miðvikudagur, 31. desember 2008

Síðasta blogg ársins 2008

Ég ákvað nú að skrifa nokkrar línur í tilefni síðasta dags ársins en viðurkenni að ég hef ekki verið dugleg að halda þessari síðu við.
Ég vil byrja á að óska öllum gleðilegrar hátíðar og vonandi hafa allir notið jólanna á sinn hátt með sínu sniði. Árið hefur verið erfitt og margir hafa þurft að breyta töluvert lífsvenjum sínum sem var kannski gott að vissu leiti. Við þurfum að skoða viðhorf okkar og lífsgildi og haga okkur eins og fólk. Ég veit að flestir hafa lifað samkvæmt efnum, en við getum gert miklu betur. Við þurfum ekki allt það sem við höfum veitt okkur undanfarin ár, það má margt fara betur hvað það varðar.

Mótmælendur hafa sett svip á árið og unnið hörðum höndum að því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að láta skoðanir sínar í ljós og fella ríkisstjórnina. Ég veit ekki hvað skal segja um þá fellingu, hver á að taka við?? Varla þeir sem nú eru að eyðileggja tæki og tól stöðvar tvö og hyndra útsendingu Kryddsíldar, ekki vil ég það fólk í stjórn, það eitt er víst. Ég efast um hver er hæfur til að taka við eftir allt sem á undan er gengið. Nú er bara að sjá hvað nýtt ár ber í skauti sér fyrir okkur almúgann því við getum minnst gert í raun þó svo við getum látið í okkur heyra og vonast til að á okkur sé hlustað. Skemmdarverk er ekki rétta leiðin að mínu mati, aldrei, og boðar ekki gott.

Við fjölskyldan höfum haft það þokkalegt um jólin, borðað góðan mat og glatt aðra með gjöfum og þegið kveðjur og gjafir frá vinum og ættingjum. Fjölskyldan er að stækka sem er gleðilegt og vonandi gerist það á allra næstu dögum. Það eru því miklar breytingar í vændum hér í Vanabyggðinni sem vonandi verða til ánægju og yndisauka þrátt fyrir efnahagsástand og stöðu þjóðarinnar á heimsmarkaði. Lífið mun vonandi halda áfram sinn vanagang þar sem skólaganga, íþróttir, atvinna og eðilegt fjölskyldulíf getur gengið óhyndrað.

Nú er ég búin að bulla út í eitt og vil að lokum óska öllum gleðilegs nýss árs og vonandi verður sprengjum við slæmt ástand á brott og vöknum á morgun kát og hress til að takast á við komandi ár. Gangið hægt um gleðinnar dyr og eigið gott kvöld og komandi nýárs nótt.

Kveðja Drífa

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Latasti bloggari á veraldarvefnum?

Ætli ég sé ekki einn latasti bloggari sem tjáir sig á veraldarvefnum eða hvað? Reyndar eru margir latari en ég þó svo það réttlæti ekki leti mína, en hvað um það. Hér er allur snjór að verða farinn og græt ég það ekki. Það er mun auðveldara að ferðast um hér á Akureyri þegar ekki er snjór. Eina sem mér þykir miður er að þegar snjóa leysir þá verður dimmt. En við látum það ekki á okkur fá hér í Vanabyggðinni frekar en annað sem dynur yfir landann heldur kveikjum á kerti og kúrum okkur hér í kotinu.
Svona ykkur að segja þá ætlar hún Kristín Aðalsteinsdóttir að vera leiðsagnarkennarinn minn í meistaraprófsritgerinni og hittumst við einmitt í gær. Ég hef ákveðið viðfangsefni og nú er að leggjast yfir heimildir og rannsóknir sem snúa að viðfangsefninu. Þetta á svo allt eftir að skýrast þegar fram líða stundir, en ekki meira um það í bili enda allt á byrjunarstigi.

Nú er jólahátíðin að nálgast og ég farin að huga að undirbúningi enda gott að vera tímanlega á ferðinni hvað þetta varðar. Annars hef ég setið undanfarin kvöld og prjónað kjól á yngri dömuna og held ég að hann heppnist bara vel, virkilega smekklegur kjóll :o) svona ykkur að segja.

En ef ég horfi út fyrir fjölskylduna þá er ég að verða þokkalega bit á ástandinu sem ríkir í heimi fjármálanna hér á landi og spyr mig hvernig hægt er að ganga svo langt í svikum og prettum. Hvers vegna þarf öll þjóðin að blæða fyrir sukk ákveðinnar prósentu þjóðarinnar. Ég tók ekki þátt í kaupæði þjóðarinnar og ofurfjárfestingum hvorki hér á landi né erlendis. Hlutabréf hef ég aldrei átt og gamblaði því ekki með slíkt, ég á ekki jeppa né tvo bíla, ekki sumarhús á Íslandi né erlendis, ekki fellihýsi, tjaldvagn, húsbíl né gamalt skátatjald. Fataskápurinn minn er eins tómur og hann hefur verið alla mína ævi, þ.e. aðeins flíkur sem ég þarf á að halda hanga þar, flestar keyptar í Hagkaup og sokkarnir í Rúmfó. Það hanga ekki málverk á veggjunum, húsgögnin koma úr öllum áttum og þá helst úr Rúmfó eða frá öðrum heimilum sem hafa endurnýjað búslóðina. Stimplarnir í passanum mínum eru ekki fleiri en tveir á síðustu 6 árum en þeir voru ánægjulegir. Hvers eigum við að gjalda segi ég nú bara. Jú ég asnaðist til að kaupa mér hús með erlendum lánum og..... Já svona er lífið og við borgum bara þegjandi og hljóðalaust okkar himinháu reikninga með bros á vor :o)

Til hamingju Obama, hristu nú upp í liðinu.

Þangað til næst

Kveðja Drífa

mánudagur, 20. október 2008

Kuldaboli bankar á dyr..... brrr....

Já það má segja að vetur konunur hafi sent bola mjög snögglega til okkar, eða þannig. Maður er reyndar ofsalega hiss á hverju ári þegar fyrsti snjórinn fellur og hefur áhrif á færð. Annars finnst mér snjórinn fínn meðan ég þarf ekki mikið að vera á ferðinni akandi enda fer maður bara það nauðsynlegasta þessa dagana.

En frá snjó til ánægjulegra efnis. Ég ætla nú að geta þess hér að hann faðir minn átti afmæli þann 17. október og náð góðum aldri blessaður, Til hamingju með afmælið pabbi. Hún Lilja amma hefði orðið 87 ára sama dag en hún var svo lukkuleg að fá drenginn í afmælisgjöf á sínum tíma, ekki slæm gjöf þar á ferð.


Annars er lítið að gerast hér í Vanabyggðinni nema allir hressir og kátir eins og gengur og gerist. Brjálað að gera hjá Guðný og Aroni í skólanum en líka gaman að vera til. Ég sjálf bíð enn eftir að fá leiðsagnarkennara en það á víst að skýrast á næstu dögum. Hlakka til að fara að gera eitthvað af viti. Hef reyndar setið við prjónaskap að undanförnu og svo jólakortagerð sem er bara skemmtilegt. En nú ætla ég að fara að halla mér og segi bless

þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 7. október 2008

Þetta er nú ekki hægt lengur, þvílík leti. Ég hef ekki skrifað staf hér síðan í ágúst en það er ekki þar með sagt að ekkert sé í gangi í lífi okkar hér í Vanabyggðinni. Vinnan hófst eftir miðjan ágúst og skólarnir byrjuðu sem betur fer fljótlega á eftir, alltaf gott þegar allir eru á sama róli. Það hafa sem sagt allir hér verið á fullu við nám og störf, ekki veitir af að efla tekna og þjálfa hugann. Já tekjurnar duga skammt þessa dagana svo jákvæðni er eitthvað sem við hér á þessu heimili notum til að fleyta okkur áfram auk þess að láta okkur þykja vænt um hvort annað. En þar sem ég er búin að fá nóg af krepputali og lausnum sem að sjálfsögðu allir hafa í handraðanum læt ég fjármálaumræðu þjóðfélagsins liggja milli hluta.

