Ég ákvað nú að skrifa nokkrar línur í tilefni síðasta dags ársins en viðurkenni að ég hef ekki verið dugleg að halda þessari síðu við.
Ég vil byrja á að óska öllum gleðilegrar hátíðar og vonandi hafa allir notið jólanna á sinn hátt með sínu sniði. Árið hefur verið erfitt og margir hafa þurft að breyta töluvert lífsvenjum sínum sem var kannski gott að vissu leiti. Við þurfum að skoða viðhorf okkar og lífsgildi og haga okkur eins og fólk. Ég veit að flestir hafa lifað samkvæmt efnum, en við getum gert miklu betur. Við þurfum ekki allt það sem við höfum veitt okkur undanfarin ár, það má margt fara betur hvað það varðar.
Mótmælendur hafa sett svip á árið og unnið hörðum höndum að því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að láta skoðanir sínar í ljós og fella ríkisstjórnina. Ég veit ekki hvað skal segja um þá fellingu, hver á að taka við?? Varla þeir sem nú eru að eyðileggja tæki og tól stöðvar tvö og hyndra útsendingu Kryddsíldar, ekki vil ég það fólk í stjórn, það eitt er víst. Ég efast um hver er hæfur til að taka við eftir allt sem á undan er gengið. Nú er bara að sjá hvað nýtt ár ber í skauti sér fyrir okkur almúgann því við getum minnst gert í raun þó svo við getum látið í okkur heyra og vonast til að á okkur sé hlustað. Skemmdarverk er ekki rétta leiðin að mínu mati, aldrei, og boðar ekki gott.
Við fjölskyldan höfum haft það þokkalegt um jólin, borðað góðan mat og glatt aðra með gjöfum og þegið kveðjur og gjafir frá vinum og ættingjum. Fjölskyldan er að stækka sem er gleðilegt og vonandi gerist það á allra næstu dögum. Það eru því miklar breytingar í vændum hér í Vanabyggðinni sem vonandi verða til ánægju og yndisauka þrátt fyrir efnahagsástand og stöðu þjóðarinnar á heimsmarkaði. Lífið mun vonandi halda áfram sinn vanagang þar sem skólaganga, íþróttir, atvinna og eðilegt fjölskyldulíf getur gengið óhyndrað.
Nú er ég búin að bulla út í eitt og vil að lokum óska öllum gleðilegs nýss árs og vonandi verður sprengjum við slæmt ástand á brott og vöknum á morgun kát og hress til að takast á við komandi ár. Gangið hægt um gleðinnar dyr og eigið gott kvöld og komandi nýárs nótt.
Kveðja Drífa