miðvikudagur, 30. júlí 2008

Sólin, hitinn og lognið er hér, hvernig spyr ég.

Það hefur ýmsilegt verið brallað síðan ég ritaði hér síðast enda gengur ekki að liggja í leti og gera ekki neitt. Við skelltum okkur á Hríseyjarhátíð (Sorry Gréta og Óli ef þið komuð við, ég verð vonandi heima næst) sem fór mjög rólega fram enda svosem ekki mikið um að vera. Þetta var samt sem áður ágætis helgi, afmæli hjá Kristínu vinkonu, rölt um svæðið og spjall við góða vini auk þess sem Eygló tók þátt í þeim keppnum sem í boði voru. Við kíktum jú á Fossinn til að hlusta á Jazzbandið, Ómar skellti sér í óvissuferð og þar sem lítið var fyrir unglingana þá fóru Guðný og Aron í miðnætur-dráttarvélaferð sér til gamans að loknum brekkusöng. En nóg um sjóferð þá. Eygló var í öðru sæti í söngvakeppni hátíðarinnar og hér má sjá mynd af vinningshöfunum. Brosa :o)








Að lokinni hátíð var haldið heim á leið og síðan ákveðið að skella sér í Ásbyrgi á miðvikudegi og vera fram á föstudagskvöld. Guðný kom reyndar ekki með þar sem hún var á leið til Fáskrúðsfjarðar til að taka þátt í Frönskum dögum. Við áttum skemmtilegar stundir í byrginu :o) í geggjuðu veðri með skemmtilegu fólki. Begga, Svenni og börn voru stödd þarna og Elfa, Harpa og Alexander komu í dagsferð enda geta ekki án okkar verið. Á miðvikudagskvöldið fórum við inn í botn með dömurnar og áttum þar notalega stund í geggjuðu veðri.










Við konurnar skelltum okkur í göngu á fimmtudeginum og var gengið á Eyjuna í Ásbyrgi sem var nú reyndar styttri ganga en áætlað var en ágætis hreyfing fyrir grillveisluna. Karlpeningurinn gekk á golfvellinum sér til heilsubótar. Á föstudeginum fórum við ásamt Svenna, Beggu og dömunum að Dettifossi og síðan í hljóðakletta og voru það þreyttir ferðalangar sem lentu á Akureyri um miðnætti á föstudagskvöld eftir stutta viðkomu á Mærudögum á Húsavík. Helginni eyddum við síðan hér heima enda gott að komast í bælið sitt eftir útilegur og útiveru.



Skemmtileg mynd af Eygló við Dettifoss


Þangað til næst

Kveðja Drífa

miðvikudagur, 16. júlí 2008

Hvar er sólin, lognið og hitinn???

Vika tvö í sumarfríi hafin og eitthvað ætlar góða veðrið að láta standa á sér. Við skelltum okkur samt sem áður í útilegu um síðustu helgi en flúðum sökum rigningar eða réttara sagt lélegs tjalds (úr rúmfatalagernum) þvílíkt drasl. Tjaldinu ver tjaldað einu sinni í fyrra (í sól sem betur fer) en nú rigndi og þá var sagan öll. Sem sagt, Kaupið EKKI tjald í RL vöruhúsi ef þið hafið hugsað ykkur að ferðast um önnur lönd en Afríku þ.e. þar sem líkur eru á rigningu. En allavega fórum við í bústaðinn hjá tengdó að lokinni einnar nætur útilegu og sváfum vel þar í hlýjunni.



Við komum heim á sunnudeginum og þá biðu mamma og pabbi eftir okkur í Vanabyggðinni, gaman að hitta þau loksins. Guðný mín átti 17. ára afmæli þann dag og hefur nú fengið réttindi til að aka bifreið, til hamingju með afmælið elsku Guðný og til hamingju með bílprófið. Ómar á svo 35. ára afmæli á morgun eða í dag þar sem klukkan er komin langt yfir miðnætti, knús og kossar.


Í kvöld fórum við stórfjölskyldna í bíó og sáum Mamma mía. Ég fór á Mamma mía söngleikinná Broadway í New York fyrir tveimur árum sem var mjög skemmtilegt enda frábær lög sem maður getur ekki annað en raulað með. En snúum okkur aftur að myndinni. Þetta er fínasta mynd en ég gat ekki annað en skellt uppúr þegar Meryl Streep hóf upp raust sína og fékk hláturskast þegar hinn eini sanni James Bond eða Pierce Brosnan tók sig til og söng ástaróð, come on, þetta var nett hallærislegt, svona í alvöru, hugsið það aðeins. Þrátt fyrir ágæti myndarinnar og skoplega sjón þá held ég að hægt hafi verið að finna mun betri söng- og leikara í þessi hlutverk og þar með gera myndina mun skemmtilegri en ella.

Ætli við skellum okkur ekki út í Hrísey eitthvað um næstu helgi. Kristín vinkona á 40 ára afmæli á föstudag, stór áfangi og svo er hin árlega hátíð í eyjunni sem maður kíkir eitthvað á.


En ætli það sé ekki best að hætta þessu rugli og skella sér í bælið og halda áfram að lesa "Á ég að gæta systur minnar" ,reyna svo að ná góðum svefni og vakna hress, segjum fyrir 10.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

laugardagur, 5. júlí 2008

Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið :o)

Að undanförnu hef ég bara verið í rólegheitum hér í kotinu og notið þess að slappa af milli þess sem ég vann og svaf. Nú er ég komin í sumarfrí og ætla að njóta þess eins og mögulegt er. Lilja sys og co hafa verið hér með annan fótinn frá því á þriðjudag og hinn fótinn á tjaldstæðinu með hinum Vestmanneyjingunum. Hafsteinn var að keppa á N1 mótinu hér á Akureyri og kíkti ég á þrjá leiki hjá stráknum auk þess að rölta um svæðið. Ég verð nú að segja að sumir ættu bara að sitja heima í stað þess að mæta á slíkar samkomur. Ég hlustaði á þjálfara, foreldra og leikmenn missa sig í æsingnum, blóta og jafnvel segja öðrum að halda kjafti eða þeir væru fatlaðir.
Ég held við ættum að einbeita okkur að því að ala upp kurteis börn og gera þeim grein fyrir hvað býr að baka þeim fúkyrðum sem þau nota um hvert annað, það er nefnilega sárt að vera kallaður fatlaður þegar maður á bróður sem er með fötlun, skiljanlega. En jæja, svona að lokum þá getum við glaðst yfir að ÍBV fékk verðlaun fyrir bestu frammistöðuna á mótinu, þ.e. heildarframmistöðu liðanna.


Við höfum lítið planað hvað við gerum í fríinu en Ómar á eftir að vinna rúma viku áður en hann fer í frí. Við ætlum reyndar að skella okkur í útlegu um næstu helgi ef allt gengur eftir og vonandi verða veðurguðirnir okkur hliðhollir. Ætli ég nýti ekki næstu viku til gönguferða og útiveru ef veður verður þolanlegt.

Annars að lokum

Þangað til næst

Kveðja Drífa