðja einhvern sem okkur þykir vænt um án þess að það kosti peninga.

Og að lokum af því ég nefndi jólin þá líður senn að jólum og mikilvægt að muna að hugurinn er það sem skiptir máli



Gangi ykkur allt í haginn
þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 12. ágúst 2008

Blogg-leti

Nú er sumarfríið á enda hjá okkur hjónum og verður gott þegar allt er komið á rétt ról, skóli hjá dömunum og alles. Ég hef víst ekki bloggað síðan um verslunarmannahelgi en svona til að ljúka öllum skrifum um þá helgi þá var skemmtunin á Akureyrarvelli á sunnudagskvöldið frábær í alla staði og flugeldasýningin gat ekki verið betri. Skipuleggjendur eiga heiður skilið fyrir skemmtilega helgi og vonandi verður skipulag í þessa átt í framtíðinni.

Björg vinkona dvaldi hjá mér í síðustu viku ásamt fjölskyldu og var virkilega gaman að fá þau hingað norður. Við hittumst alltof sjaldan. Við fórum dagsferð í Mývatnssveit með nesti og nýja skó og fórum í göngu um Dimmuborgir sem er mjög fallegur staður. Stefni á að skella mér þangað aftur í desember með Eygló til að hitta sveinkana sem líklega verða þar á ferli.

Annars áttum við bara notalegar stundir auk þess að skella okkur á Dalvík föstudagskvöldið. Við fórum á súpukvöldið sem var mjög skemmtilegt og margt um manninn. Á laugardeginum fór Björg heim til Grindavíkur með allt sitt hafurtask og við skelltum okkur á Fiskidaginn til að sjá herlegheitin. Við smökkuðum eitthvað af fiski, kíktum á markaðinn og Eygló skellti sér á hestbak og svo var haldið heim á leið. Þetta var fyrsta heimsókn mín á fiskidaginn og skemmtilegt hve margir leggja leið sína þangað. Skemmtilega fjölbreyttir fiskréttir voru í boði í miklu magni og gos og íspinnar flæddu um svæðið. Ég vil óska Júlla til hamingju með daginn, hann á heiður skilið fyrir áhugaverða og skemmtilega hátíð. Eitt fannst mér þó með ólíkindum. Þrátt fyrir augljós ruslakör um alla bryggju og fjölda starfsmanna sem sá um að tæma þau þá rataði rusl gestanna ekki alltaf rétta leið og mátti sjá pappadiska, servéttur, gosglös og sælgætisbréf víð og dreif um bryggjuna. Er ekki málið að við Íslendingar förum að ganga betur um. Ég myndi ekki nenna að bjóða fólki til veislu ef það henti leirtauinu og matarafgöngum á gólfið að lokinni veislu og færi svo heim án þess varla að þakka fyrir sig. Að lokum. Takk Dalvíkingar fyrir góðar móttökur og skemmtilega hátíð.

En nú er alvaran tekin við eftir gott sumar hér norðan heiða, sól og ferðalög um nærsveitir.
Hver veit nema ég sýni dugnað og setji myndir inn á næstu dögum

Þangað til næst

Kveðja Drífa

sunnudagur, 3. ágúst 2008

Verslunarmannahelgin

Frá því ég bloggaði síðast höfum við fjölskyldan haft það gott í sólinni og hitanum og notið þess að vera til þó svo Guðný eyði mestum tíma á Bautanum í vinnu. Ég og Elfa vinkona skelltum okkur í fjallgöngu í vikunni og gengum á súlur. Við gátum ekki fengið betra veður og ekki hægt að fá betra útsýni þó svo hitinn hafi reyndar verið að stríða okkur aðeins. Við komumst samt heilar heim, óbrenndar.

Ég, Ómar og Eygló skelltum okkur svo einn dag út í Hrísey og kíktum í nokkur hús :o) Við enduðum svo með að borða hjá tengdó áður en við yfirgáfum eyjuna og svo var farið beint til Þórunnar og Rúnars á sandinum í smá kaffisopa áður en haldið var heim á leið.

Vikan flaug áfram og áður en við vissum af var komin verslunarmannahelgi og Eygló varð 9 ára gömul þann 1. ágúst. Við héldum nú ekki upp á afmælið en áttum að sjálfsögðu nóg með kaffinu fyrir þá sem áttu leið hjá. Afmælið verður síðan þegar skólinn hefst í haust enda fáir heima á aðalferðatími ársins. Til hamingju með afmælið Eygló mín

Í gær skunduðum við í bæinn og fórum á tónleika í Akureyrarkirkju, mjög gaman og Eygló fór í Tívolí. Svo var haldið niður í bæ á kaffihús og kíkt á mannlífið. Í dag var vaknað snemma til að fara í lautarferð. Við fórum með nesti og nýja skó í listigarðinn og það sem hljómaði í eyru okkur þegar við gengum inn var lagið um hana Hríseyjar-Mörtu, þá vissum við að við vorum á réttum stað. Við áttum notalega stund í listigarðinum við undirspil hljómsveitarinnar Húsbændur og hjú, skemmtilegt band, í góðu veðri þrátt fyrir sólarleysi. Að loknum tónleikum fórum við á opnun listasýningar í Ketilhúsinu, skelltum okkur í að horfa á Jane Fonda leikfimi við Amtbókasafnið meðan börnin fóru í Tívolí. Svo var notið blíðunnar á Bláu könnunni með kaffi og með því og ekki var verra að sólin fór að skína. Kvöldið í kvöld var ekki síðra. Við fórum á skemmtun í miðbænum þar sem Páll Óskar, Hljómsveitin Von, Sigga og Bryndís Ásmunds og fleiri skemmtu gestum. Þess má geta að 80´s er þema hátíðarinnar og mátti sjá skemmtilegan klæðnað og tóku hárgreiðslustofur í bænum að sér að greiða gestum og gangandi.



Fréttamennska er oft dularfull en í kvöldfréttum á Stöð 2 í kvöld var fjallað um útihátíðir á borð við Þjóðhátið og svo Eina með öllu og allt undir. Í dalnum var talað við fjölskyldufólk í hvítu hústjaldi (nokkuð örugg frétt ár frá ári) og áhersla lögð á fjölskyldustemmu í fréttinni. Það var svo einkennilegt að sjá hvað fréttamönnum þótti fréttnæmast hér á Akureyri. Fréttamaður var á unglingatjaldstæðinu og talaði þar við unglinga undir áhrifum áfengis sem veifuðu bala fullum af öli og beruðu svo á sér bossan framan í myndavélina. Mikið vildi ég að fréttamaður hefði frekar skellt sér í listigarðinn með vélina eins og ég gerði eða í miðbæinn þar sem mikið var um skemmtilega viðburði og listafólk af ýmsum toga skemmti gestum. Fréttamenn á ruv gáfu þeir sér tíma til að mynda frábæra viðburði sem hér var að finna enda af nógu að taka og sýndu áhorfendum. EN, nóg um það.
Nú ligg ég eins og klessa við tölvuna og ætla fljótlega að fara að koma mér í bælið meðan Ómar er í vinnu á Vélsmiðjunni og Guðný og Aron eru að tjútta með Páli Óskari og Eygló sefur á sínu græna.
Þangað til næst
Kveðja Drífa (Set inn myndir síðar)

miðvikudagur, 30. júlí 2008

Sólin, hitinn og lognið er hér, hvernig spyr ég.

Það hefur ýmsilegt verið brallað síðan ég ritaði hér síðast enda gengur ekki að liggja í leti og gera ekki neitt. Við skelltum okkur á Hríseyjarhátíð (Sorry Gréta og Óli ef þið komuð við, ég verð vonandi heima næst) sem fór mjög rólega fram enda svosem ekki mikið um að vera. Þetta var samt sem áður ágætis helgi, afmæli hjá Kristínu vinkonu, rölt um svæðið og spjall við góða vini auk þess sem Eygló tók þátt í þeim keppnum sem í boði voru. Við kíktum jú á Fossinn til að hlusta á Jazzbandið, Ómar skellti sér í óvissuferð og þar sem lítið var fyrir unglingana þá fóru Guðný og Aron í miðnætur-dráttarvélaferð sér til gamans að loknum brekkusöng. En nóg um sjóferð þá. Eygló var í öðru sæti í söngvakeppni hátíðarinnar og hér má sjá mynd af vinningshöfunum. Brosa :o)








Að lokinni hátíð var haldið heim á leið og síðan ákveðið að skella sér í Ásbyrgi á miðvikudegi og vera fram á föstudagskvöld. Guðný kom reyndar ekki með þar sem hún var á leið til Fáskrúðsfjarðar til að taka þátt í Frönskum dögum. Við áttum skemmtilegar stundir í byrginu :o) í geggjuðu veðri með skemmtilegu fólki. Begga, Svenni og börn voru stödd þarna og Elfa, Harpa og Alexander komu í dagsferð enda geta ekki án okkar verið. Á miðvikudagskvöldið fórum við inn í botn með dömurnar og áttum þar notalega stund í geggjuðu veðri.










Við konurnar skelltum okkur í göngu á fimmtudeginum og var gengið á Eyjuna í Ásbyrgi sem var nú reyndar styttri ganga en áætlað var en ágætis hreyfing fyrir grillveisluna. Karlpeningurinn gekk á golfvellinum sér til heilsubótar. Á föstudeginum fórum við ásamt Svenna, Beggu og dömunum að Dettifossi og síðan í hljóðakletta og voru það þreyttir ferðalangar sem lentu á Akureyri um miðnætti á föstudagskvöld eftir stutta viðkomu á Mærudögum á Húsavík. Helginni eyddum við síðan hér heima enda gott að komast í bælið sitt eftir útilegur og útiveru.



Skemmtileg mynd af Eygló við Dettifoss


Þangað til næst

Kveðja Drífa

miðvikudagur, 16. júlí 2008

Hvar er sólin, lognið og hitinn???

Vika tvö í sumarfríi hafin og eitthvað ætlar góða veðrið að láta standa á sér. Við skelltum okkur samt sem áður í útilegu um síðustu helgi en flúðum sökum rigningar eða réttara sagt lélegs tjalds (úr rúmfatalagernum) þvílíkt drasl. Tjaldinu ver tjaldað einu sinni í fyrra (í sól sem betur fer) en nú rigndi og þá var sagan öll. Sem sagt, Kaupið EKKI tjald í RL vöruhúsi ef þið hafið hugsað ykkur að ferðast um önnur lönd en Afríku þ.e. þar sem líkur eru á rigningu. En allavega fórum við í bústaðinn hjá tengdó að lokinni einnar nætur útilegu og sváfum vel þar í hlýjunni.



Við komum heim á sunnudeginum og þá biðu mamma og pabbi eftir okkur í Vanabyggðinni, gaman að hitta þau loksins. Guðný mín átti 17. ára afmæli þann dag og hefur nú fengið réttindi til að aka bifreið, til hamingju með afmælið elsku Guðný og til hamingju með bílprófið. Ómar á svo 35. ára afmæli á morgun eða í dag þar sem klukkan er komin langt yfir miðnætti, knús og kossar.


Í kvöld fórum við stórfjölskyldna í bíó og sáum Mamma mía. Ég fór á Mamma mía söngleikinná Broadway í New York fyrir tveimur árum sem var mjög skemmtilegt enda frábær lög sem maður getur ekki annað en raulað með. En snúum okkur aftur að myndinni. Þetta er fínasta mynd en ég gat ekki annað en skellt uppúr þegar Meryl Streep hóf upp raust sína og fékk hláturskast þegar hinn eini sanni James Bond eða Pierce Brosnan tók sig til og söng ástaróð, come on, þetta var nett hallærislegt, svona í alvöru, hugsið það aðeins. Þrátt fyrir ágæti myndarinnar og skoplega sjón þá held ég að hægt hafi verið að finna mun betri söng- og leikara í þessi hlutverk og þar með gera myndina mun skemmtilegri en ella.

Ætli við skellum okkur ekki út í Hrísey eitthvað um næstu helgi. Kristín vinkona á 40 ára afmæli á föstudag, stór áfangi og svo er hin árlega hátíð í eyjunni sem maður kíkir eitthvað á.


En ætli það sé ekki best að hætta þessu rugli og skella sér í bælið og halda áfram að lesa "Á ég að gæta systur minnar" ,reyna svo að ná góðum svefni og vakna hress, segjum fyrir 10.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

laugardagur, 5. júlí 2008

Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið :o)

Að undanförnu hef ég bara verið í rólegheitum hér í kotinu og notið þess að slappa af milli þess sem ég vann og svaf. Nú er ég komin í sumarfrí og ætla að njóta þess eins og mögulegt er. Lilja sys og co hafa verið hér með annan fótinn frá því á þriðjudag og hinn fótinn á tjaldstæðinu með hinum Vestmanneyjingunum. Hafsteinn var að keppa á N1 mótinu hér á Akureyri og kíkti ég á þrjá leiki hjá stráknum auk þess að rölta um svæðið. Ég verð nú að segja að sumir ættu bara að sitja heima í stað þess að mæta á slíkar samkomur. Ég hlustaði á þjálfara, foreldra og leikmenn missa sig í æsingnum, blóta og jafnvel segja öðrum að halda kjafti eða þeir væru fatlaðir.
Ég held við ættum að einbeita okkur að því að ala upp kurteis börn og gera þeim grein fyrir hvað býr að baka þeim fúkyrðum sem þau nota um hvert annað, það er nefnilega sárt að vera kallaður fatlaður þegar maður á bróður sem er með fötlun, skiljanlega. En jæja, svona að lokum þá getum við glaðst yfir að ÍBV fékk verðlaun fyrir bestu frammistöðuna á mótinu, þ.e. heildarframmistöðu liðanna.


Við höfum lítið planað hvað við gerum í fríinu en Ómar á eftir að vinna rúma viku áður en hann fer í frí. Við ætlum reyndar að skella okkur í útlegu um næstu helgi ef allt gengur eftir og vonandi verða veðurguðirnir okkur hliðhollir. Ætli ég nýti ekki næstu viku til gönguferða og útiveru ef veður verður þolanlegt.

Annars að lokum

Þangað til næst

Kveðja Drífa

sunnudagur, 29. júní 2008

Júní á enda brrr og kuldi og trekkur

Nú er júnímánðuður að taka enda með rigningu og kulda, brrrrr. Það hefur verið lítið að gera nema vinna, borða, sofa og svo smá tiltekt við og við. Guðný er búin að taka bóklega bílprófið og náði en það vildi svo óheppilega til að keyrt var á hana sama daginn og lítur út fyrir að bíllinn sé ónýtur, já allt getur gersten sem betur fer vorum við í fullum rétti. Við erum semsagt með lítinn bílaleigubíl þar til búið er að meta bílinn okkar.
Nú er vika þar til ég fer í sumarfrí og hálfur mánuður þar til Ómar fer í frí, :o) Það verður gott að komast í sumarfrí þó svo veðrið segi manni að það sé lítið sumar þessa dagana og betra að halda sig innan dyra. Við eigum von á Lilju systir frá Vestmannaeyjum og hannar föruneyti og verður gaman að hitta þau loksins. Hafsteinn er að fara að keppa svo maður verður eitthvað á vellinum á komandi viku. En svona til að gleðja ykkur þá setti ég inn myndir á myndasíðuna mína, loksins, en það eru myndir frá göngunni á Gjögurfjall og Látraströnd á dögunum. Endilaga kíkið á myndbrot.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 16. júní 2008

Það er að koma 17. júní

Það er naumast að tíminn flýgur áfram, ég hef ekki skrifað hér í rúman hálfan mánuð. En nóg hefur verið að gera hjá okkur og er það kannski ástæðan fyrir bloggleysinu. Laugardaginn 7. júní skelltum við Eygló okkur út í Hrísey til ömmu og afa í kaffi og til að taka þátt í kvennahlaupinu. Sunnudaginn 8 júní fórum við svo aftur út í Hrísey því verið var að opna nýja íþróttahúsið. Húsið er stórglæsilegt og geta eyjaskeggjar ekki kvartað yfir plássleysi til íþróttaiðkunar, allir í ræktina :o). Einhverjir eiga þó sjálfsagt eftir að sakna Sæborgar enda átt margar góðar stundir þar um ævina.
Síðan leið vikan og var þá nóg að gera hjá öllum fjölskyldumeðlimum í vinnu meðan yngsti meðlimurinn stundaði fimleika af fullum krafti.
Um helgina skellti ég mér í gönguferð með Ferðafélagi Akureyrar. Þetta var tveggja daga ferð, siglt að látrum og komið sér fyrir í skálanum. Að því loknu var gengið að og upp Uxaskarð og svo gengið á Gjögurfjall þar sem við fengum geggja útsýni þó svo þokubakki hafi aðeins truflað útsýnið. Þegar allir höfðu fengið nægju sína af fjallasýn var haldið til baka í skálann og tók þessi ganga um 6 klukkustundir. Um kvöldið var kvöldvaka þar sem Gunnar Halldórs stjórnaði fjöldasöng og fólk reitti af sér brandara. Reyndar var þreyta að hrjá þennan 15 manna hóp og voru allir komnir í koju klukkan 22:00. Á degi tvö var vaknað klukkan 08:00, borðaður morgunverður og svo pakkað niður fyrir heimferðina. Haldið var að stað klukkan 09:15 og gengin látraströndin endilöng til Grenivíkur og tók sú ganga um 9 tíma, reyndar með þó nokkrum stoppum til að nærast og skoða útsýnið. Ferðin var frábær enda dásamlegt útsýni og skemmtilegur hópur sem þarna var á ferð. Það var þreyttur hópur sem lenti á Grenivík klukkan 18:00 og má segja að Grenivík hafi sjaldan verið eins fögur og þennan dag þegar við drösluðumst síðustu kílómetrana, en þetta mun hafa verið um 21 kílómetri sem arkaður var. Nú er 17 júní á morgun og ætla ég að taka það rólega í Hrísey og hlaða batteríin fyrir komandi vinnuviku.











Set inn fleiri myndir síðar
Þangað til næst
Kveðja Drífa

sunnudagur, 1. júní 2008

Sjómannahelgin

Skelltum okkur út í Hrísey í dag og fórum með stórfjölskyldunni á glæsilegt kaffihlaðborð í Sæborg. Gaman að sjá hve vel er mætt því svo virðist sem á mörgum stöðum sé sjómannahelgin orðin hálf ómerkileg sökum lítillar þátttöku og áhugaleysis. Það skiptir víst máli að sjómennskan er á undanhaldi víða og á í vök að verjast. En þó Ómar sé hættur á sjónum finnst mér mikilvægt að haldið sé uppi heiðri sjómanna þessa helgi og er það sjálfsagt eitthvað tengt uppvexti mínum því pabbi var á sjónum alla mína barnæsku og mun lengur en það.


Guðný og Aron komu með okkur og Guðný mín keyrði út á sand og til baka enda mikilvægt að hún æfi sig áður en stóra stundin rennur upp, bílprófið. Hún fór líka rúnt á dráttarvélinni með afa sinn sér innan handar og leiddist það ekki. Eygló fór út í eyju á föstudagskvöldið til að missa ekki af siglingunni á laugardagsmorgunin en svo virðist sem hún hafi orðið hálf veik, allavega varð hún frekar slöpp eftir sjóferð þá. Það stoppaði hana samt ekki í að verða eftir í Hrísey til að passa frænda sinn, hann Ólaf Þorstein. Þau Ella og Árni voru í eyjunni og var gaman að hitta þau hjónakornin enda gerist það sjaldan.
Hér sit ég ein og rita þessi orð meðan Ómar er að vinna á Vélsmiðjunni og Guðný og Aron eru niðri að læra fyrir prófin sem eru í næstu viku. Ég hef verið að þvælast í tölvunni, hlusta á tónlist og lesa fréttir og leiðist það ekki. Gott að vera stundum einn með sjálfum sér og gera sama og ekki neitt. Ég rakst á skemmtilegt myndband með einum af mínum uppáhalds tónlistarmönnum:

http://www.youtube.com/watch?v=b_eUnxDE8YY&feature=related

Þangað til næst og gleðilega hátíð sjómenn og fjölskyldur þeirra
Kveðja Drífa

föstudagur, 30. maí 2008

Skjálftinn í beinni

Það getur allt gerst í beinni

http://youtube.com/watch?v=QvsIfm-37mc


Þangað til næst
Kveðja Drífa

fimmtudagur, 29. maí 2008

Skelfur jörð

Það má segja að jörðin leiki á reiðiskjálfi. Fékk fregnirnar eftir vinnu og brá heldur betur í brún. Fæ nettan hroll við slíkar fregnir þó svo ég geti engan veginn sett mig í spor þeirra sem lenda í slíkum hremmingum enda aldrei lent sjálf í jarðskjálfta. Mömmu datt að sjálfsögðu eldgos í hug (sökum fyrri reynslu) þegar hún fann drunur og skjálfta undir fótum sér inni í húsinu og fékk nettan hroll. Ljósakrónurnar dönsuðu í loftinu og hún fann hvernig hún missti allt jafnvægisskyn og varð hálf flökurt í kjölfarið. Það er mesta mildi að enginn hefur slasast í þessum stóra skjálfta. Fékk loksins fregnir af Valgerði vinkonu og hennar fjölskyldu og þau eru sem betur fer öll heil á húfi þó svo sálartetrið sé ekki upp á sitt besta, skiljanlega, og eignir séu í misjöfnu ásigkomulagi. Ég vona að þetta sé búið en grunar að það taki það fólk sem lenti í þessu langan tíma að jafna sig og treysta umhverfi sínu. Ómar fann skjálftann í Byko, hér á Akureyri, sem segir til um hve sterkur hann var. En eins og alltaf þá standa Íslendingar saman í blíðu og enn frekar í stríðu svo þetta mun vonandi allt fara á besta veg.
Af okkur er lítið annað að frétta nema vinna og sofa. Eygló er að ljúka skólanum á morgun og Guðný er á kafi í próflestri en hún á eina viku eftir og þá hefst sumarvinna á Bautanum. Eygló verður í fimleikum í sumar og svo á námskeið hjá Amtbókasafninu svo það verður nóg að gera hjá öllum í sumar.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

mánudagur, 12. maí 2008

Helgin á enda...

Nú er þessi langa helgi að taka enda og ég verð að segja að mér þótti hún lítið lengri en aðrar helgar :o) enda flýgur tíminn áfram. Helgin var samt sem áður ánægjuleg:

Við ákváðum að vera heima hjá okkur á laugardaginn, aldrei þessu vant, þó svo Kaffihúsakórinn frá Vestmannaeyjum væri út í Hrísey með tónleika í Sæborg og Brekka væri auglýst opin fram á nótt :o) Við skelltum okkur aftur á móti út í eyju á sunnudeginum og sáum þá vegsummerki, á fólki, um næturopnun Brekku og vorum dauðfegin að hafa verið heima hjá okkur kvöldinu áður. Ég og Eygló fórum í húsvitjanir meðan Ómar fór á Brekku að horfa á einhvern mjög mikilvægan leik, ekki spyrja mig hvaða, og svo enduðum við hjá tengdó í grillveislu. Við vorum svo heppin að hitta Árna og Ólaf, litla, Þorstein en Ella var fjarri góðu gamni, á flækingu erlendis.

