fimmtudagur, 28. júní 2007

Á faraldsfæti

Nú á að bregða sér frá um helgina svo ég ákvað að setja hér nokkrar línur áður en ég legg af stað.
Ég las fréttina um hundinn Lúkas og verð nú bara að segja nokkur orð svona til að létta á mér fyrir svefninn. Hvað býr að baki slíkum verknaði spyr ég en veit jafnframt að enginn getur svalað forvitni minni enda væri sá hinn sami sjálfsagt nú þegar að vinna hörðum höndum að því að bæta heiminn og frelsa þá illu.
Það vill svo til að í heiminum er slatti af mannvonsku sem beinist að dauðum hlutum annars vegar og svo lifandi hinsvegar. Það er sárt þegar fólk missir veraldlega muni sem þeir hafa haft fyrir að eignast en mannvonska beinist því miður oftar en ekki að lifandi verum hvort sem um er að ræða menn eða dýr sem ekki er hægt að bæta.
Við heyrum regluleg fréttir utan úr heimi þar sem saklausir einstaklingar verða fyrir hrottalegum árásum, ofbeldi, þjóðarmorðum og níðingum af ýmsu tagi. Stundum held ég að maður sé að verða hálf tilfinningalaus, sökum daglegrar umfjöllunar í fjölmiðlum um hræðilega viðburði, þó svo tár eigi til að renna við áhorf á slíkar fregnir.
Hvað varðar ofbeldi á dýrum þá er ekki langt síðan sýndar voru myndir í Kompás þar sem maður er að berja á hesti og núna les maður um illa meðferð á hundi. Eitthvað hljóta einstaklingar sem framkvæma slíkan gjörning að eiga bágt og líða illa.
Umræðan á netinu hefur snúist upp í hótanir og margt verra sem mér þykir miður enda mikilvægt að fólk passi hvað það segir á þessum ágæta miðli því orð geta sært jafnt og laus höndin. Ég votta eiganda hundsins samúð og vona að gerendur í þessu máli fái makaleg málagjöld.
Nú hef ég létt á hjarta mínu og blessuð sé minning Lúkasar.
Þangað til næst
Kveðja Drífa

Engin ummæli: