Frábært veður þessa dagana og ekki annað í stöðunni en að njóta þess eins og unnt er. Eftir annasaman dag í vinnunni ákvað ég að fá mér hressingargöngu. Sólin skein, lækir runnu víða í hitanum og gaman að sjá hvað allt lifnar við. Ég sá í fyrstu eftir að hafa ekki tekið myndavélina með í ferðina en þegar á leið var ég fegin. Þrátt fyrir yndislegt veður þá varð ég fyrir truflun sökum þess sem komið hefur í ljós undan bráðnandi sköflunum. Draslið um allt kom mér svo á óvart og skemmdi í raun fyrir mér þennan annars yndislega göngutúr. Ég veit að ýmislegt fellur til eftir veturinn en ég hef ekki trú á að allt þetta drasl hafi fokið frá fólki. Nei ég tel meiri líkur á því að fólk hafi hreinlega hent draslinu á víðavangi. En.. ég vona að þeir hinir sömu verði jafn duglegir á hreinsunardaginn að tína upp ruslið eins og þeir hafa verið við að henda því. Það er skondið að segja frá því að ég var komin í hlutverk rannsakanda á leið minni. Fréttablöð, fernur, sælgætisbréf, sígarettur, sígarettupakkar, bjórdósir og kassar og fleira varð á vegi mínum. Ég undraðist að ekkert nytsamlegt hefði komið undan snjónum s.s fatnaður, leikföng eða jafnvel einhverjir aurar ( hefði verið fínt að rekast á þá ). Engir aurar urðu á vegi mínum en viti menn, undir lok göngu minnar var mér litið niður og hvað haldið þið? Jú þarna lá sokkur í öllu sínu veldi og er ég ekki frá því að hann hafi brosað til mín.
Svona getur skemmtiganga að kvöldlagi snúist upp í rusla-rannsóknarleiðangur.
Hættið að henda ruslinu á víðavangi
Þangað til næst
Kveðja Drífa
Engin ummæli:
Skrifa ummæli