Í dag byrjuðum við á garðyrkjustörfum en að þeim loknum fórum við á Laugar til að heimsækja Höllu og fjölskyldu en það var orðið MJÖG langt síðan síðast. Kristján og nafni hans komu og svo Gauti, Rúna og Alída líka svo það var fjör í sveitinni.
Eygló og Alída voru í fimleikum úti á lóð og svo var Eygló svo heppin að fá að prófa fjórhjólið hennar Alídu. Henni þótti ekki leiðinlegt að þeysast um og náði bara nokkuð góðum tökum á þessu













Hér er daman á hjólinu !













Alída flott í gallanum sínum, vel varin!


Smá vídeo af Eygló á Hjólinu

Þangað til næst
Kveðja Drífa



laugardagur, 10. maí 2008

Langt síðan síðast

Það er langt síðan ég hef sest við skriftir en hér verður bætt úr því með smá samsulli um allt og ekkert. Hvaða áhyggjur hefur fólk af veðrinu hér norðan heiða, hér er blíða eins og alltaf :o)
Fengum reyndar smá sýnishorn af snjókomu í gær en nú er það allt bráðnað í blíðunni þó einhver snjókorn hafi fest rætur í fjallshlíðum hér í kring. Las reyndar um ófærð einhversstaðar á heiðum, en við fjölskyldan erum ekkert að þvælast þar.

Frá því ég skrifaði síðast hefur mín yndislega stóra-systir náð ákveðnum áfanga í lífi sínu þ.e. hún varð fertug þann 27 apríl þessi elska, Til hamingju með áfangann elsku Lilja. Það segir mér að nú séu fimm ár þar til ég næ þeim áfanga, úps.
Við hjónkornin skelltum okkur í óvissuferð um síðustu helgi með starfsfélögum Ómars í Byko. Það var bara stuð, fórum á skotsvæðið og þar var keppni í skotfimi. Fórum síðan og skoðuðum og smökkuðum Víking, pizzuveisla á Kaffi Akureyri og svo farið í sjóstöng á Dalvík. Hörkuprógram sem endaði á Vélsmiðjunni þar sem Spútnik spilaði fyrir dansi. Ég fékk reyndar ekki fisk og gat þar með ekki endurtekið og sannað hæfni mína í veiðimennsku.
Eygló hélt hér náttfatapartý í gærkveldi og bauð 14 bekkjarsystrum sínum heim. Við bökuðum pizzur í dömurnar og svo fengu þær popp og gos. Það var mikið húllumhæ hér á bæ en gaman að fá þær í heimsókn og kynnast þeim aðeins betur.
Ómar var að vinna í dag og á meðan tók ég mig upp og þreif húsið hátt og lágt. Við höfum ekki ákveðið hvort við ætlum að nýta þess helgi til heimsókna til nærsveita en hver veit nema við skellum okkur út í Hrísey eða jafnvel rennum á Laugar og heimsækjum sjaldséða hrafna.
Þangað til næst
Kveðja Drífa
ps. Ella ! Hafðu það gott á erlendri grundu og sjáumst vonanadi í bráð

laugardagur, 19. apríl 2008

Hjá öllum vakir þráin að birta öðrum hug sinn.....

Skellti mér á ráðstefnu sem Háskólinn á Akureyri stóð fyrir í dag "Hjá öllum vakir þráin að birta öðrum hug sinn". Fyrirlesarar voru áhugaverðir og eins og heiti ráðstefnunnar gefur til kynna var gert grein fyrir mikilvægi góðra samskipta og tækifæra til tjáningar. Fjallað var um hvernig skólinn getur nýtt samræðuna til aukins náms og betra samfélags og hvaða ávinningur felst í slíkum áherslum.
Málstofurnar voru mismunandi og margar hverjar áhugaverður. Ég sótti málstofu sem fjallaði um hvernig leikskóli á Akranesi fléttar saman tónlistarkennslu og heimspeki. Sigurður Björnsson lektor við KHÍ átti að sjá um málstofuna en forfallaðist sem mér fannst miður en þær stöllur sem sáu um kynninguna stóðu sig ágætlega. Seinni málstofan sem ég sótti var áhugaverð og var það Elín Sigurbjörg Jónsdóttir sem sá um hana. Hún byggði erindi sitt á kenningum Vygotsky um félagsleg samskipti í kennslu barna með frávik í þroska og kom með skemmtilega sýn á hvernig við getum horft til náms nemenda með frávik. Til hamingju með þetta Elín. Það er nefnilega viðhorf okkar sem kennum börnunum sem skiptir mestu máli. Það að vinna markvisst að því að finna hvað einstaklingurinn getur en ekki horfa stöðugt á frávikið eða það sem hann getur ekki. Byggjum á því sem hver og einn hefur að bera og eflum hann sem námsmann á eigin forsendum. Guð hvað þetta var vel orðað hjá mér :o)
En allavega, HA til hamingju með vel skipulagða og áhugaverða ráðstefnu.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Keiluferð

Skrapp í keilu með samstarfskonum mínum, mikið fjör hjá okkur. Ég myndi segja okkur nokkuð góðar og því til staðfestingar þá náðum við allar fellu, sumar fleiri en einni. Góður stelpur.

Annars heldur lífið áfram sinn vanagang. Í dag er ég 35 ára og 1 dags gömul og líður bara nokkuð vel. Veðrið spillir ekki fyrir en það hefur verið blíðviðri síðustu daga og spáin segir að svo verði áfram. Það er föstudagur á morgun sem segir mér að helgin nálgist. Ætla að fara á ráðstefnu í Háskólanum á laugardag en á sunnudag ætla ég að slaka á heima eða njóta blíðunnar sem Siggi stormur segir að verði áfram.

Var að kíkka á myndbandið við Eurovision lagið okkar, This is my life, og gat ekki annað en brosað út í annað. Ekki frá því að við vinkonurnar höfum leikið svipaðan leik og númerið í myndabandinu nema hvað það var vinsælt að nota pískara með álpappír til að gera þetta svolítið ekta :o)

Og svona að lokum af því ég hef ekkert að segja, stjörnuspáin í dag.
Hrútur: Heimsfriðurinn byrjar á heimilinu. Þú hefur sjaldan verið umburðarlyndari og átt næga ást að gefa. Þannig dýpkarðu samband þitt við ástvini þína og ókunnuga.

