fimmtudagur, 29. maí 2008

Skelfur jörð

Það má segja að jörðin leiki á reiðiskjálfi. Fékk fregnirnar eftir vinnu og brá heldur betur í brún. Fæ nettan hroll við slíkar fregnir þó svo ég geti engan veginn sett mig í spor þeirra sem lenda í slíkum hremmingum enda aldrei lent sjálf í jarðskjálfta. Mömmu datt að sjálfsögðu eldgos í hug (sökum fyrri reynslu) þegar hún fann drunur og skjálfta undir fótum sér inni í húsinu og fékk nettan hroll. Ljósakrónurnar dönsuðu í loftinu og hún fann hvernig hún missti allt jafnvægisskyn og varð hálf flökurt í kjölfarið. Það er mesta mildi að enginn hefur slasast í þessum stóra skjálfta. Fékk loksins fregnir af Valgerði vinkonu og hennar fjölskyldu og þau eru sem betur fer öll heil á húfi þó svo sálartetrið sé ekki upp á sitt besta, skiljanlega, og eignir séu í misjöfnu ásigkomulagi. Ég vona að þetta sé búið en grunar að það taki það fólk sem lenti í þessu langan tíma að jafna sig og treysta umhverfi sínu. Ómar fann skjálftann í Byko, hér á Akureyri, sem segir til um hve sterkur hann var. En eins og alltaf þá standa Íslendingar saman í blíðu og enn frekar í stríðu svo þetta mun vonandi allt fara á besta veg.
Af okkur er lítið annað að frétta nema vinna og sofa. Eygló er að ljúka skólanum á morgun og Guðný er á kafi í próflestri en hún á eina viku eftir og þá hefst sumarvinna á Bautanum. Eygló verður í fimleikum í sumar og svo á námskeið hjá Amtbókasafninu svo það verður nóg að gera hjá öllum í sumar.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

Engin ummæli: