þriðjudagur, 1. maí 2007

Rúntað um í blíðunni

Þetta var ágætist dagur í dag, gott veður, en ég eyddi honum í að þrífa :o) þarf víst að gera það líka. Restin af fjölskyldunni skellti sér á Akureyri og tók þar yngri dóttir þátt í 1. maí hlaupi og stóð sig með sóma og lenti í 4 sæti, frábært hjá henni. Að launum fékk hún pizzu, svala og verðlaunapening sem hún sýndi mér með stolti þegar hún kom heim. Sem betur fer komst hún í hlaupið því seint í gærkveldi uppgötvuðum við foreldrarnir of seint að 1. maí er "rauður dagur á dagatali" og panta þarf ferjuna fyrir klukkan 22:00 kvöldið áður ef maður ætlar í land klukkan 9:00. Þar sem við vorum of sein treystum við því að einhver hefði sýnt fyrirhyggju og pantað ferjuna en svo var ekki. Þar sem við höfðum lofað dótturinni að hún mætti taka þátt í hlaupinu voru góð ráð dýr og kom það því í hlut smábátasjómanns að ferja okkur í land og reyndar taka farþega til baka sem biðu á bryggjupollanum fyrir handan. Ég veit að 1. maí er frídagur en maður spyr sig hvort þetta þurfi að vera svona.
Við grilluðum gómsætan fisk í kvöld og buðum hjónunum og börnum úr Kelahúsi að snæða með okkur. Skrapp síðan á kröfluæfingu í klukkan 20:00 og var þar lesið yfir handritið sem er orðið bara nokkuð gott. Það er því skemmtilegur tími framundan en það var líka skemmtilegt á heimleiðinni að sjá allt þetta fólk á rúntinum í blíðunni hér í Hrísey. Já það er hægt að rúnta í Hrísey þótt ótrúlegt sé.
Þangað til næst
Kveðja Drífa.

Engin ummæli: