sunnudagur, 6. maí 2007

Nú skal tekið á því

Ég vaknaði í morgun og fyrsta hugsunin var að nú gengi þetta ekki lengur. Ég reif mig á lappir og fékk mér morgunmat, skellti mér svo í gönguskóna og gekk gönguleiðina á nokkuð góðum hraða. Að því loknu skellti ég grænmeti í pott sem hesthúsaði áður en ég ryksugaði og skúraði gólfið og fór svo í bað.

Ég settist stolt við tölvuna og hugsaði með mér að nú væri ég komin í gírinn og á næstu vikum yrði lifað eftir þessari formúlu: Hollt mataræði og hreyfing takk fyrir

Ég fór nú inn á netið til að fá nýjustu fréttir og fyrsta sem ég rakst á var Megrunarlausi dagurinn, nei reyndar eftir að ég las um páfagaukinn sem var bjargað undan hillusamstæðu á Akureyri. Það er gott að slökkvuliðið hefur eitthvað að gera.

Ég fékk vægt áfall og hugsaði með mér hvílík örlög þetta væru. Ég fór að sjálfsögðu inn á vef samtakanna eins og greinarhöfundur benti mér á og las:
Á þessum degi eru allir hvattir til þess að láta af viðleitni sinni til þess að grennast þó ekki væri nema í einn dag, og leyfa sér að upplifa fegurð og fjölbreytileika mismunandi líkamsvaxtar og sjá fyrir sér veröld þar sem megrun er ekki til, þar sem hvers kyns líkamsvöxtur getur verið tákn um hreysti og fegurð og mismunun vegna holdarfars þekkist ekki. http://www.likamsvirding.blogspot.com

Já hvers á ég að gjalda. Nú er spurning hvort ég leyfi mér að upplifa fegurð og fjölbreytilileika mismunandi líkamsvaxtar með því að líta í spegil eða reyni að líta á vakningu mína á jákvæðan hátt þ.e. ekki sé um megrun að ræða heldur viðleitni til að lifa hollustusömu líferni.

Þangað til næst
Kveðja Drífa


1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, þetta er erfitt líf. Takk fyrir grænmetið í hádeginu svolítið súrt að vita þetta ekki þá, við hefðum getað borðað djúpsteiktan fisk og franskar.
Áfram svo....
Linda