þriðjudagur, 10. júlí 2007

Göng eða ekki göng

Það vildi svo til að ég var að vafra um veraldarvefinn og datt inn á blogg nokkurra einstaklinga frá Vestmannaeyjum, mínum kæru. Það eina sem komst að í þessum bloggum var göng milli lands og eyja sem vakti mig til umhugsunar. Er það virkilega það sem fólk vill, að fá göng??

Ég bý á Eyju og líkar vel þó svo ég sé reyndar að fara að færa mig um set sökum þess að við töldum tímabært að sækja á önnur mið. Ég mundi ekki vilja sjá mig né aðra af fastalandinu fá sér rúnt út í Hrísey í tíma og ó-tíma enda vil ég ekki sjá alla þessa bíla hér sem hafa tvöfaldast ef ekki meira síðustu ár. Það eru bílar hér á ferðinni með þreytta eigendur innanborðs, á aldrinum 20-40 ára, en 60-80 ára ferðast um fótgangandi, eru greinilega orðnir nægilega þroskaðir.

Ég veit ég get ekki sett = merki milli Hríseyjar og Vestmannaeyja þar sem Sævar er aðeins 15 mínútur að koma manni milli staða meðan að Herjólfur gamli er 2 tíma og 45 mínútur að dóla þetta. En er fólk búið að hugsa málið hvað breytist við að fá göng. Það verður stuð á þjóðhátíð, pæjumóti, pollamóti, goslokahátíð og fleiri skemmtunum þegar bílalestin verður frosin í miðjum göngum sökum fjölda, eða hvað? Og hvað með gatnakerfið, er það tilbúið að takast á við þá bílaumferð sem mun skapast? Flutningabílar hlykkjast í göngunum, rútur með sjóveika ferðalanga sem loksins treysta sér til okkar fögru Vestmannaeyja svo eitthvað sé upptalið.

Nei þetta eru nú bara vangaveltur mínar um þessi göng því mér finnst Vestmannaeyjar, eins og Hrísey, eigi að halda í þá sérstöðu að vera Eyja. Margir Eyjaskeggjar fara svo margar ferðir á fastlandið að maður hugsar stundum hvers vegna það fólk flytur hreinlega ekki til byggða í stað þess að veltast þetta fram og til baka.

Nú er ég örugglega búin að gera einhverja kolvitlausa með þessum ó-ábyrgu skrifum mínum en ég held það vanti að fólk staldri aðeins við og hugsi hvað það vill í raun og veru lifa við. Er ekki kominn tími til að slaka á og njóta þess sem Eyjan hefur að bjóða (ef vilji er til að búa þar) í stað þess að sækja stíft á önnur mið. Ég man þá tíð sem maður fór með dallinum um helgar til að keppa í íþróttum en annars var maður bara heima hjá sér, fór mestalagi í sumarfrí út fyrir hafnargarðinn. Nú eru íþróttamótin svo mörg, tjaldvagnar á hverjum krók, utanlandsferðir á hverju strái sem veldur því að það eru ekki nægur tími til að sinna öllum hugðarefnum fjölskyldunnar svo allir séu sáttir.
Eru gerviþarfir farnar að spila of stórt hlutverk í lífi okkar.
Stöldrum við og njótum augnabliksins.

Þangað til næst (vonandi)
Kveðja Drífa

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvernig var þetta þetta með formann einhverra samtaka átti ég ekki að tala við hann um einhver göng eða eru þetta allt kommar eins og systa...........
heldur þú að hún fyrirgefi mér einhvern tíman
HHH í Hafnarfirði komin í rautt aftur eftir að hafa verið í hvítu í nokkra daga