Spurning hvort saltsteinslampinn sem ég hef átt í einn sólarhring hefur þessi áhrif á mig og fjölskylduna, hver veit?
Þangað til næst
Kveðja Drífa


miðvikudagur, 16. apríl 2008

Árin líða .....

Náði stórum áfangi í dag þ.e. 35 ára afmælinu mínu, heppin ekki satt. Nú mun kerlan sem sagt vera hálf-fertug eða ætti ég að segja hálf-sjötug, spurning :o)
Þakkir til allra sem sendu mér kveðjur og gjafir í tilefni dagsins, knús og kossar. Það verður ekki leiðinlegt að fara í lúxusgreifynjunudd sem samstarfskonur mínar á Gleym-mér-ei gáfu mér
og leggjast til hvílu með saltsteinslampann sem tengdaforeldrar mínir færðu mér. Það er spurning hvort ég sé farin að líta eitthvað þreytulega út, en eftir þessa frábæru meðferðir mun ég líta út eins og greifynja og sofa eins og engill
Takk fyrir mig
Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Örsaga göngugarps :o)

Frábært veður þessa dagana og ekki annað í stöðunni en að njóta þess eins og unnt er. Eftir annasaman dag í vinnunni ákvað ég að fá mér hressingargöngu. Sólin skein, lækir runnu víða í hitanum og gaman að sjá hvað allt lifnar við. Ég sá í fyrstu eftir að hafa ekki tekið myndavélina með í ferðina en þegar á leið var ég fegin. Þrátt fyrir yndislegt veður þá varð ég fyrir truflun sökum þess sem komið hefur í ljós undan bráðnandi sköflunum. Draslið um allt kom mér svo á óvart og skemmdi í raun fyrir mér þennan annars yndislega göngutúr. Ég veit að ýmislegt fellur til eftir veturinn en ég hef ekki trú á að allt þetta drasl hafi fokið frá fólki. Nei ég tel meiri líkur á því að fólk hafi hreinlega hent draslinu á víðavangi. En.. ég vona að þeir hinir sömu verði jafn duglegir á hreinsunardaginn að tína upp ruslið eins og þeir hafa verið við að henda því. Það er skondið að segja frá því að ég var komin í hlutverk rannsakanda á leið minni. Fréttablöð, fernur, sælgætisbréf, sígarettur, sígarettupakkar, bjórdósir og kassar og fleira varð á vegi mínum. Ég undraðist að ekkert nytsamlegt hefði komið undan snjónum s.s fatnaður, leikföng eða jafnvel einhverjir aurar ( hefði verið fínt að rekast á þá ). Engir aurar urðu á vegi mínum en viti menn, undir lok göngu minnar var mér litið niður og hvað haldið þið? Jú þarna lá sokkur í öllu sínu veldi og er ég ekki frá því að hann hafi brosað til mín.


Svona getur skemmtiganga að kvöldlagi snúist upp í rusla-rannsóknarleiðangur.





Hættið að henda ruslinu á víðavangi

Þangað til næst
Kveðja Drífa




mánudagur, 14. apríl 2008

Í nógu að snúast

Mér var tjáð að apríl væri að verða hálfnaður og ég væri ekki að standi mig í því að blogga. Ég var að vonum mjög hissa hve langt var um liðið frá síðasta bloggi, nei ég segi svona. Málið er að það er alltaf eitthvað skemmtilegt um að vera hjá manni og spurning að maður gefi sér meiri tíma til að miðla þeirri reynslu, svo virðist sem einhverjir lesi þetta blaður í mér þó svo commentin séu fá.
Til að gera langa sögu stutta þá fór ég með mínum skemmtilegu fyrrum skólasystrum úr KHÍ í óbyggðaferð um þar síðustu helgi og áttum við yndislegar stundir í Hólaskógi. Það er reyndar skondið að segja frá því að í Hólaskógi er enginn skógur í um 20 km radíus frá skálanum en það á sínar skýringar sem er Heklugos sem ég mun ekki greina frá hér enda löngu fyrir mína tíð. Í þessari skemmtilegu ferð gistum við í frábærum skála sem hefur að geyma allar þær nauðsynjar sem óbyggðarlífið þarfnast nema mat, svefnpoka, klæði og drykkjarföng sem fer reyndar svolítið eftir smekk manna, íslenska vantnið er jú að finna þar efra. Markmiðið með ferðinni var að eiga góðar stundir saman með mat og drykk auk þess að fara í skipulagða fjórhjólaferð með Óbyggðaferðum ehf. Á laugardeginum var farið í 5 tíma ferð um óbyggðir Íslands sem var ekki leiðinlegt og ekki skemmdi afslöppun í saunaklefanum fyrir að ferð lokinni. Ég ráðlegg öllum sem áhuga hafa fyrir náttúru Íslands að kíkja á heimasíðu Óbyggðaferða ehf og kynna sér það sem þeir félagar hafa uppá að bjóða.

En frá Óbyggðum til Hríseyjar en þar áttum ég og yngri dóttir mín frábæra helgi í afslöppun hjá tendaforeldrum mínum sem eiga í dag 40 ára brúðkaupsafmæli, frábær áfangi ekki satt og óska ég þeim innilega til hamingju.



mánudagur, 24. mars 2008

Tíminn líður hratt á ..........

Var að skoða gamlar myndir og áttaði mig á hvað tíminn líður hrikalega hratt.
Hér er Guðný mín fyrir nær 17 árum og svo Eygló fyrir um 8 árum













Hér eru þær svo saman á spáni í fyrrasumar
Vá hvað þetta er skrítið og ég sem er alltaf eins :o)

Þangað til næst
Kveðja Drífa


sunnudagur, 23. mars 2008

Gleðilega páska

Páskafríið sem var að hefjast er nú senn á enda, skrítið ?

