mánudagur, 20. október 2008

Kuldaboli bankar á dyr..... brrr....

Já það má segja að vetur konunur hafi sent bola mjög snögglega til okkar, eða þannig. Maður er reyndar ofsalega hiss á hverju ári þegar fyrsti snjórinn fellur og hefur áhrif á færð. Annars finnst mér snjórinn fínn meðan ég þarf ekki mikið að vera á ferðinni akandi enda fer maður bara það nauðsynlegasta þessa dagana.

En frá snjó til ánægjulegra efnis. Ég ætla nú að geta þess hér að hann faðir minn átti afmæli þann 17. október og náð góðum aldri blessaður, Til hamingju með afmælið pabbi. Hún Lilja amma hefði orðið 87 ára sama dag en hún var svo lukkuleg að fá drenginn í afmælisgjöf á sínum tíma, ekki slæm gjöf þar á ferð.


Annars er lítið að gerast hér í Vanabyggðinni nema allir hressir og kátir eins og gengur og gerist. Brjálað að gera hjá Guðný og Aroni í skólanum en líka gaman að vera til. Ég sjálf bíð enn eftir að fá leiðsagnarkennara en það á víst að skýrast á næstu dögum. Hlakka til að fara að gera eitthvað af viti. Hef reyndar setið við prjónaskap að undanförnu og svo jólakortagerð sem er bara skemmtilegt. En nú ætla ég að fara að halla mér og segi bless

þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 7. október 2008

Þetta er nú ekki hægt lengur, þvílík leti. Ég hef ekki skrifað staf hér síðan í ágúst en það er ekki þar með sagt að ekkert sé í gangi í lífi okkar hér í Vanabyggðinni. Vinnan hófst eftir miðjan ágúst og skólarnir byrjuðu sem betur fer fljótlega á eftir, alltaf gott þegar allir eru á sama róli. Það hafa sem sagt allir hér verið á fullu við nám og störf, ekki veitir af að efla tekna og þjálfa hugann. Já tekjurnar duga skammt þessa dagana svo jákvæðni er eitthvað sem við hér á þessu heimili notum til að fleyta okkur áfram auk þess að láta okkur þykja vænt um hvort annað. En þar sem ég er búin að fá nóg af krepputali og lausnum sem að sjálfsögðu allir hafa í handraðanum læt ég fjármálaumræðu þjóðfélagsins liggja milli hluta.

Guðný er á kafi í skólanum og á vonandi eftir að plumma sig vel í vetur eins og hún hefur gert alla sína skólagöngu. Hún vinnur á Bautanum annað slagið og er farin að æfa Karate, já passið ykkur bara. Eygló er dugleg í skólanum og svo er brjálað að gera hjá henni í fimleikunum. Hún er komin í keppnishóp og fer líklegast til R. víkur í nóvember til að keppa ásamt hinum dömunum í I-2 en það mun vera hópurinn hennar. Ómar er enn í Byko og svo Vélsmiðjunni um helgar, ekki við drykkju og dans heldur við störf haha. Ég hef það bara gott þrátt fyrir aldur og fyrri störf. Vinnan í Kiðagili er mjög skemmtileg enda frábært starfsfólk og svo barnahópur hjá okkur eins og alltaf. Ég steig stór skref í síðustu viku aftur inn í Háskólann á Akureyri og hyggst LOKSINS hefja meistaraprófsskrif. Já óskið mér til hamingju. TIL HAMINGJU DRÍFA :o) Það verður erfitt að byrja en líka skemmtilegt enda hef ég þörf fyrir að hefja áframhaldandi hugarþjálfun. Ég hef semsagt lagt fram einhverskonar hugmynd að efni í ritgerðina svo nú er verið að skoða hver getur orðið leiðsagnarkennarinn minn og þá fer boltinn að rúlla, vonandi hratt.

Jæja það er best að hætta þessu þvaðri og hver veit nema ég kíkki hingað inn aftur fyrir jól.
  • Njótum þess að vera til eins og okkur er unnt
  • látum ekki áhyggjur af heimsmálum þjaka sálina því hún er mikilvægari en aurar
  • notum hvern dag til að gleðja einhvern sem okkur þykir vænt um án þess að það kosti peninga.

Og að lokum af því ég nefndi jólin þá líður senn að jólum og mikilvægt að muna að hugurinn er það sem skiptir máli



Gangi ykkur allt í haginn
þangað til næst
Kveðja Drífa