Guðný er á kafi í skólanum og á vonandi eftir að plumma sig vel í vetur eins og hún hefur gert alla sína skólagöngu. Hún vinnur á Bautanum annað slagið og er farin að æfa Karate, já passið ykkur bara. Eygló er dugleg í skólanum og svo er brjálað að gera hjá henni í fimleikunum. Hún er komin í keppnishóp og fer líklegast til R. víkur í nóvember til að keppa ásamt hinum dömunum í I-2 en það mun vera hópurinn hennar. Ómar er enn í Byko og svo Vélsmiðjunni um helgar, ekki við drykkju og dans heldur við störf haha. Ég hef það bara gott þrátt fyrir aldur og fyrri störf. Vinnan í Kiðagili er mjög skemmtileg enda frábært starfsfólk og svo barnahópur hjá okkur eins og alltaf. Ég steig stór skref í síðustu viku aftur inn í Háskólann á Akureyri og hyggst LOKSINS hefja meistaraprófsskrif. Já óskið mér til hamingju. TIL HAMINGJU DRÍFA :o) Það verður erfitt að byrja en líka skemmtilegt enda hef ég þörf fyrir að hefja áframhaldandi hugarþjálfun. Ég hef semsagt lagt fram einhverskonar hugmynd að efni í ritgerðina svo nú er verið að skoða hver getur orðið leiðsagnarkennarinn minn og þá fer boltinn að rúlla, vonandi hratt.

Jæja það er best að hætta þessu þvaðri og hver veit nema ég kíkki hingað inn aftur fyrir jól.
  • Njótum þess að vera til eins og okkur er unnt
  • látum ekki áhyggjur af heimsmálum þjaka sálina því hún er mikilvægari en aurar
  • notum hvern dag til að gleðja einhvern sem okkur þykir vænt um án þess að það kosti peninga.

Og að lokum af því ég nefndi jólin þá líður senn að jólum og mikilvægt að muna að hugurinn er það sem skiptir máli



Gangi ykkur allt í haginn
þangað til næst
Kveðja Drífa

þriðjudagur, 12. ágúst 2008

Blogg-leti

Nú er sumarfríið á enda hjá okkur hjónum og verður gott þegar allt er komið á rétt ról, skóli hjá dömunum og alles. Ég hef víst ekki bloggað síðan um verslunarmannahelgi en svona til að ljúka öllum skrifum um þá helgi þá var skemmtunin á Akureyrarvelli á sunnudagskvöldið frábær í alla staði og flugeldasýningin gat ekki verið betri. Skipuleggjendur eiga heiður skilið fyrir skemmtilega helgi og vonandi verður skipulag í þessa átt í framtíðinni.

Björg vinkona dvaldi hjá mér í síðustu viku ásamt fjölskyldu og var virkilega gaman að fá þau hingað norður. Við hittumst alltof sjaldan. Við fórum dagsferð í Mývatnssveit með nesti og nýja skó og fórum í göngu um Dimmuborgir sem er mjög fallegur staður. Stefni á að skella mér þangað aftur í desember með Eygló til að hitta sveinkana sem líklega verða þar á ferli.

Annars áttum við bara notalegar stundir auk þess að skella okkur á Dalvík föstudagskvöldið. Við fórum á súpukvöldið sem var mjög skemmtilegt og margt um manninn. Á laugardeginum fór Björg heim til Grindavíkur með allt sitt hafurtask og við skelltum okkur á Fiskidaginn til að sjá herlegheitin. Við smökkuðum eitthvað af fiski, kíktum á markaðinn og Eygló skellti sér á hestbak og svo var haldið heim á leið. Þetta var fyrsta heimsókn mín á fiskidaginn og skemmtilegt hve margir leggja leið sína þangað. Skemmtilega fjölbreyttir fiskréttir voru í boði í miklu magni og gos og íspinnar flæddu um svæðið. Ég vil óska Júlla til hamingju með daginn, hann á heiður skilið fyrir áhugaverða og skemmtilega hátíð. Eitt fannst mér þó með ólíkindum. Þrátt fyrir augljós ruslakör um alla bryggju og fjölda starfsmanna sem sá um að tæma þau þá rataði rusl gestanna ekki alltaf rétta leið og mátti sjá pappadiska, servéttur, gosglös og sælgætisbréf víð og dreif um bryggjuna. Er ekki málið að við Íslendingar förum að ganga betur um. Ég myndi ekki nenna að bjóða fólki til veislu ef það henti leirtauinu og matarafgöngum á gólfið að lokinni veislu og færi svo heim án þess varla að þakka fyrir sig. Að lokum. Takk Dalvíkingar fyrir góðar móttökur og skemmtilega hátíð.

En nú er alvaran tekin við eftir gott sumar hér norðan heiða, sól og ferðalög um nærsveitir.
Hver veit nema ég sýni dugnað og setji myndir inn á næstu dögum

Þangað til næst

Kveðja Drífa

sunnudagur, 3. ágúst 2008

Verslunarmannahelgin

Frá því ég bloggaði síðast höfum við fjölskyldan haft það gott í sólinni og hitanum og notið þess að vera til þó svo Guðný eyði mestum tíma á Bautanum í vinnu. Ég og Elfa vinkona skelltum okkur í fjallgöngu í vikunni og gengum á súlur. Við gátum ekki fengið betra veður og ekki hægt að fá betra útsýni þó svo hitinn hafi reyndar verið að stríða okkur aðeins. Við komumst samt heilar heim, óbrenndar.

Ég, Ómar og Eygló skelltum okkur svo einn dag út í Hrísey og kíktum í nokkur hús :o) Við enduðum svo með að borða hjá tengdó áður en við yfirgáfum eyjuna og svo var farið beint til Þórunnar og Rúnars á sandinum í smá kaffisopa áður en haldið var heim á leið.

Vikan flaug áfram og áður en við vissum af var komin verslunarmannahelgi og Eygló varð 9 ára gömul þann 1. ágúst. Við héldum nú ekki upp á afmælið en áttum að sjálfsögðu nóg með kaffinu fyrir þá sem áttu leið hjá. Afmælið verður síðan þegar skólinn hefst í haust enda fáir heima á aðalferðatími ársins. Til hamingju með afmælið Eygló mín

Í gær skunduðum við í bæinn og fórum á tónleika í Akureyrarkirkju, mjög gaman og Eygló fór í Tívolí. Svo var haldið niður í bæ á kaffihús og kíkt á mannlífið. Í dag var vaknað snemma til að fara í lautarferð. Við fórum með nesti og nýja skó í listigarðinn og það sem hljómaði í eyru okkur þegar við gengum inn var lagið um hana Hríseyjar-Mörtu, þá vissum við að við vorum á réttum stað. Við áttum notalega stund í listigarðinum við undirspil hljómsveitarinnar Húsbændur og hjú, skemmtilegt band, í góðu veðri þrátt fyrir sólarleysi. Að loknum tónleikum fórum við á opnun listasýningar í Ketilhúsinu, skelltum okkur í að horfa á Jane Fonda leikfimi við Amtbókasafnið meðan börnin fóru í Tívolí. Svo var notið blíðunnar á Bláu könnunni með kaffi og með því og ekki var verra að sólin fór að skína. Kvöldið í kvöld var ekki síðra. Við fórum á skemmtun í miðbænum þar sem Páll Óskar, Hljómsveitin Von, Sigga og Bryndís Ásmunds og fleiri skemmtu gestum. Þess má geta að 80´s er þema hátíðarinnar og mátti sjá skemmtilegan klæðnað og tóku hárgreiðslustofur í bænum að sér að greiða gestum og gangandi.



Fréttamennska er oft dularfull en í kvöldfréttum á Stöð 2 í kvöld var fjallað um útihátíðir á borð við Þjóðhátið og svo Eina með öllu og allt undir. Í dalnum var talað við fjölskyldufólk í hvítu hústjaldi (nokkuð örugg frétt ár frá ári) og áhersla lögð á fjölskyldustemmu í fréttinni. Það var svo einkennilegt að sjá hvað fréttamönnum þótti fréttnæmast hér á Akureyri. Fréttamaður var á unglingatjaldstæðinu og talaði þar við unglinga undir áhrifum áfengis sem veifuðu bala fullum af öli og beruðu svo á sér bossan framan í myndavélina. Mikið vildi ég að fréttamaður hefði frekar skellt sér í listigarðinn með vélina eins og ég gerði eða í miðbæinn þar sem mikið var um skemmtilega viðburði og listafólk af ýmsum toga skemmti gestum. Fréttamenn á ruv gáfu þeir sér tíma til að mynda frábæra viðburði sem hér var að finna enda af nógu að taka og sýndu áhorfendum. EN, nóg um það.
Nú ligg ég eins og klessa við tölvuna og ætla fljótlega að fara að koma mér í bælið meðan Ómar er í vinnu á Vélsmiðjunni og Guðný og Aron eru að tjútta með Páli Óskari og Eygló sefur á sínu græna.
Þangað til næst
Kveðja Drífa (Set inn myndir síðar)

miðvikudagur, 30. júlí 2008

Sólin, hitinn og lognið er hér, hvernig spyr ég.

Það hefur ýmsilegt verið brallað síðan ég ritaði hér síðast enda gengur ekki að liggja í leti og gera ekki neitt. Við skelltum okkur á Hríseyjarhátíð (Sorry Gréta og Óli ef þið komuð við, ég verð vonandi heima næst) sem fór mjög rólega fram enda svosem ekki mikið um að vera. Þetta var samt sem áður ágætis helgi, afmæli hjá Kristínu vinkonu, rölt um svæðið og spjall við góða vini auk þess sem Eygló tók þátt í þeim keppnum sem í boði voru. Við kíktum jú á Fossinn til að hlusta á Jazzbandið, Ómar skellti sér í óvissuferð og þar sem lítið var fyrir unglingana þá fóru Guðný og Aron í miðnætur-dráttarvélaferð sér til gamans að loknum brekkusöng. En nóg um sjóferð þá. Eygló var í öðru sæti í söngvakeppni hátíðarinnar og hér má sjá mynd af vinningshöfunum. Brosa :o)








Að lokinni hátíð var haldið heim á leið og síðan ákveðið að skella sér í Ásbyrgi á miðvikudegi og vera fram á föstudagskvöld. Guðný kom reyndar ekki með þar sem hún var á leið til Fáskrúðsfjarðar til að taka þátt í Frönskum dögum. Við áttum skemmtilegar stundir í byrginu :o) í geggjuðu veðri með skemmtilegu fólki. Begga, Svenni og börn voru stödd þarna og Elfa, Harpa og Alexander komu í dagsferð enda geta ekki án okkar verið. Á miðvikudagskvöldið fórum við inn í botn með dömurnar og áttum þar notalega stund í geggjuðu veðri.










Við konurnar skelltum okkur í göngu á fimmtudeginum og var gengið á Eyjuna í Ásbyrgi sem var nú reyndar styttri ganga en áætlað var en ágætis hreyfing fyrir grillveisluna. Karlpeningurinn gekk á golfvellinum sér til heilsubótar. Á föstudeginum fórum við ásamt Svenna, Beggu og dömunum að Dettifossi og síðan í hljóðakletta og voru það þreyttir ferðalangar sem lentu á Akureyri um miðnætti á föstudagskvöld eftir stutta viðkomu á Mærudögum á Húsavík. Helginni eyddum við síðan hér heima enda gott að komast í bælið sitt eftir útilegur og útiveru.



Skemmtileg mynd af Eygló við Dettifoss


Þangað til næst

Kveðja Drífa