miðvikudagur, 26. september 2007

Hvað er í gangi?

Ja hérna, það er langt síðan ég pikkaði inn einhverjar línur á þessa ágætu síðu. Hvað verldur? Hrikalega margt en stundum hefur maður bara ekkert að segja eða allavega vill ekki segja það hér á veraldarvefnum og hana nú.
Það hefur ýmislegt drifið á daga mína síðan síðast og má þá helst nefna óvissuferð með starfsfélögum mínum, matarboð með starfsfélögum Ómars og svo árgangsmót með mínum ágætu bekkjarfélögum frá Vestmannaeyjum. Það má segja að það hafi verið gaman að hitta allt þetta fólk sem maður ólst upp með og fyndið hvað allir eru í raun eins og þeir voru hér í denn, enginn breyst neitt mikið nema kannski nokkrum hárum færri á höfðinu eða nokkrum kílóum fleiri um mittað. En nóg um það.


Hér má sjá sigurvegarana í sjóstöng í óvissuferðinni okkar ásamt þeim gula

Þangað til næst
Kveðja Drífa.

föstudagur, 7. september 2007

Er ekki kominn tími til að tengja.....

Komið sæl og blessuð sem leið sína leggja á þessa ágætu síðu. Nú erum við flutt í Vanabyggðina á Akureyri og erum að koma okkur fyrir. Það er ekki frásögu færandi en við höfum nú búið hér í viku og fengum nettenginguna hjá Símanum í dag, já viku eftir flutninginn (sem átti að gerast á næstu 3 dögum) og jú það er árið 2007. Það var nú samt broslegt þegar ágætis kona hringdi hér í fyrra kvöld og bauð okkur aukna þjónustu hjá símanum sem byggðist á einhverju sem ég veit ekki hvað var, en...... við báðum hana vinsamlegast að koma því til skila að í stað þess að bjóða okkur eitthvað nýtt þá þætti okkur væntum að þeir hjá Símanum gæfu sér tíma til að sinna því sem við þegar bíðum eftir og höfum verið í ákrift með undanfarin ár þ.e. nettengingu okkar ágæta heimilis. En allavega, hér er ég komin aftur og mun vonandi verða dugleg í vetur að halda glæðum í þessari síðu.

Þangað til næst
Kveðja Drífa

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Til að segja eitthvað


Þangað til næst
Kveðja Drifa

mánudagur, 27. ágúst 2007

Sorg og gleði

Einhvernveginn virðist vera að fréttir af slysum og hörmungum, hvort sem er hér á landi eða úti í heimi, séu að hellast yfir mann þessa dagana nema ég sé eitthvað viðkvæmari en ella. Hörmungar á borð við bílslys, hitabylgjur, flóð, fólk í sjálfheldu á hálendinu, verðbólga, gengishrun og fleira umleika fréttatímana svo maður verður hálf þunglyndur og finnst lífið hálf vonlaust. Það koma þó gleðifréttir inn á milli s.s. 700 milljóna króna hagnaður af rekstri Smáralindar :o+ og fleira í þeim dúr.

Allt er vitlaust vegna reykinga og ekki-reykinga og Íslendingar þurfa að fara að hugsa sig um hvað varðar drykkju og ólæti í miðborg Reykjavíkur. Sumir kennarar setja kröfur um námstæki sem kosta of-fjár, einhverjir unglingar keyra á ofsahraða meðan aðrir bílstjórar eru teknir oft sama daginn fyrir ölvunarakstur. Já það er magt sem landinn þarf að hafa í huga og spurning hvort ekki sé hægt að halda hlýðni-námskeið til að koma í veg fyrir slíkar uppákomur. Spurning að tala við Óla Pálma :o)

En það er ekki nóg með að drykkja og reykingar séu að valda skaða heldur eru menn farnir að koma fyrir slysagildrum þ.e. gosbrunnum með járnbútum í botninum svona til að koma í veg fyrir að menn fari að baða sig á óæskilegum tíma í miðbæ Keflavíkur.

En svona að lokum dömur:
As we grow older women gain weight. This happens because we accumulate a lot of information in our heads.


Þangað til næst

Kveðja Drífa

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

Allta að gerast !

Hér er allt að gerast enda ég byrjuð að vinna á Akureyri og Eygló var að byrja í Brekkuskóla. Hún var bara brött eftir fyrsta daginn sem betur fer og vonandi á þetta eftir að ganga eins og í sögu. Það er bara fjör í vinnunni, fullt af börnum og nýju starfsfólki, svo okkur leiðist ekki. Það verður samt gott að flytja svo ég þurfi ekki að vakna sex til vinnu og koma okkur inn á Akureyri. Ég flyt semsagt næstu helgi svo það verður gott að taka upp úr kössunum og koma sér fyrir í sinni eigin íbúð. Annars er ég að hugsa um að hafa bara bílskúrssölu þar sem dótið hefur verið í nokkrar vikur í kössum og ég er í raun ekkert farin að sakna neins :o)

En best að fara að halla mér svo ég vakni í ferjuna
Þangað til næst
Kveðja DRífa

föstudagur, 17. ágúst 2007

Að ganga í skólann

Rakst á grein í Fréttum um hversu langt er fyrir börn að ganga til skóla (yfir 7-9 gatnamót) sökum sameiningar Barnaskóla Vestmannaeyja og Hamarsskóla. Ég verð nú að viðurkenna að ég sé ekki hver hagræðingin er að aldursskipta skólunum eins og ákveðið hefur verið að gera en manni er greinilega ekki alltaf ætlað að skilja stjórnarmenn þegar kemur að hagræðingu til að koma á sparnaðaráætlunum. En burt séð frá því þá fór ég að hugsa til baka, þegar ég gekk í Barnaskóla Vestmannaeyja, hversu langt ég þurfti að ganga og yfir hversu mörg gatnamót.

Dæmi 1: Frá Búastaðarbraut, yfir Helgafellsbraut (1), út Túngötu, Yfir Kirkjuveg(2), Yfir Skólaveg(3) komin í skólann

Þó svo gatnamótin hafi verið fá til skóla voru þau mun fleiri þegar koma að skólagreinum á borð við sund og leikfimi, auk tómstunda á borð við handbolta, sund, fótbolta, frjálsar osfrv. Þá var lengra fyrir mann að fara úr Austurbænum sérstaklega þegar æfingar voru orðnar að minnsta 10-15 sinnum í viku meðan maður var enn að sprikla í öllu og hafði ekki ákveðið hvaða íþrótt maður vildi fremur annarri.

Dæmi 1: Frá Búastaðarbraut, yfir Helgafellsbraut (1) út Túngötu, út kirkjuveg, yfir Heiðarveg(2), yfir Hólabraut (3), Yfir gangbraut á Kirkjuvegi (4) Yfir gangbraut á Illugagötu (5) Niður göngustíg að íþróttahúsi

Dæmi 2. Frá Búastaðarbraut, yfir Helgafellsbraut (1) niður Birkihlíð, Yfir Kirkjuveg (2), út Hvítingaveg, yfir Skólaveg (3), út Brekastíg og upp og yfir Vallargötu (4), ú Bessastig, yfir Boðaslóð (5), yfir Heiðarveg (6) yfir Hólagötu (7) Yfir Brimhólabraut og þar gekk maður göngustíg og svo yfir Illugagötu (8) og þá var maður loksins komin á leiðarenda.

Það var jú stutt fyrir nemendur í Hamarskóla í skólann og í íþróttir, heppin þau. Ég man líka þá tíð þegar maður þurfti hálf að hlaupa frá Barnaskóla í íþróttamiðstöð og svo til baka til að ná á réttum tíma í skólann aftur.

Þó svo hreyfing sé góð fyrir alla þá skil vel að foreldrar yngri barna séu vonskviknir yfir þessari breytingu enda langt fyrir barn sem er að hefja skólagöngu sína að ganga Austast úr bænum og mæta í Hamarskóla. Ég veit að dóttir mín hefði þurft að leggja í-ann klukkan 07:00 til að ná fyrir átta í skólann sökum þess að hún var í 35 mínútur að ganga frá Hásteinsblokk í Barnaskólann þar sem hún þurfti að ganga yfir tvær umferðargötur og fór að sjálfsögðu ekki yfir fyrr en hafði gengið í skugga um að allir bílar væru farnir svo hún lenti ekki undir þeim.

Vona að allar þessar breytingar eigi eftir að gleðja íbúa í Vestmannaeyjum og það eigi allir eftir að verða sáttir á endanum, hvort sem þeir ná fram skólabíl eður ei.

Gangi ykkur allt í haginn

Þangað til næst

Kveðja Drífa.

fimmtudagur, 16. ágúst 2007

Börn og leikföng

Varð nú að skrifa nokkrar línur fyrir svefninn, er enn í fríi ef einhver er að spá í tímasetningu þessara skrifa og var að undirbúa barnaafmæli sem verður haldið á morgun. Hef semsagt verið að dunda mér við að búa til Svamp Sveinsson í kvöld auk þess að sinna gestum og gangandi. Ég fékk smá löngun til að skrifa nokkrar línur sökum frétta í kvöld.

Fjallað var um afturköllun á leikföngum sem máluð hafa verið með einhverju efni og innihalda segla sem ekki eru vottaðir og eru taldir hættulegir börnum ef ég skil þetta rétt. Fréttamaður spurði eftirlitsfulltrúa okkar Íslendinga um málið: Hvaða afleyðingar getur þetta haft á börnina. Okkar kona svaraði eitthvað á þessa leið " það er mjög hættulegt ef barn hefur borðað mörg stykki en afleyðingarnar eru þær að ristillinn fellur saman og svo fram vegis.......
Það er nú hægt að misskilja þetta en börn borða ekki mörg stykki af leikföngum enda borða þau sem betur fer ekki leikföng heldur sleikja þau eða naga. Hún hefði mátt orða þetta betur blessuð konan því hún er sjálfsagt að tala um þessa tilgreindu segla því ég hef unnið í leikskóla í 10 ár og ekkert leikfang, hvað þá mörg, hefur verið étið í minni leikskólatíð og á vonandi aldrei eftir að verða.

Þangað til næst
Kveðja Drífa.