Hásæti er ekki annað en flosklæddur tréstóll var málsháttur okkar hjóna þetta árið.


Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 11. mars 2008

Er komin heim :o)

Takk fyrir síðast og gaman að sjá þig :o) Við hjónin erum semsagt komin heim frá R. vík og árshátíð Byko lukkaðist bara vel haha. Reyndar erum við búin að fara líka á árshátíð Akureyrarbæjar og má segja að hún hafi bara lukkast vel líka. Annars er ég lítt hrifin af samkomum sem innihalda yfir 1000 manns en ég var í góðra vina hópi sem bjargaði öllu.

Um helgina skellti ég mér á málþing um skóla og kirkju, mjög áhugavert. Það var forvitni sem dró mig í safnaðarheimilið og sé ég ekki eftir því. Bæði fyrirlesarar og svo umræðurnar á eftir voru mjög áhugaverðar. Umræðan sneri að mestu um það hvort eitthvað réttlæti að taka orðið "Kristilegt siðgæði" út úr námskránni og láta orðið "siðgæði" standa eitt og sér. Í fyrstu fannst mér þetta nú skipta litlu máli en það má segja að heilinn á mér hafi snúist í marga hringi og skoðanir mínar voru á flugi meðan á málþinginu stóð. Það má í raun segja að starfsemi skólanna breytist nú lítið við það að kippa "kristilegu" út úr námskránni en túlkun fagmanna á námskránni og jafnvel annarra sem það vilja gera getur breyst. Það þarf að vera á hreinu hvað kenna á börnunum og eftir hvaða stefnu skuli fara. Áhugaverðir punktar stóðu eftir í kollinum á mér sem sjálfsagt öllum er hollt að velta fyrir sér:

Hvað er siðgæði ef það er ekki kristilegt?
Er trúboð í skólum þó svo kristinfræðikennsla fari fram?
Hvað með söngva, þulur og sögur sem snúa að kristni (menningu okkar) ?
Er ekki lýðræði sprottið af kristni?
Þjóðin er meira og minna kristin þó svo það séu ekki allir í þjóðkirkjunni eða að brölta í kirkju.
Hvað eru manngildi? Túlka allir orðið manngildi eins?
Hvað merkir orðið umburðarlyndi?
Hvað finnst mér um lífsstefnuskóla?
Hvað með menningu sem snýr að trú, sögunni?









Já það er margt sem maður veltir fyrir sér eftir þetta ágæta málþing en nú höldum við áfram.
Dagarnir og mánuðirnir fljúga áfram og er maður í mestu vandræðum að fylgja þeim eftir. Það er samt kominn tími til að slaka á eftir allar þessar hátíðir og hefðir sem hafa dunið yfir okkur síðustu mánuði og var geggjað að slappa af síðustu helgi og gera sama og ekki neitt. Vera bara heima í faðmi fjölskyldunnar, skella sér á skauta og lesa góða bók. Þetta mun einnig verða verkefni næstu helgar, slappa af.
Frétti af frábærri síðu með hollustu uppskriftum af öllu mögulegu endilega kíkið á hana


Þangað til næst
Kveðja Drífa


fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Á ferð og flugi

Jæja nú er þorrablótið í Hrísey yfirstaðið og lukkaðist það, að mínu mati, bara nokkuð vel. Það er gaman að vinna að samkomum sem þessari og fjör meðan á henni stendur en það er líka gott þegar allt er búið. Held við höfum verið allveg einstaklega heppin með hvað allir í nefndinni náðu vel saman og unnu vel að því að gera kvöldið skemmtilegt. En svona að lokum, ef einhver á skemmtilegar myndir frá blótinu sem eru skýrar og góðar þætti okkur hjónakornunum vænt um ef þið senduð okkur þær. Ástæðan er mynddiskurinn sem við erum að klára að vinna og vantar okkur myndir frá skemmtiatriðunum.

Lífið heldur áfram og þá taka við ný verkefni. Það er nóg að gera í vinnunni hjá okkur Ómari og ekki síður að sinna þeim hátíðum og hefðum sem fylgja þessum vinnustöðum. Nú er árshátíð hjá Byko á laugardaginn og ætlum við skötuhjúin að slá tvær flugur í einu höggi og skella okkur suður á föstudagskvöldið og heimsækja HHH. Guðný verður að vinna í fjallinu og Eygló okkar ætlar að fara til ömmu og afa í Hrísey en það er síðasta heimsóknin í bili því þau hjónakornin eru á leið utan til að sleikja sólina, gott hjá þeim.
Smá pælingar hvað varðar valentínusardaginn en svona ykkur að segja þá héldum við hjónakornin ekki sérstaklega upp á hann. Við ákváðum að halda okkur við íslenskar hefðir og láta bóndadaginn og konudaginn duga. Við vorum samt ekkert leiðinleg hvort við annað, ekki misskilja mig, heldur vorum eins elskuleg hvort við annað og við jafnan erum:o)
En það getur verið erfitt að vera móðir :o) Kíkkið á þetta
Þangað til næst
Kveðja Drífa

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Nú er liðinn öskudagur.........

Blótið nálgast óðum og það er lítið að frétta hér úr Vanabyggðinni nema alltaf nóg að gera. Nú er vetrarfrí í grunnskólum á Akureyri en þar sem hún Eygló mín er svo heppin að eiga yndislega ömmu og afa hér í nágrenninu þá fór hún út í Hrísey með þeim seinnipartinn eftir skemmtilegan öskudag með frænku sinni, henni Bergþóru og mömmu hennar, öskudagsball í skólanum og fimleika. En svona fara vetrarfríin, börnin í fríi út og suður og mamma og pabbi að vinna. Spurning hverjum þessi frí eru ætluð og hvort annað skipulag væri æskilegra??? Held það mætti endurskoða þetta, hvað segið þið um það???




