þriðjudagur, 12. ágúst 2008

Blogg-leti

Nú er sumarfríið á enda hjá okkur hjónum og verður gott þegar allt er komið á rétt ról, skóli hjá dömunum og alles. Ég hef víst ekki bloggað síðan um verslunarmannahelgi en svona til að ljúka öllum skrifum um þá helgi þá var skemmtunin á Akureyrarvelli á sunnudagskvöldið frábær í alla staði og flugeldasýningin gat ekki verið betri. Skipuleggjendur eiga heiður skilið fyrir skemmtilega helgi og vonandi verður skipulag í þessa átt í framtíðinni.

Björg vinkona dvaldi hjá mér í síðustu viku ásamt fjölskyldu og var virkilega gaman að fá þau hingað norður. Við hittumst alltof sjaldan. Við fórum dagsferð í Mývatnssveit með nesti og nýja skó og fórum í göngu um Dimmuborgir sem er mjög fallegur staður. Stefni á að skella mér þangað aftur í desember með Eygló til að hitta sveinkana sem líklega verða þar á ferli.

Annars áttum við bara notalegar stundir auk þess að skella okkur á Dalvík föstudagskvöldið. Við fórum á súpukvöldið sem var mjög skemmtilegt og margt um manninn. Á laugardeginum fór Björg heim til Grindavíkur með allt sitt hafurtask og við skelltum okkur á Fiskidaginn til að sjá herlegheitin. Við smökkuðum eitthvað af fiski, kíktum á markaðinn og Eygló skellti sér á hestbak og svo var haldið heim á leið. Þetta var fyrsta heimsókn mín á fiskidaginn og skemmtilegt hve margir leggja leið sína þangað. Skemmtilega fjölbreyttir fiskréttir voru í boði í miklu magni og gos og íspinnar flæddu um svæðið. Ég vil óska Júlla til hamingju með daginn, hann á heiður skilið fyrir áhugaverða og skemmtilega hátíð. Eitt fannst mér þó með ólíkindum. Þrátt fyrir augljós ruslakör um alla bryggju og fjölda starfsmanna sem sá um að tæma þau þá rataði rusl gestanna ekki alltaf rétta leið og mátti sjá pappadiska, servéttur, gosglös og sælgætisbréf víð og dreif um bryggjuna. Er ekki málið að við Íslendingar förum að ganga betur um. Ég myndi ekki nenna að bjóða fólki til veislu ef það henti leirtauinu og matarafgöngum á gólfið að lokinni veislu og færi svo heim án þess varla að þakka fyrir sig. Að lokum. Takk Dalvíkingar fyrir góðar móttökur og skemmtilega hátíð.

En nú er alvaran tekin við eftir gott sumar hér norðan heiða, sól og ferðalög um nærsveitir.
Hver veit nema ég sýni dugnað og setji myndir inn á næstu dögum

Þangað til næst

Kveðja Drífa

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ og takk fyrir síðast.
Vona að það hafi ekki verið mikið af leirtaui og matarafgöngum á gólfinu eftir okkur :o)
Takk kærlega fyrir höfðinglegar móttökur og frábæra samveru. Nú bíð ég bara eftir ykkur.
Bestu kveðjur Björg

Nafnlaus sagði...

Ekki málið að þið hafið ekki verið á Akureyri þegar við vorum þar síðast hittumst bara næst takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með.
Þangað til næst
kveðjur úr Hafnarfirði
Gréta

Nafnlaus sagði...

hver var að gagnryna mig gömlu konuna um að ég setti ekkert inn - Halló september er að verða búin og ekkert búið að blogga síðan eftir Fiskidaginn, er ekkert að gerast þarna hjá ykkur
kveðja úr sólinni í Boston þar sem HHH úr Hafnarfirði er þessa daga .....