En hér er hún tengdamóður mín árið 1963 í leiksýningu í Hrísey. Spurning hvort Ella geti ekki fundið þennan kjól, hann er bara nokkuð smart, finnst ykkur ekki?




Hér er svo hún Halla Gríms. Ákvað að láta þessa skemmtilegu mynd fljóta með.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Öskudagur nálgast

Nú er bolludagur floginn fram hjá, sprengideginum að ljúka og öskudagur nálgsast óðfluga. Hrikalegt hvað tíminn flýgur áfram.






Hér erum við hjónin ásamt Hrannari fyrir rétt um ári síðan
Þangað til næst


Kveðja Drífa

fimmtudagur, 31. janúar 2008

Vetur konungur

Nú hefur vetur konungur látið á sér kræla hér norðan heiða enda þorrinn genginn í garð með öllu tilheyrandi. Við hjónin ætlum að skella okkur á blót á laugardagskvöldið með starfsfélögum Ómars og svo er auðvitað hið stór-skemmtilega þorrablót í Hrísey um næstu helgi. Miðarnir uppseldir og allir bíða spenntir, líka ég :o)










Ella er líka spennt :o) En Simmi verður fjarri góðu gamni.





Gummi mætir galvaskur en spurning hvort hann mæti í balldressinu eða komi í hefðbundunum klæðnaði

Þangað til næst
Kveðja Drífa

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Janúar senn á enda

Tíminn flýgur enda í nógu að snúast. Þorrablótsundirbúningurinn í fullum gangi og allir miðar að seljast upp sem er bara frábært. Þetta verður jú síðasta blótið í Sæborg, blessuninni, og gaman að geta verið þátttakandi í því. Annars er bara lítið að frétta af okkur í Vanabyggðinni, bara nóg að gera í vinnu, skóla, íþróttum og öllu sem fylgir daglegu lífi flestra. Við höfum eins og flestir fylgst með fréttunum undanfarna tvo sólarhringa þ.e. skrípaleik þeirra sem borgarbúar kusu yfir sig. En það er víst ekki hægt að vita fyrirfram hvað grípur fólk þegar völd eru annarsvegar, hver sem á í hlut. Ég er alllavega fegin að vera ekki þátttakandi í þessari hringavitleysu sem skapast hefur í kringum borgarstjórnina og vona að menn fari að taka sig saman í andlitinu og vinna að þeim málefnum sem skipta máli og sanna tilverurétt sinn í stjórnmálaheiminum.
Ákvað að skella myndum hér inn bara svona til að hita upp fyrir blótið, bara 2 vikur til stefnu



















Þangað til næst
Kveðja Drífa

fimmtudagur, 10. janúar 2008

Tíminn flýgur áfram......

Já tíminn flýgur enda í nógu að snúast. Börnin komin í leikskólann eftir jólafrí og starfið komið í fullan gír, gaman það. Það má segja að maður sé feginn að allt er komið í eðlilegt horf, ekki sofið fram að hádegi og vakað fram á rauðan morgun. Senn líður að þorrablóti og verður auglýsingum komið af stað um og yfir helgi. Víð hjónin höfum verið að vinna skemmtilegt verkefni í tengslum við það bæði í myndrænu formi og í formi leikþátta og höfum haft gaman af. Það verður gaman að hitta liðið í eyjunni og vona að þeim eigi eftir að þykja jafn gaman að hitta mig, að loknum skemmtiatriðum híhíhíhí.
En hvað þjóðmálin varðar þá er ótrúlegt hvað hægt er að leggja mikla orku og aura í gömul hús á laugarveginum á meðan barnafólk á höfuðborgarsvæðinu er að púsla saman dögunum hjá sér. Hver vika fer í að finna út hvernig fólkið getur stundað vinnu sína þar sem börnum þeirra er vísað heim úr leikskólunum sökum manneklu. Spurning að fara bara með börnin til ráðamanna í borginni og athuga hvort þeir hafi tíma aflögu til að brúa bilið hjá foreldrum. Nei allt sem snýr að dauðum hlutum virðist mikilvægara en við mannfólkið því miður. Það má segja að við kennarar í leikskólum á Akureyri séum í raun heppnir hvað þetta varðar, sem betur fer.
En að lokum er það spáin í dag:
Hrútur: Þú ætlast til að fólkið þitt standi sig jafn vel og þú. En fólk er ólíkt. Reyndu að taka fólki á þeirra eigin forsendum. Í kvöld kemurðu erfiðu verki frá sem bíður þín.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Árið er liðið i a........s.....

Var að velta fyrir mér þessu með áramótin. Ákváðum að vera heima þetta árið enda flutt á nýjan vettvang, unglingur á heimilinu og ákváðum því að dvelja heima í nýju húsi að þessu sinni. Fengum góða gesti í kvöld, Þórunni, Rúnar og hluta af börnum. Áttum góða stund með góðum mat, drykk og góðri stemmu. Eftir að búið var að skjóta upp því litla sem keypt var (miðað við nágranna í Norðurbyggð eitthvað) fór að blása og blés hann og blés næstum húsinu um koll ( já næstum eins og i ævintýrinu um grísina þrjá). Að sjálfsögðu heyrðum við í slatta af fólki en gestirnir ákváðu samt að ferðast til síns heima þegar líða tók að morgni hvort sem um var að kenna komandi hvassviðri eða því að hér voru heimakærir ferðalangar á ferð sem langaði að komast í ból Bjarna ha ha.
Hvað sem á gekk eða mun ganga var þetta notalegt kvöld með góðri stemmu og skemmdi ekki ágætis áramótaskaup fyrir kvöldinu og hlógum við dátt yfir bröndurum sem á léttan hátt vöktu okkur til umhugsunar um liðið ár.
Takk fyrir ánægjulegar stundir á liðnu ári og sjáumst hress á því næsta.
Þangað til næst
Kveðja Drífa
En hver er tilgangur þess að blogga og fá ekkert comment. Spurning að kíkja á málþing bloggara þegar færi gefst til, blogg, blogg, blogg bloggi áramótabloggi.
Gaggalagúúú